Stóðu heiðursvörð við útför Ólafar Töru

Fjöldi fólks stóð heið­ursvörð við Grafar­vogs­kirkju í dag þeg­ar Ólöf Tara Harð­ar­dótt­ir var jarð­sung­in. For­seti Ís­lands, for­sæt­is­ráð­herra og for­seti Al­þing­is voru með­al þeirra sem vott­uðu henni virð­ingu sína.

Stóðu heiðursvörð við útför Ólafar Töru

Baráttukonan Ólöf Tara Harðardóttir var jarðsungin frá Grafarvogskirkju í dag. Fjöldi fólks stóð heiðursvörð við kirkjuna til að votta henni virðingu sína. 

Ólöf Tara var kraftmikil í umræðu um og baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og kom að stofnun tveggja samtaka, Öfga og Vitundar, sem börðust ötullega fyrir breytingum í þágu þolenda ofbeldis.

Biskup Íslands, Guðrún Karls Helgudóttir, sá um athöfnina en meðal þeirra sem voru viðstödd útförina voru Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir forseti Alþingis og Halla Tómasdóttir forseti Íslands.

Fánar Öfga og Stígamóta voru uppi við altarið í fjölmennri athöfninni. Þjóðlagið Sofðu unga ástin mín var flutt á undan ritningarlestri en eftirspilið var lagið Áfram stelpur og stóð í sálmaskrá að kirkjugestir væri hvattir til að syngja með, en útprentuðum textanum var dreift meðal þeirra. Kistan var borin út af konum, meðal annars baráttusystrum Ólafar Töru, þeim Guðnýju S. Bjarnadóttur og Þórhildi Gyðu Arnarsdóttur. 

Ólöf Tara var fædd í Reykjavík 9. mars 1990 og því á 35. aldursári þegar hún lést þann 30. janúar. Foreldrar hennar eru Tinna Arnardóttir og Hörður Örn Harðarson.

Með Öfgum hlaut Ólöf Tara fjölmörg verðlaun fyrir vinnu sína, þar á meðal frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, og hélt mörg erindi í tengslum við kynbundið ofbeldi. Öfgar ávörpuðu meðal annars Sameinuðu þjóðirnar um kvennasáttmálann og funduðu með fulltrúum Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Barátta hennar sneri ekki síst að því að stöðva byrlanir og kvenmorð.

Heimildin / Davíð Þór

Var hún annar tveggja stjórnenda nýrra hlaðvarpsþátta, Dómstóll götunnar, þar sem rýnt er í dóma sem falla hér á landi. Nú í janúar kom hún að stofnun nýrra samtaka gegn kynbundu ofbeldi, Vitund.

Margir hafa minnst Ólafar Töru á samfélagsmiðlum í dag. Guðný S. Bjarnadóttir, ein af stofnendum Vitundar, skrifaði: „Þakklæti er mér efst í huga þegar ég minnist vinkonu minnar Ólafar Töru. Kjarnakonan, viskubrunnurinn og rödd skynseminnar sem ég var svo heppin að eiga að. Það voru algjör forréttindi að fá að kynnast þér og hefði ég aðeins óskað að það hefði verið fyrr og varað lengur. Það er bara ein Ólöf Tara Einstök, hjartahlý, óeigingjörn og fáránlega fyndin. Í dag fylgi ég þér seinasta spölinn en þú verður með mér alla tíð“.

Olga Björt Þórðardóttir er sömuleiðis ein af þeim sem stofnuðu Vitund í ársbyrjum með Ólöfu Töru. Hún skrifaði: „Fljúgðu hátt, elsku Ólöf Tara. Ljós þitt mun skína áfram, orð þín óma og viska þín og reynsla nýtast baráttunni um ókomna tíð. Takk fyrir allt sem þú kenndir (mun eldri) mér, ótal símtölin og samtölin, hlátursköstin og seigluna og vonina sem smituðust svo auðveldlega frá þér. Þar til næst.“

Kolbrún Dögg Arnardóttir, stjórnarformaður samtakanna Líf án ofbeldis, bar Ólöfu Töru þakkir í skrifum sínum: „Í dag fylgi ég elsku Ólöfu Töru síðasta spölinn, ljósið sem skein svo skært fyrir okkur þolendur og bálið sem hún kveikti í okkur baráttusystrum. Nú er ljósið þitt slökknað en við ætlum að halda kyndlinum þínum á lofti í baráttunni fyrir réttlæti“.

