Rétt fyrir utan Brussel býr Marie1, búrúndískur mannréttindalögfræðingur sem þurfti að flýja land og vinnur nú á lager stórrar fataverslunar. Hún hefur sagt mér það oftar en einu sinni að hún vildi óska þess að hún hefði hafið dvöl sína í Belgíu á að ná sér í belgíska mastersgráðu. Landi hennar, Emmanuel, býr í litlum bæ í frönskumælandi hluta Belgíu. Við Emmanuel höfum keyrt um sveitir frönskumælandi Belgíu í bílnum hans með tansanískt hiphop í botni þar sem hann hefur frætt mig um gróskuna á ökrunum í kring af brennandi áhuga. Emmanuel vann að landbúnaðarverkefnum hjá alþjóðlegum frjálsum félagssamtökum þegar hann var heima í Búrúndí og byrjaði dvöl sína í Belgíu á að fara í mastersnám. Þrátt fyrir að vera komin með mastersgráðu tengda landbúnaði frá belgískum háskóla starfar Emmanuel nú í einum stærsta matvörumarkaði í Belgíu. Tenging hans við landbúnaðinn, sem á hug hans allan, takmarkast við að fylla á grænmetiskassana í matvörubúðinni. Í litlum bæ í Svíþjóð býr Chantal og vinnur hjá félagsþjónustunni, en hún vann hjá Sameinuðu þjóðunum sem upplýsingafulltrúi þegar hún var í Búrúndí. Chantal talar mikið um kynþáttafordómana sem hún verður fyrir á hverjum degi. Hún segir að ef þeir beindust einungis að henni sjálfri gæti hún lifað með þeim en það sé erfitt að vita af kynþáttafordómunum sem börnin hennar verða fyrir og sárt að heyra barnið á leikskólaaldri segja frá því að því hafi verið tjáð að leikur sem félagar þess voru í „væri ekki fyrir svört börn”. Marie, Emmanuel og Chantal eru þrír viðmælenda minna í rannsókn um búrúndískt flóttafólk af hárri félagslegri og efnahagslegri stöðu sem nú býr í Belgíu eða Svíþjóð. Mín rannsókn, sem og fjölmargar aðrar, gefa aðra mynd af afrísku flóttafólki en staðalmyndir gefa til kynna.
Fólksflutningar í Afríku
Frá árinu 2015 þegar um 1 milljón manns komu til Evrópu til að leita hælis hefur orðræða meðal ráðamanna í flestum Evrópulöndum verið sífellt meira á þá leið að alda flóttamanna ríði yfir álfuna og nauðsynlegt sé að halda aftur af henni. Hræðsla við öldu fólks frá Afríku virðist aðallega byggð á tveimur hugmyndum: að mikið sé um fólksflutninga frá Afríku, og að fólksflutningar Afríkubúa beinist aðallega að Evrópu. Hvoru tveggja er rangt.
Einungis 3 prósent Afríkubúa búa utan síns heimalands (miðað við um 8,5 prósent Evrópubúa). Fólk almennt flyst oftast ekki mjög langt frá heimahögunum. Langmest af fólksflutningum Afríkubúa eiga sér því stað innan Afríku og fólk fer oftast til nágrannalandanna.
Stétt og fólksflutningar
Fyrir Afríkubúa er ekki auðvelt að komast inn í Evrópu. Til að fá vegabréfsáritun þarf fólk venjulega að sanna að það komi sem ferðamenn, vegna viðskiptaerinda eða annað vinnutengt. Fólk þarf að sannfæra innflytjendayfirvöld um að það hafi nægt fé á milli handanna til að sjá um sig og sína og að það hafi eignir og/eða vinnu í heimalandinu sem tryggi að það muni snúa heim aftur. Erfiðleikarnir við að komast til Evrópu samkvæmt hefðbundnum leiðum gera það að verkum að það er mun auðveldara fyrir fólk af hærri stöðu að fá vegabréfsáritun fyrir Evrópu heldur en fyrir fólk af lægri stöðu.
Þar sem er erfitt að komast inn í Evrópu samkvæmt hefðbundum leiðum, lætur sumt fólk reyna á bátsferðir yfir Miðjarðarhafið. Það er hinsvegar mun sjaldgæfara heldur en almenn umræða gefur til kynna og um 90 prósent af Afríkubúum sem koma til Evrópu koma hinar hefðbundu leiðir. Allir mínir viðmælendur komu í flugi með vegabréfsáritun.
Stétt Afríkubúa hefur mikið með það að gera hvort þeir geti fluttst til Evrópu. En stétt hefur einnig áhrif á áhuga fólks á flutningum. Fólk sem býr ekki við góð kjör í heimalandi sínu getur notað flutning til annars lands (eða annars svæðis) til að reyna á að fá (betur launaða) vinnu og skapa betra líf fyrir sig og fjölskyldu sínar. En fólk af efri stéttum sem kemur frá Afríku, Asíu og Suður-Ameríku fær sjaldnast störf í samræmi við menntun sína og reynslu. Jafnvel þegar innflytjendur bæta við sig menntun frá evrópskri menntastofnun hjálpar það ekki við að komast að á vinnumarkaði, sem bendir til þess að erfiðleikar við að komast að á vinnumarkaði tengist húðlit frekar en hæfni. Það að húðlitur skipti meiri máli en kunnátta þegar kemur að því að fá vinnu í Evrópu er nokkuð sem öllum viðmælendum mínum var ljóst og er ástæða þess að margir Afríkubúar úr efri lögum samfélagsins hafa ekki áhuga á að flytja til Evrópu.
