Í viðtali við danska útvarpið, DR, sagði Mattias Tesfaye menntamálaráðherra frá því að sér hefði brugðið illilega þegar sonur hans hefði sagt að hann hataði lestur meira en rigningu og spínat. „Ég vissi að honum var illa við rigningu, og spínat vildi hann ekki láta inn fyrir sínar varir. En þegar hann sagðist hata lestur meira en þetta tvennt, þá hrökk ég við.“ Ráðherrann sagðist hafa velt því mikið fyrir sér hverning á því gæti staðið að sonurinn vildi ekki lesa. „Til að reyna að opna augu hans fyrir þeirri ánægju sem fylgir bóklestri ákvað ég að lesa fyrir hann, þurfti bara að finna eitthvað sem höfðaði til hans.“ Fyrir valinu varð bókin „Ég er Zlatan“ bókin um knattspyrnumanninn Zlatan Ibrahimovitz og ferð hans frá íbúðarblokk í Malmö til stærstu knattspynuleikvanga heims. Zlatan er einn þekktasti knattspyrnumaður Svía fyrr og síðar, skoraði 62 mörk fyrir sænska landsliðið, fleiri en nokkur annar. Mattias Tesfaye hafði sannarlega hitt naglann á höfuðið með valinu á bókinni um Zlatan, og sagði syninum að ekki yrði lesinn meira en einn kafli í hvert skipti. Þegar lestrinum á fyrsta kafla lauk spurði sonurinn hvenær ætti að lesa næsta kafla. „Þótt það sé ég, en ekki hann, sem les held ég að það sé langtum betra að sitja saman í sófanum yfir bókinni en að neyða barnið til að lesa í t.d. 20 mínútur á hverjum degi. Slíkt getur haft þveröfug áhrif,“ sagði Mattias Tesfaye.
20 mínútur
Það var ekki tilviljun að Mattias Tesfaye nefndi 20 mínútna lestur. Fyrir allmörgum árum var mælt með því í Danmörku að börn læsu í að minnsta kosti 20 mínútur á hverjum degi. Rannsóknir höfðu sýnt að börn sem væru vel læs og læsu sér til gagns ættu auðveldara með að tjá sig, hefðu meira sjálfsálit og gengi betur í námi og starfi. Í könnun Pisa-stofnunarinnar árið 2009 kom fram að börn sem lesa að jafnaði 20 mínútur á dag auka lestrarskilningshæfni sína umtalsvert, nánar tiltekið sem munar heilu skólaári.
Þótt 20 mínútna dagleg lesning væri ekki gerð að skyldu (sem lögð væri á herðar foreldra eða forsjáraðila) mæltu dönsk kennslumálayfirvöld eindregið með því að þessum ráðleggingum yrði fylgt. Fjölmargar bækur sem hentuðu til 20 mínútna lestrar streymdu á markaðinn og ýmsum leiðbeiningum var dreift til heimila með börn á skólaaldri.
Mælt var með að gera lesturinn að föstum lið á heimilinu, líkt og kvöldmat og tannburstun.
Lesa upphátt fyrir yngri börn og að fullorðna fólkið lesi samtímis eldri börnum 20 mínútur á dag.
Bækur sem auðvelt væri að blaða í og skoða væru til staðar á heimilinu.
Tala um bækur og segja frá ýmsu sem þau fullorðnu hafa lesið.
Fara á bókasafnið með börnunum og gefa sér tíma til að fletta í bókum og skoða teiknimyndasögur.