Baráttukonurnar Sóley Tómasdóttir og Hildur Lillendahl birtu minningargrein þar sem meðal annars kom fram: „Allar framfarir í þágu mannréttinda hafa byggt á samtakamætti. Ein manneskja breytir ekki samfélagi. En mikið komst Ólöf Tara nálægt því. Ekki af því að hún hafi haft vald eða verið í stöðu til að breyta, heldur af því að hún lagði hjarta sitt og sál í að standa með konum. Ólöf Tara átti frumkvæði að mikilvægum aðgerðum og hún tók þátt í mikilvægum aðgerðum. En svo var hún líka full af samkennd og skildi betur en margar okkar hvað samstaðan skiptir miklu máli. Hún sendi ítrekað ófrávíkjanlegar kröfur út um allar trissur um að nú þyrfti að standa með einhverri af einhverjum ástæðum. Og við hlýddum. Allar. Alltaf. Af því þannig var Ólöf Tara.“

Drífa Snædal, talskona Stígamóta, skrifaði að minning Ólafar Töru væri heiðruð með því að halda áfram baráttunni gegn kynbundni ofbeldi: „Viðurkenna áhrif og afleiðingar þess, trúa, grípa brotaþola en fyrst og fremst að útrýma kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi. Konur þekkja best afleiðingarnar og mitt í sorginni og vanmættinum vakti það með mér von að sjá Forseta Íslands, biskupinn, forsætisráðherra, forseta þingsins og fleiri og fleiri konur með völd í samfélaginu mæta í útförina. Að auki var stútfull kirkja af konum sem eru tilbúnar í baráttuna sem Ólöf Tara gaf svo mikið og sennilega allt of mikið í. Þó það sé óþolandi að þessi barátta hvíli alltaf á herðum kvenna þá eru það við sem vitum hvað er í húfi að útrýma ofbeldi, við verðum flestar fyrir því. Og núna er stundin, hún er runnin upp! Nú þurfum við að virkja þekkingu okkar, samtakamátt, félagasamtökin, stofnanirnar, skólana, stjórnmálin og almenning. Við þurfum að hafa trú á því að við getum útrýmt kynbundnu ofbeldi og við verðum að ganga samhljóða inn í þá vegferð.“

Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, á netspjallið 1717.is og á Píeta símann s.552-2218. Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð s. 551-4141, upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is og á Píeta símann s.552-2218.

Kjósa
51
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Umdeild gjaldskylda við Reykjanesvita: „Þetta er bara slóði“
3
UmhverfiðFerðamannalandið Ísland

Um­deild gjald­skylda við Reykja­nes­vita: „Þetta er bara slóði“

Sam­kvæmt lóða­leigu­samn­ingi hef­ur fyr­ir­tæk­ið Reykja­nes Aur­ora heim­ild til að inn­heimta bíla­stæða­gjöld í 500 metra radíus við Reykja­nes­vita þrátt fyr­ir að leigja að­eins hluta af því landi. Eig­and­inn seg­ir að reynt hafi ver­ið á gjald­heimt­una fyr­ir dómi og hún úr­skurð­uð hon­um í vil. „Þetta er bú­ið að vera vand­ræða­mál,“ seg­ir Kjart­an Már Kjart­ans­son, bæj­ar­stjóri Reykja­nes­bæj­ar.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Erla Björg hættir sem ritstjóri: „Stundum hef ég þurft að minna mig á æðruleysið“
2
Innlent

Erla Björg hætt­ir sem rit­stjóri: „Stund­um hef ég þurft að minna mig á æðru­leys­ið“

Erla Björg Gunn­ars­dótt­ir er hætt sem rit­stjóri á frétta­stofu Sýn­ar. Í færslu á sam­fé­lags­miðl­um seg­ir hún að í ár­anna rás hafi hún unn­ið eins og hún gat með sí­breyti­leg­an far­veg þar sem hún hafi stund­um þurft að minna sig á æðru­leys­ið og hverju hún gæti stjórn­að. „Eft­ir marga slíka hringi kem­ur að þeim tíma­punkti að það er best að kveðja og hleypa nýj­um kröft­um í bar­átt­una.“

Mest lesið í mánuðinum

„Allt í einu koma þessi skrímsli upp úr jörðinni“
5
Innlent

„Allt í einu koma þessi skrímsli upp úr jörð­inni“

Und­ir­skrifta­söfn­un er haf­in til að mó­mæla fram­kvæmd­um í Skafta­felli. Fund­ur um breyt­ing­ar fram­kvæmd­anna var hald­inn um há­sum­ar. „Það dugði til að gera skyldu sína,“ seg­ir íbúi á svæð­inu. Íbú­ar ótt­ast að sam­keppn­is­hæfni muni minnka ef fyr­ir­hug­uð ferða­g­ist­ing rís. „Ég sé ekki ann­að en að þetta auki tekj­ur og at­vinnu á svæð­inu,“ seg­ir Pálm­ar Harð­ar­son, sem stend­ur að fram­kvæmd­inni ásamt Arctic Advent­ur­es.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár