Þegar fjórtán ára stelpa sem var komin í uppreisn gegn foreldrum sínum og fannst sem eina fólkið í heiminum sem skildi hana væru vinir hennar á veraldarvefnum, kynntist þar sautján ára strák gerði hún engan fyrirvara við vináttu þeirra. Nánast á hverjum degi hafði hann samband, sýndi henni áhuga, sendi myndir og bað um myndir af henni. Eftir því sem tíminn leið urðu spurningarnar sífellt persónulegri. Og að lokum samþykkti hún að hitta hann. Þegar hún leit hann augum var henni talsvert brugðið. „Þetta var ekki sami maðurinn og á myndunum. Hann var mikið eldri og ég skildi ekki alveg hvað væri í gangi.“ Maðurinn reyndist vera lögmaður á sextugsaldri, Robert Downey, sem beitti afar einbeittum og skipulögðum aðferðum til að tæla til sín unglingsstúlkur, og mætti vel undirbúinn þetta kvöld. „Mér leið ógeðslega,“ sagði hún og lýsti löngun til að kasta upp eftir að hann náð vilja sínum fram.
Í kjölfar ofbeldisins sem hún var beitt gerði stúlkan gerði tvær tilraunir til sjálfsvíga og dvaldi heilt ár á meðferðarheimili til að byggja sig upp að nýju.
Á meðan rannsókn stóð
Upp komst um brotin og húsleit var gerð á heimili Róberts og fundust tveir farsímar, fjögur símkort og minnisbók sem innihélt 335 kvenmannsnöfn með símanúmerum og netföngum. Við nöfnin mátti víða sjá skráðar tölur, sem lögreglan taldi að vísaði á aldur stúlknanna.
En hann var hvergi nærri hættur. Eftir að húsleit fór fram og rannsókn lögreglu var hafin hélt lögmaðurinn réttindum sínum, sinnti réttargæslu í sakamálum og verjandastörfum í kynferðisbrotamálum og sat yfirheyrslur í Barnahúsi. Á sama tíma hélt hann áfram að brjóta á ungum stelpum, braut á þremur 15 ára stúlkum, einni allt að fimmtán sinnum.
Annað áfall
Maðurinn var loks dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir brot gegn fjórum unglingsstúlkum. Fimmta stúlkan lagði fram kæru en honum var ekki gerð refsing. Hún fékk þó miskabætur upp á 300 þúsund krónur.
Nokkrum árum síðar fékk maðurinn uppreist æru. Stúlkan lýsti því þannig að þegar hún heyrði fréttirnar hefði hún endurupplifað áfallið frá því að hún var fjórtán ára gömul.
Brotaþolar mannsins fóru fram á allar upplýsingar um málsmeðferðina og forsendur sem lágu til grundvallar því að maður sem hefði aldrei játað eða sýnt iðrun fengi uppreist æru. Stúlkurnar skildu ekki viðbrögð stjórnkerfisins við svo einfaldri beiðni, sem einkenndust af leyndarhyggju, hroka og fyrirlitningu.
Framganga formannsins
„Það eru til alvarlegri brot heldur en þessi gagnvart börnum,“ sagði Brynjar Níelsson, þáverandi formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Þegar nefndin tók málsmeðferðina fyrir misbauð minnihlutanum framganga formannsins svo að eftir fundinn lýsti þingmaður vantrausti á hann. Meðal annars vegna þess að nefndarmenn voru látnir undirgangast trúnaðarskyldu um upplýsingar um málsmeðferðina, á þeim forsendum að í gögnum málsins væri að finna viðkvæmar heilsufarsupplýsingar. Það reyndist ekki rétt, en þá var það orðið of seint. Meirihluti nefndarinnar, undir formennsku Brynjars, gekk síðan út þegar gögnin voru lögð fram og neitaði að skoða þau. Eftir það var hann settur af sem formaður nefndarinnar.
Síðar kom í ljós að Brynjar þekkti og hafði unnið mikið fyrir einn þeirra manna sem mælti með því að Róbert Downey fengi uppreist æru. Og báðir höfðu þeir, Brynjar og Róbert, unnið fyrir nektardansstaðinn Bóhem á sínum tíma.
„Af hálfu brotaþola hefur þessi málflutningur verið óþolandi, íþyngjandi og skert lífsgæði þeirra.“ Með þessum orðum lýsti faðir stúlkunnar áhrifunum af orðum Brynjars.
Djúpstæð vonbrigði
Seinna var afhjúpað að faðir þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, hafði veitt meðmæli með því að maður sem braut nánast daglega á stjúpdóttur sinni í tólf ár fengi uppreist æru. Dómsmálaráðherra viðurkenndi að hafa upplýst forsætisráðherra um þetta, áður en hann neitaði að veita brotaþolum og fjölmiðlum upplýsingar um málsmeðferðina í andstöðu við upplýsingalög. Og ríkisstjórnin sprakk.
„Kerfi sem einkennist af leyndarhyggju og stendur vörð um ofbeldismenn en ekki fórnarlömb er meingallað og djúpstæð vonbrigði þjóðarinnar með viðbrögð stjórnvalda í þessum málum er eitthvað sem við verðum að taka mjög alvarlega,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem sat þá í ríkisstjórn, líkt og nú.
Ef kerfin bregðast, þá er það vegna þess að fólkið sem mótar kerfin og starfar innan þeirra bregst.
Val dómnefndar
Þá má spyrja hvernig fólk er valið til starfa inni í þessum kerfum. Nýlega komst dómnefnd um hæfi umsækjenda um embætti dómara að þeirri niðurstöðu að Brynjar væri hæfastur í embætti héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Í niðurstöðum nefndarinnar er fjallað um þrjá umsækjendur. Hinir umsækjendurnir voru báðir með betri menntun en Brynjar, sem var þó metinn hæfastur. Pólitísk aðstoðarmannastörf Brynjars og reynsla við að semja dóma sem fulltrúi borgarfógeta á síðustu öld skar úr um niðurstöðu nefndarinnar.
Það sem er metið
Hæfni umsækjenda var metin út frá eftirfarandi þáttum: Menntun, reynslu af dómarastörfum, reynslu af lögmanns- og málflutningsstörfum, þar sem litið var til þess að Brynjar ætti að baki um 25 ára reynslu sem sjálfstætt starfandi lögmaður, mun lengri en aðrir umsækjendur, enda mun eldri maður. Sama gilti um reynslu af stjórnsýslustörfum. Einnig var litið til kennslu á háskólastigi og annarra akademískra starfa, fræðibóka- og greina. Að lokum var litið til reynslu umsækjenda af stjórnun, þar sem sérstaklega var tiltekið að Brynjar hefði rekið eigin lögmannsstofu, verið formaður Lögmannafélagsins og setið í stjórnum ýmissa félaga. Þá þótti hann hafa sýnt fram á færni til að skrifa dóma.
Annar þáttur sem litið er til við val á héraðsdómara er reynsla af öðrum störfum, þar sem vísað var til starfa Brynjars á Alþingi og trúnaðarstarfa fyrir íþróttahreyfingar. „Hann hefur meðal annars setið í áfrýjunardómstól KSÍ og laganefnd HSÍ, setið í stjórnum knattspyrnu- og körfuknattleiksdeildar íþróttafélagsins Vals og er forseti Brigdesambands Íslands.“
Það var því metið Brynjari til framdráttar að vera forseti Bridgesambands Íslands.
Það sem er ekki metið
Í því samhengi er áhugavert að rifja upp rannsókn á störfum dómnefndar sem metur hæfni umsækjenda um dómarastöður. Tilurð rannsóknarinnar var sú staðreynd að þrátt fyrir að kynjahlutfall útskrifaðra lögfræðinga hafi verið nokkuð jafnt síðustu 30 ár eru enn aðeins tvær konur dómarar við Hæstarétt. „Tölfræðilega getur það varla verið tilviljun að það sé meira en nóg af kvenkynslögfræðingum en nær engir hæstaréttardómarar,“ sagði Brynhildur Flóvenz, dósent í lagadeild við Háskóla Íslands og annar rannsakenda.
Niðurstöður rannsóknarinnar gáfu vísbendingar um að körlum væri hampað á kostnað kvenna. Til dæmis þegar kom að vægi aukastarfa, sem vó misþungt við mat nefndarmanna. Í einu slíku tilviki þótti þátttaka í óbyggðanefnd vega mjög þungt en þátttaka í úrskurðarnefnd um barnaverndarmál virtist hafa minna vægi.
Með öðrum orðum: Niðurstöður dómnefndar um hæfi dómara eru ekki óskeikular. Í raun getur nefndin komist að nánast hvaða niðurstöðu sem er.
Svo er auðvitað áhugavert að skoða hvað er ekki metið við val á dómara. Í tilfelli Brynjars er til dæmis ekki litið til þess að hann hafi verið settur af sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, vegna framgöngu sinnar. Eða undirskriftarsöfnunar á meðal almennings vegna skipunar hans sem aðstoðarmanns dómsmálaráðherra.
Viðhorf til viðkvæmra málaflokka getur verið erfitt að meta. Í tilfelli Brynjars er engu að síður ljóst að tjáning hans í gegnum tíðina hefur valdið vantrausti á meðal ákveðins hóps í samfélaginu. „Brynjar hefur haft mjög hátt um og haldið uppi vörnum fyrir gerendur eða meinta gerendur. Hann hefur smættað þolendur og þeirra viðleitni til að tjá sig og gert lítið úr þeim. Hann hefur bara gert lítið úr konum. Það er eins og hann þrífist á því stundum að smætta konur og alla viðleitni þeirra til að auka jafnrétti og réttlæti,“ sagði baráttukonan Hanna Björg Vilhjálmsdóttir fyrir nokkrum árum síðan.
Svarbréf Brynjars
Málflutningur Brynjars í uppreist æru málinu var allavega í fullu samræmi við viðhorfin sem hann hefur lýst í gegnum tíðina.
Þegar kallað var eftir áliti hans vegna ákvæðis í lögum sem heimilaði dómurum að fella niður refsingu í kynferðisbrotamálum ef brotaþoli hæfi sambúð eða giftist gerandanum. Ef brotið var framið innan sambúðar og leiddi til sambúðarslita var einnig hægt að fella niður refsingu ef fólkið tók aftur saman. Brynjar sá ekkert athugavert við að halda þessu ákvæði í lögum, þótt æskilegt væri að stinga gerandanum inn ef um „brútal“ nauðgun væri að ræða, sagði hann. Eins og nauðgun geti nokkurn tímann verið eitthvað annað en brútal. Konurnar sem mótmæltu þessu voru meðal annars Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, lögfræðingur og núverandi dómsmálaráðherra, og Brynhildur Flóvenz, dósent við Háskóla Íslands. „Í mínum huga er þetta ákvæði úrelt miðað við þekkinguna sem við höfum í dag, sérstaklega þegar við tölum um nauðgun eða samræði við börn,“ sagði Brynhildur.
Þegar hann skrifaði pistil um áfallastreitu og sönnun, lýsti hann því sjónarmiði að varla væri hægt að tala um hlutlaust mat sálfræðinga á áfallastreituröskun í kjölfar kynferðisbrota. „Í þeim fáu málum þar sem sannast hafa rangar sakargiftir um kynferðisbrot hefur ekki verið skortur á sálfræðimötum um áfallastreitu kærandans. Það segir kannski allt sem segja þarf um sönnunargildi slíkra sálfræðimata,“ skrifaði Brynjar. Eins og það sé alltaf verið að ljúga.
