Í verslun gegnt heimili okkar hjóna er hægt að kaupa lítinn pakka með sex LGG-plaststaukum. Í hverjum þeirra, sem ég get falið í hendi, eru milljarðar lífvera. Þær eru ósýnilegar nema með öflugri smásjá, þessar vinalegu örverur, svokallaðar bakteríur, en teljast nauðsynlegar meltingu mannvera. Í okkar veröld, á allt öðrum mælikvarða, lifa líka milljarðar lífvera af manntegundinni, með fræðiheitinu homo sapiens. Umbúðir þeirra eru lítil, bláleit pláneta með örþunnu lagi af lofthjúpi sem leyfir þeim að draga lífsandann og hugsa hlutlægt eða óhlutlægt. Gerir mannverurnar að eigin örlagavaldi því þær eru fangar á sínum stað eins og bakteríurnar á sínum. Að minnsta kosti í náinni framtíð geimferða.
Nýlega skrifaðist mannfjöldinn sem átta komma núll tuttugu og fimm milljarðar einstaklinga, það er rétt yfir 8.000.000.000 markinu. Sambýli fólksins, hreyfanleiki þess, öflun gæða úr náttúrunni og ólíkar hugmyndir um ótal málefni mynda gríðarlega flókið mynstur og óreiðukennt, mótsagnakennt rennsli daganna. Mínu lífi og minni tilvist má líkja við ferli eða stöðu einnar bakteríu. Í heildarsamhengi er ég sama sem ósýnilegur. Sé horft til jarðar úr Alþjóðageimstöðinni er ég ósýnileg vera líkt og ein ögnin í LGG-stauk, að vísu miklu langlífari en hún.
Þessi svipmynd blasir við á stærri mælikvarða. Nægir að horfa til milljarða annarra sólkerfa en okkar innan sveiplaga vetrarbrautarinnar sem geymir jörðina. Hvert okkar er ekki stórt fyrirbæri í iðunni þeirri. Enn frekar ef horft er lengra, til milljarða annarra vetrarbrauta, hverrar á sinni þróunarbraut. Löng þekkingarleit mín hefur afhjúpað mér þessa stöðu mannsins og, þrátt fyrir allt, einnig mikilleik mannkyns. Hópurinn sá, einn allra sem við vitum um í alheimi, getur gert sér allvel grein fyrir stöðunni. Komist langt með að skilja gangverkið. Rannsakað ótal þætti í lífi örsmárra baktería jafnt sem þróaðri lífvera og sjálfs sín. Samtímis er mikilleiki mannsins hverfandi og á mælikvarða baktería frammi fyrir stærð alheimsins, náttúrukröftunum og gátum um uppruna hans, um líf í alheimi og framtíðina.

Lýðræði gegn auðhyggju
Á nokkur þúsund árum af 4 til 5 milljarða ára tilvist jarðar hefur maðurinn náð ótrúlegri færni við að greina lífið og takast á við áskoranir þess. Saga hans er þó vart lengri en 3 til 4 milljón ár miðað við færni og greind. Hann hefur getað létt sér lífið, eins þótt þar muni miklu eftir svæðum, menntun og efnahag. Hann kann að lækna, hjálpa náunganum, elska aðra manneskju skefja- og skilyrðislaust og skapa listir. Samhliða þróun þessara eiginleika ólga andstæður. Hatur, ágirnd, ásælni og drápsgeta hafa litað daga mannkyns frá því að ég fæddist undir árslok 1948. Hópar eða þjóðir berast á banaspjót vegna haturs á öðru fólki, jafnvel í nafni trúarbragða. Enn eru framin þjóðarmorð. Ein þjóð ræðst á aðra til að ræna hana landi eða auðlindum vegna hagsmuna sem innrásarliðinu þóknast að skilgreina. Stjórnlaus auðsöfnun er talin dyggð og víða er ein gerð menningar talin gnæfa yfir aðrar. Af þessu hef ég smám saman lært að aðhyllast ekki ein trúarbrögð, styðja ekki ásælni ríkja, meta menningu á ólíkum forsendum og standa með því sem mér þykir mikilvægt. Með lýðræði gegn auðhyggju og hvers kyns hugmyndafræði útþenslu, landvinninga, óhefts hagvaxtar og misskiptingu gæða sem honum fylgir.