Efasemdir um skyldulesningu
Margir skólar beindu eindregnum tilmælum til forráðamanna barna að láta þau lesa 20 mínútur á degi hverjum. Fljótlega fóru að heyrast efasemdaraddir. Margir töldu að 20 mínútna krafan gæti hæglega orðið til að draga úr lestrarlöngun barna. Í umfjöllun dagblaðsins Politiken um lestur grunnskólabarna kom fram að allir foreldrar sem við var rætt voru sammála um nauðsyn lestrar en höfðu mismunandi skoðanir á hvernig hægt væri að auka lestraráhuga og færni barna. Foreldrar fimm barna greindu frá því að elsta barnið hefðu þau látið fylgja 20 mínútna lestrarreglunni, það gekk ekki vel. Hjá tveimur næstelstu börnunum breyttu þau um „taktík“, þau lásu 5 til 10 mínútur nokkrum sinnum í viku, og það gekk vel. Börnin hlökkuðu til að lesa og vildu halda áfram þótt 10 mínúturnar væru liðnar sem þau fengu. Sömu aðferð beittu foreldrarnir við yngstu börnin sem höfðu fylgst með þeim eldri og gátu varla beðið eftir að skipta myndabókunum út.
Frammistaða í stað skilnings
Margir kennarar töluðu um að dönskukennslan hefði á síðustu árum orðið of frammistöðumiðuð, og krafan um hraða hefði bitnað á lesskilningi. Kennari við Kristrup-skólann í Randers á Jótlandi nefndi sem dæmi að áður hefði ekki einungis verið lesið um galdranornir, börnin hefðu líka fengið að teikna nornir eftir eigin hugmyndum og síðan borið saman myndirnar og talað um þær og ýmislegt fleira tengt því sem þau höfðu heyrt um nornir. „Þetta getum við ekki lengur, tíminn leyfir það ekki, við eigum að halda áfram.“
„Stjórnmálamennirnir eiga stóran þátt í því hvernig komið er
Mattias Tesfaye menntamálaráðherra sagðist í viðtali við Politiken vera sammála lýsingu kennarans í Randers. „Stjórnmálamennirnir eiga stóran þátt í því hvernig komið er, þar sem hraðinn er fyrir öllu. Þessu þurfum við að breyta,“ sagði ráðherrann. Hann nefndi líka að hér áður fyrr hefði mörgum ekki þótt nógu fínt (orðalag ráðherrans) að börnin læsu teiknimyndasögur. „Andrés Önd kenndi mér að lesa, aðalatriðið er að börnin lesi, getur þess vegna verið bakhliðin á kornflexpakka, þurfa ekki að vera heimsbókmenntir,“ sagði Mattias Tesfaye.
Nauðsynlegt að efla skólabókasöfnin
Um langt árabil hafa dönsk skólabókasöfn, langflest, mátt búa við mikinn niðurskurð. Kristian Dissing Olesen, varaformaður danska skólastjórafélagsins, sagði í viðtali við dagblaðið Politiken að stjórnmálamennirnir beri ábyrgð á hvernig komið sé fyrir söfnunum, „allt átti að vera á netinu, bækur sem slíkar væru ónauðsynlegar. Ef vilji er til að auka lestraráhuga barna er nauðsynlegt að efla skólabókasöfnin,“ sagði Kristian Dissing Olesen. Með breytingum á skólakerfinu árið 2014 urðu miklar breytingar á skólabókasöfnunum, urðu það sem var kallað námsver (pædagogiske læringscentre, PLC) bækurnar hurfu úr hillunum. Öll námsgögn áttu að vera á netinu og skólabókasafnsfræðingarnir hurfu. Mattias Tesfaye menntamálaráðherra segir þá ákvörðun að leggja skólabókasöfnin af séu ein stærstu mistök sem gerð hafi verið í málefnum grunnskólans.
Skólar, foreldrar og stjórnvöld verða að leggjast á eitt
Allir virðast sammála um að lestrarleiði danskra barna sé áhyggjuefni og allir virðast líka sammála um að bregðast þurfi við. Allir eru sömuleiðis sammála um að það taki langan tíma að „snúa þessu stóra skipi“ eins og menntamálaráðherrann komst að orði. Þar þurfi allir að leggjast á eitt, skólar, foreldrar og stjórnvöld.
„Við vitum að mörgum börnum leiðist að lesa, við vitum ekki hvers vegna, við vitum ekki hvað þarf til, en við vitum að þessu verður að breyta,“ sagði ráðherrann.
Athugasemdir