Við mikla streitu verður öndun hröð og grunn, sem getur leitt til stífni í öxlum og hálsvöðvum og jafnvel til höfuðverkja og annarra líkamlegra kvilla. Langvarandi streita getur síðan magnað upp þessi einkenni, en ein leið til að losa um neikvæða orku er að nota djúpa meðvitaða öndun. Um leið og öndunin verður hægari og dýpri berast heilanum skilaboð um að umhverfið sé öruggt og óhætt sé að slaka á. Með tímanum getur djúp meðvituð öndun komið jafnvægi á taugakerfið.
Hér að neðan eru einfaldar öndunaræfingar:
Fylltu kviðinn af lofti
-
Komdu þér fyrir í þægilegri stöðu. Lokaðu augunum og færðu athyglina yfir á líkamann og öndunina.
-
Andaðu djúpt í gegnum nefið og leyfðu kviðnum að fyllast af lofti og þenjast rólega út. Andaðu svo út með því að slaka á og losa allt loft út um nefið.
-
Settu aðra hönd á kviðinn, rétt neðan við nafla og hina höndina ofan á brjóstkassann. Dragðu andann djúpt í gegnum nefið og andaðu frá þér í gegnum nefið. Finndu svalandi loftið við innöndun og heitara loft þegar þú andar frá þér.
-
Á meðan þú andar að þér gættu þess að kviðurinn þenjist meira út en brjóstkassinn. Með öðrum orðum, láttu höndina á kviðnum hreyfast meira en höndina á brjóstkassanum. Dragðu að þér loftið og sendu það aftur í háls og niður i maga. Kviðurinn á svo að dragast saman þegar þú andar frá þér.
-
Andaðu þrisvar í viðbót, hægum og djúpum andardrætti á meðan þú ert meðvituð/aður um að kviðurinn þenst út og dregst saman. Haltu áfram þar til hægist á andardrættinum og þú verður slakari.
Ein mínúta, sex andardrættir
Taktu tímann og andaðu sex sinnum að þér og frá í eina mínútu. Hver andardráttur tekur 10 sekúndur. Fyrir byrjendur gæti verið auðveldara að taka 8 andardrætti á mínútu.
Gott er að gera þetta þrisvar á dag, að morgni, um miðjan dag og rétt áður en þú ferð í háttinn. Með þessari æfingu hægist á hjartslættinum og líðan batnar.
3-4-5 öndun
Aðferðin gæti varla verið auðveldari en hún gengur út á að anda að sér í 3 sekúndur, halda í sér andanum í fjórar sekúndur og anda frá sér í fimm sekúndur. Hægt er að gera þetta nokkrum sinnum í röð eða lengja tímann upp í fimm mínútur. Þessi æfing gagnast þeim afar vel sem eru viðkvæmir fyrir kvíða og streitu.
Boxöndun
Hægt er að gera þessa æfingu hvenær sem er en hún er sérlega áhrifarík rétt fyrir svefninn. Andaðu að þér í fjórar sekúndur, haltu andanum í fjórar, andaðu frá þér í fjórar og haltu andanum í fjórar. Þessi æfing lækkar streitustigið, róar taugakerfið og kyrrir hugann.
Heimild: VelVirk og The Stress Solution.
Athugasemdir