„Kynferðisbrot eru ólík öðrum brotum að því leyti að þau tengjast háttsemi sem bæði kynin stunda saman alla daga af fúsum og frjálsum vilja,“ hélt hann áfram: „Í þessari venjulegu og eðlilegu athöfn kemur fyrir að konan (stundum karlinn) telur að hún hafi ekki verið fús til kynmakanna, til dæmis vegna þess að hún hafi ekki getað spornað við þeim sökum ölvunar, verið byrlað ólyfjan, talið sig vera að eiga kynmök við annan mann eða ekki viljað kynmökin af öðrum ástæðum en frosið af hræðslu og því ekki brugðist við. Síðan eru auðvitað fullt af dæmum þar sem þessu er ranglega haldið fram af ýmsum ástæðum, svo sem framhjáhalds, samviskubits, eineltis og svo framvegis.“ Aftur: Eins og það sé alltaf verið að ljúga.
Og það sé ekki það nákvæmlega sama að nauðga og stunda kynlíf með einhverjum sem er „ekki fús til kynmakanna“.
Þegar Femínistafélag Íslands sendi dómsmálaráðherra og hæstaréttardómurum bréf til að vekja athygli á meðferð nauðgunarmála innan réttarvörslukerfisins svaraði hann með því að stinga sjálfur niður penna: „Ég vona að þið lendið aldrei í þeirri aðstöðu að náinn ástvinur ykkar, til dæmis maki eða sonur, verði ranglega sakaður um að hafa nauðgað annarri manneskju og síðan sakfelldur fyrir það.“ Enn einu sinni: Eins og það sé alltaf verið að ljúga.
Ég líka
Enda hafa fáir jafnmikla reynslu af því að verja kynferðisbrotamenn. „Ég er kannski vanari þessum málum en flestir aðrir,“ var eitt sinn haft eftir Brynjari. Hann var meðal annars verjandi Guðmundar Jónssonar í Byrginu, Gunnars Þorsteinssonar í Krossinum og Egils Einarssonar, sem kærði stúlku fyrir rangar sakargiftir vegna þess að hún kærði hann fyrir nauðgun.
Og þegar 23 konur lýstu reynslu sinni af meintri kynferðislegri áreitni Jóns Baldvins Hannibalssonar á vefsíðu greip Brynjar til varna fyrir manninn, sakaði konurnar um að ráðast á hann og reyna að meiða hann. Allir gætu lent í slíkri opinberri smánun. „Ég get alveg sagt sögur af ósæmilegri hegðun fólks sem ég hef orðið vitni að eða beinst hefur gegn mér og búið til síðu um það,“ sagði Brynjar. „Það bara hvarflar ekki að mér því ég hef engan áhuga á að meiða fólk með þessum hætti.“
Mikilvægt væri að menn liti í eigin barm og veltu fyrir sér: „Ég get líka lent í þessu.“
Eins og það sé alltaf verið að ljúga.
Kletturinn í hafinu
„Ég get aldrei sett mig í eitthvert dómarasæti í því hverjir eru að ljúga og hverjir eru ekki að ljúga,“ sagði Brynjar árið 2021. Sumt fólk upplifði veruleikann bara með mismunandi hætti. Því ætti ekki að beita viðurlögum vegna þess sem fólk segir. „Við ætlum ekki að láta þetta ofstækisfólk stjórna þessu íslenska samfélagi. Þetta er eins og gerðist á þriðja áratug síðustu aldar í Þýskalandi,“ sagði hann og sagði ofstækisfólk terrorisera fólk og fyrirtæki. „Þessi femínismi núna, þau eru að breyta þessu í ofstækishópa sem taka þetta yfir. Eins og gerist bara með þessi vinstri þjóðernis róttækni, þetta er bara ofstækisfólk.“
Dómskerfið væri að fást við mál sem fólk ætti að leysa sjálft. „Stundum er bara einföld fyrirgefning sem báðir aðilar bera ábyrgð á,“ sagði hann. „Menn kæra öll mál. Til dæmis ef menn lenda í einhverjum stimpingum í einhverju rifrildi.“
Áreitni sé ekki kynbundin. „Þetta er bara hluti af samskiptum sem auðvitað geta verið klaufaleg, sérstaklega ef fólk er undir áhrifum.“
Mál falla niður og tefjast í réttarvörslukerfinu af ýmsum ástæðum, sagði hann og gaf dæmi: „Þetta er ekki brot eftir lýsingu þolandans, innan gæsalappa. Málin tefjast oft því hlutirnir passa ekki, standast ekki, það sem sagt er og hægt er að upplýsa, það stemmir ekki.“
Mikið sé ákært í kynferðisbrotamálum, ekki síst vegna þrýstings á ákæruvaldið, sagði hann.