„Lífið hefur kennt mér að taka þátt í tilraunum margra aðila á mínum þekkingarsviðum til að andæfa þróuninni og bæta um betur
Á tveimur til þremur öldum hefur maðurinn gengið svo hart á náttúru plánetunnar að langt og hættulegt erfiðleikatímabil blasir við. Auðlindaskortur vegna rányrkju, loftslagsbreytingar vegna ofbrennslu kolefnis, feiknatjón vegna náttúruvár og fyrirsjáanlegir fólksflutningar í stórum stíl eru meðal lærdóma lífsins. Þeir móta nú líf mitt svo um munar en ekki nándar nærri eins harkalega og öryggi, kjör eða aðstaða milljarðanna víða um heim.
Einurð, samstaða og samvinna
Lífið hefur kennt mér að taka þátt í tilraunum margra aðila á mínum þekkingarsviðum til að andæfa þróuninni og bæta um betur. Mér ber að skila þekkingu og staðreyndum til samfélagsins og kalla eftir samstöðu við að andæfa hernaðarbrölti og ofbeldi gegn þjóðum og minnihlutahópum, við að hjálpa ofsóttum að verjast og snúa loftslagsógninni við. Hvetja til orkuskipta, hringrásarhagkerfis og jafnvægis milli náttúrunytja og náttúruverndar. Styðja mannréttindi hvarvetna. Kreddufesta, á þeim árum sem ég tók þátt í tilraunum ungra kommúnista til að byggja upp stjórnmálaflokk til vinstri við þáverandi Alþýðubandalag, hefur vikið fyrir raunsæi og mikilvægi málamiðlana og samstöðu vinstrisinna.

Geta nokkurra stórvelda og kjarnorkuvelda til þess að stórskaða veröldina er augljós. Sömu ríki leggja allt of lítið fram til úrbóta í loftslagsmálum og afneita afvopnun. Nú er hægt að nánast afmá þjóðir, lífheildir í náttúrunni og stórskaða lofthjúpinn í langan aldur með einni skipan sem kveikir vítahring kjarnorkustyrjaldar. Líkt og afmá má milljarða örvera með því að hella úr LGG-stauk í vaskinn. Lífið hefur kennt mér að ábyrgð okkar allra á framvindunni er misskipt. Þau öfl bera mesta ábyrgð sem mestu ráða. Við hin getum þó áorkað miklu með einurð, samstöðu og samvinnu.
„Lífið hefur kennt mér að ábyrgð okkar allra á framvindunni er misskipt
Erfiðari lærdómur
Lífið hefur kennt mér margt fleira en það sem ég hef valið í þennan pistil. Persónuleg, prívat reynsla er mér um margt mun mikilvægari en umfjöllunarefnin sem ég valdi að þessu sinni. Lærdómarnir oft erfiðari, vegferðin með þá lengri og birtan eftir þá bjartari. Handa lesendum Heimildarinnar ákvað ég engu að síður að fjalla fremur um ýmislegt sem varðar okkur sameiginlega á heimsvísu.
Stundum er sagt að fátt úr lífi milljarðanna lifi lengi. Munir og minjar segja öðrum harla lítið um hvern einstakling. Mannlýsingar og mannleifar hverfa fyrr eða síðar. Stundum er minnt á börn og gróðursett tré í þessum efnum – og þá einkum afkvæmi beggja og svo framvegis. Þær lífverur eiga þá að vera eins konar framlenging á hverju einstöku lífi. Hvað sem valið er í þessum efnum er þó unnt að segja að líf hvers og eins okkar er þáttur í trilljón ára langri þróun alheimsins, ásamt með LGG-bakteríunum og milljónum annarra tegunda á jörðinni.
Það er ekki svo lítið.
Athugasemdir