Að ná jafnvægi á milli öryggis og nálægð við heimahaga
Það sem kom mjög sterkt fram í samtölum við viðmælendur mína var að fólk vildi vera nærri heimahögunum, gjarnan í nágrannalandinu Rúanda, þar sem loftslag, tungumál og menning eru keimlík Búrúndí. En flestir óttuðust um öryggi sitt þar vegna nálægðarinnar við Búrúndí, ótryggs sambands ríkisstjórna landanna tveggja og getu Búrúndístjórnar til að fylgjast með og jafnvel skaða sína ríkisborgara í nágrannalöndum. Evrópa veitir því skjól vegna þess að álfan er nógu langt frá heimalandinu.
Nokkrir viðmælenda minna bjuggu um tíma í nágrannalandi, með það í huga að dvelja þar. Richard, til dæmis, er háttsettur búrúndískur blaðamaður sem vildi vera sem næst heimahögunum og halda áfram að sinna blaðamennsku úr útlegð. Í fimm ár gat hann búið í Rúanda og haldið áfram að skrifa um Búrúndí, en svo fóru samskipti milli ráðamanna þessara landa að þiðna og yfirvöld í Rúanda sáu sig knúin að banna búrúndískum blaðamönnum að sinna sínu starfi frá Rúanda. Richard gat annaðhvort hætt að starfa sem blaðamaður eða flúið á ný. Hann valdi hið síðara. Saga Richard samsvarar því sem kemur fram í mörgum öðrum rannsóknum. Fólk fer oft ekki til Evrópu fyrr en það er fullreynt að hægt sé að vera í nágrannalandi.
Draumurinn um hreyfanleika milli heimsálfa
Margir innflytjendur af efri stétt vita að þeir munu byrja aftur á núlli en vonast til að geta unnið sig upp, annaðhvort með því að bæta við sig gráðu frá evrópskri menntastofnun eða unnið sig upp á vinnustað. Sú er því miður oft ekki raunin og því dreymir mörg um að flytjast aftur til Afríku til þess að fá frekar vinnu við hæfi. Marga minna viðmælenda dreymir um að finna leið til að komast aftur til Afríku. Fólk sem á börn sem eru búin að læra tungumálið og aðlagast nýju landi vill gjarnan finna leiðir til að eiga sér líf í báðum heimsálfunum.
Joseph býr í borg í flæmskumælandi hluta Belgíu. Hann hefur náð að vinna sig upp efnahagslega, frá því að byrja sem leigubílstjóri yfir í að eiga í dag fyrirtæki og hafa náð að kaupa hús í úthverfi fyrir sig og fjölskyldu sína. En þrátt fyrir efnahagslega velgegni er Joseph ekki sáttur, hann saknar þess að nýta menntun sína í mannúðarlögum. Hann talar mikið um að vilja láta reyna á það að fá frekar vinnu einhversstaðar í Afríku þar sem hann getur notið sín í starfi. Kona hans og börn eru sátt í Belgíu og því er draumur hans að geta átt sér líf í báðum heimsálfum. Draumurinn um starf þar sem Joseph nýtir menntun sína er hinsvegar blandin ótta um að hann sé búinn að gleyma öllu sem hann hafi lært og að hann þyrfti helst að byrja á því að fara aftur í háskóla.
Í þremur fjölskyldum sem ég er í sambandi við er fjölskyldufaðirinn í stöðu tengdri menntun sinni í Afríkulandi en konan og börnin í Evrópu. Tekna sem aflað er í Afríku er því að einhverju leyti eytt í Evrópu. Fjármagn flæðir því í öfuga átt við það sem gjarnan kemur upp í hugann varðandi greiðslusendingar milli heimsálfanna tveggja.
Fyrirheitna landið?
Innflytjendur frá Afríku í Evrópu er margbreytilegur hópur sem að hluta til glímir við svipuð vandamál. Allir verða þeir fyrir kynþáttafordómum þó að flestir viðmælendur mínir geri lítið úr því. Einstaklingar sem áttu gott líf í heimalandinu, höfðu áhugaverða vinnu með góðum launum, stöðu og frítíma upplifa oftast mikinn skell við komuna til Evrópu. Allir mínir viðmælendur gerðu sér grein fyrir þessu en komu til Evrópu vegna þess að þau óttuðust um öryggi sitt. Áður en líf þeirra var í hættu hafði þá aldrei langað til að flytjast til Evrópu, eða eins og einn búrúndískur vinur minn sagði „Af hverju ætti ég að vilja flytja til lands þar sem ég verð annars flokks þegn?”
Umræða um afrískt flóttafólk í Evrópu mætti gjarnan leggja minni áherslu á ótta við fjöldann sem kemur á bátum yfir Miðjarðarhafið, enda er sú umræða ekki byggð á staðreyndum. Meira mætti ræða um hvernig betur sé hægt að taka á móti fólki svo að fólk fái að taka þátt í samfélaginu og gefa af sér miðað við sína kunnáttu. Slíkt yrði til bóta bæði fyrir innflytjendur og löndin sem taka á móti þeim.
1Öll nöfn eru dulnefni
Athugasemdir (1)