Síðan vék hann máli sínu að dómstólum, „sem eru kletturinn í hafinu“ og sýkna. En þá sé ráðist á dómstólana. „Físískar nauðganir, þar sem er beitt líkamlegu afli,“ séu sjaldgæft vandamál. „það er mjög sjaldgæft að þú beitir físísku afli til að ná fram vilja þínum. Vandamálið er í kringum þetta fyllerí.“
Þá dró hann byrlanir í efa. Á sínum ferli hafi hann heldur aldrei fengið byrlun staðfesta.
Ástæða til að hafa áhyggjur
Þess vegna sagði Sóley Tómasdóttir að „það er óbærilegt að Brynjar Níelsson verði gerður að héraðsdómara í Reykjavík á meðan þjóðarsorg ríkir vegna fráfalls Ólafar Töru Harðardóttur“, baráttukonu fyrir réttlátari meðferð kynferðisbrota í réttavörslukerfinu.
Til eru kenningar um að engin nauðsynleg bönd eða tengsl séu á milli laga og siðferðis. Hægt sé að gagnrýna lög frá siðfræðilegu sjónarhorni og siðferði sé oft undirliggjandi við lagasetningu. Hins vegar verði að skilja lögin sem sjálfstætt fyrirbæri, út frá þeim réttarheimildum sem gilda en ekki pólitískum ákvörðunum, siðferði eða sanngjörnum meginreglum. Þannig séu lögin fyrirsjáanleg á meðan siðferði sé afstætt.
„Þess vegna er aðförin að dómstólunum, þeir eru orðnir ómögulegir og menn sjá ekki hvað þetta er hættuleg þróun og það er full ástæða til að hafa miklar áhyggjur,“ sagði Brynjar í viðtali árið 2021.
Oft þurfa dómarar engu að síður að taka afstöðu til siðferðilegra álitaefna undir því yfirskini að þeir eigi að túlka á hlutlausan hátt tiltekna réttarreglu. Í grein sem Brynhildur Flóvenz skrifaði um kvennarétt benti hún á dæmisögu, þar sem dómari í írskri skáldsögu lenti í vanda þegar hann þurfti að dæma í máli sextán ára stúlku, sem hafði verið vísað úr skóla vegna þungunar, en vildi fá brottvísuninni hnekkt. Dómarinn var þeirra skoðunar að brottvísunin væri óréttlát en engar heimildir væru til að byggja þá niðurstöðu á. Rann upp fyrir honum að réttlæti væri ekki réttarheimild.
Ein meginfullyrðing kvennaréttar er sú að lögin séu ekki sjálfstæð eða kynhlutlaus, benti Brynhildur á. Lögin séu byggð á valdi, sem sé bundið bæði stétt og kyni. Önnur kenning sé sú að ekki sé hægt að aðskilja rétt og siðferði. Siðferði hljóti alltaf að vera grundvöllur réttarins. Spurningin sé fremur hvers siðferði það sé sem birtist í réttinum.
Í dag búum við enn við réttarkerfi sem var mótað af körlum. Karlar settu lögin og túlkuðu þau, með þeim afleiðingum að reynsla og lífsviðhorf karla voru lögð til grundvallar réttinum.
Karla sem sumir hverjir höfðu sömu viðhorf og Brynjar.
Athugasemdir (3)