Myndin um hinn dularfulla Dylan: Hvaðan kom hann þá?

Myndin um hinn dularfulla Dylan: Hvaðan kom hann þá?
Foreldrar Roberts Allens Zimmermans, Bob Dylans.

Flestir sem ætla sér eru nú líklega búnir að sjá myndina um Bob Dylan, A Complete Unknown. Ég er því ekki að skemma neitt fyrir neinum með því að ljóstra því upp að hún ber vissulega nafn með rentu — sá Dylan sem þar birtist er meirog minna óþekktur alla myndina, enginn veit hvaðan hann kemur eða hvað hann á að baki, í hvers konar samfélagi hann ólst upp og við hvaða aðstæður.

Það eina sem hann segir um æskuár sína virðist ekki hægt að taka trúanlegt, sem sé að hann hafi að hluta til alist upp með sirkusfólki.

En hver var þá fortíð Dylans? Hvaðan kom hann og hvað hafði hann reynst þegar hann birtist skyndilega eins og fullskapaður þjóðlagaguð í New York ekki orðinn tvítugur?

Hér segir af því, en að sönnu verður hér fyrst og fremst um upptalningu að ræða; ég ætla mér ekki þá dul að smeygja mér inn í hugskot hans, hvorki þá né síðar.

Hann fæddist 24. maí 1941 í borginni Duluth í Minnesota í einu af nyrstu miðríkjum Bandaríkjanna. Í Duluth bjuggu þá um 100 þúsund manns og þar var nokkuð fjörugt atvinnulíf enda um að ræða eina helstu hafnarborg við vötnin miklu og skipaumferð heilmikil. Borgin hafði vaxið býsna hratt síðustu hálfa öldina eða rúmlega það, enda flykktust þangað innflytjendur frá Evrópu, ekki síst Norðurlandabúar og fólk frá Austur-Evrópu.

Hinn nýfæddi piltur var skírður Robert Allen og bar ættarnafnið Zimmerman. Hann var og er Gyðingur. Afar hans og ömmur höfðu flust frá hinu þáverandi rússneska keisaradæmi laust upp úr 1900 — Anna Kirghiz og Zigman Zimmerman komu frá Odesa í Úkraínu en munu upphaflega vera frá héraði á mörkum Tyrklands og Armeníu. Nýkomin til Ameríku eignuðust þau soninn Abram eða Abe Zimmerman.

Benjamin Solemovits og Florence Edelstein komu hins vegar frá Vilníus í Litháen. Þar var yfirgnæfandi hluti íbúa Gyðingar um þær mundir. Þau Ben og Florence eignuðust í Ameríku dótturina Beatty og höfðu þá tekið upp ættarnafnið Stone. 

Báðar fjölskyldurnar voru hluti af litlu en mjög samhentu Gyðingasamfélagi í Duluth. Stone-fjölskyldan bjó reyndar í smábænum Hibbing um tíma, 90 kílómetra norðvestur af Duluth. Fjölskyldurnar reyndu í senn að aðlagast sem best því framandlega samfélagi þar sem þau voru lent en vildu líka halda í hefðir forfeðranna og -mæðranna. Hvorug fjölskyldan var þó að ráði trúuð.

Móðir Dylans á ungum aldri.

Svo kom að því að þau Abe Zimmerman og Beatty Stone felldu hugi saman og gengu í hjónaband og þá birtist Robert Allen.

Abe hafði ágæta vinnu hjá olíufélagi við höfnina og fjölskyldan var þokkalega stæð og lifði reglusömu og friðsælu lífi. Abe mun hafa verið samviskusamur og duglegur, ekki mjög fjörugur en umhugað um að standa sig og sjá fyrir fjölskyldu sinni. Beatty var öllu líflegri, hún var húsmóðir og tók virkan þátt í félagslífi Gyðinganna í Duluth.

Eftir því sem best er vitað var hvorugt þeirra að ráði listrænt og sýndu ekki sérlega mikinn áhuga hvorki á tónlist né skáldskap.

Þegar Robert Allen Zimmerman var sex ára fékk faðir hans lömunarveiki og varð þá að skipta um vinnu. Fjölskyldan fluttist til Hibbing og þar setti Abe upp húsgagnaverslun með bræðum sínum og rak hana síðan með töluverðum myndarbrag.

Í Hibbing bjuggu þá um 15 þúsund manns, þetta var kyrrlátur og friðsæll bær og óhætt að segja að bæjarlífið hafi ekki verið mjög fjörugt. Íbúar þóttu íhaldssamir og vildu hafa flest í föstum skorðum.

Bobby Zimmerman, eins og pilturinn var kallaður, sótti skóla af dugnaði, enda lagði faðir hans mikla áherslu á að hann gengi menntaveginn, en smátt og smátt fór áhugi hans þó að beinast að öðru — bæði skáldskap sem enginn annar í Hibbing virðist hafa haft áhuga á, ef marka má hann sjálfan, og þó enn frekar tónlist.

Þegar Bobby var kominn á unglingsár var mikil gróska í dægurtónlist hvers konar í Bandaríkjunum og hann vék varla frá útvarpinu til að heyra nýjustu lögin.

Hann stofnaði og nokkrar unglingahljómsveitir sem aðallega spiluðu þekkt rokklög, Little Richard var til dæmis í uppáhaldi.

Allra mesta átrúnaðargoð Bobby var þó kannski rokkarinn Buddy Holly en hann fór að sjá Holly í Duluth þegar hann var 17 ára, nokkrum dögum áður en Holly dó í flugslysi. Löngu seinna sagði Bobby, þá Bob Dylan: „Buddy samdi lög – lög með fallegum laglínum og hugmyndaríkum textum. Og hann söng frábærlega – söng með fleiri en einni rödd. Hann var fyrirmyndin. Allt það sem ég var ekki en vildi vera.“

Brátt kom að vísu á daginn að annað ungt fólk í Hibbing hafði hvorki færni né áhuga á að fylgja Bobby alla leið inn í heim tónlistarinnar. Hann sá fram á að hann yrði að halda á burt ef hann ætlaði að fá útrás fyrir það sem inni fyrir bjó.

Hann hafði á þessum árum jafn mikinn áhuga á þjóðlagamúsík, blús og rokki, þótt þjóðlögin yrðu ofan á um skeið rétt fyrir tvítugsaldur, kannski hreinlega af því þau virtust í bili veita mest svigrúm fyrir tilþrif og innlifun í textagerð, hvað sem leið snotrum textum Buddy Hollys.

Hann sagði árið 1985: „Málið með rokk og ról var, að fyrir mig allavega, var það ekki nóg ... Það voru flottir frasar og kröftug hrynjandi … en lögin voru ekki alvöru eða endurspegluðu ekki lífið á raunverulegan hátt. Ég vissi, þegar ég fór að hlusta á þjóðlagatónlist, að þar var eitthvað dýpra á ferðinni. Lögin voru full af meiri örvæntingu, meiri sorg, meiri sigrum, meiri trú á hið yfirnáttúrulega, full af miklu dýpri tilfinningum.“

Seinna átti Bobby — fremur en nokkur annar — eftir að opna skáldskapnum, sem þegar átti skjól í þjóðlagatónlistinni, leið inn í rokkið og rólið.

Þegar þarna var komið sögu var Bobby kominn í Minnesota háskóla en eftir einn vetur eða svo ákvað hann að slaufa frekara námi. Hann ætlaði út í músík og ekkert annað og finna þar upp nýtt sjálf fyrir piltinn frá Hibbing.

Hann fór að kalla sig Bob Dylan.

Og þá fór hann til New York og þá hefst bíómyndin A Complete Unknown.

Bobby Zimmerman á unglingsárum.

Sá Dylan sem nú kom í heiminn hafði upp frá þessum lítil tengsl við fjölskylduna heima í Hibbing. Föður hans mislíkaði mjög að hann sneri af menntaveginum og lagði út á eitthvað listarugl.

Þótt enginn viti til þess að neitt sérstakt hafi komið upp milli þeirra var samband þeirra kuldalegt æ frá því að sonurinn sýndi að hann gaf ekki mikið fyrir samviskusaman og hlédrægan en býsna íhaldsaman lífsstíl föður síns.

Faðirinn dó aðeins hálfsextugur árið 1968 og Dylan mætti ekki í jarðarförina hans.

Samband Dylans við móður sína var mun hlýlegra en hann var samt yfirleitt ekki með nein óþörf vinahót svo aðrir sækju til.

Kannski vildi hann umfram allt hlífa fólkinu sínu við ágangi fjölmiðla. En líklega passaði það heldur ekki inn í myndina af hinum „Complete Unknown“ að hann ætti heimilislega mömmu einhvers staðar. Hún lést árið 2000.

Dylan átti einn yngri bróður, David, sem fæddist 1946, ef ég fer rétt með.

Bob og David höfðu ekki mikið saman að sælda i æsku, enda aðeins of mörg ár á milli þeirra til þess, en seinna á ævinni náðu þeir ágætu sambandi þótt vart hafi þeir verið mjög nánir. David endaði sem afar vinsæll tónlistarkennari heima í Minnesota og fékkst svolítið við upptökur.

Hann kom við sögu þegar Bob var að taka upp plötuna Blood on the Tracks árið 1974. Bob mun aldrei þessu vant hafa á ákveðnum tímapunkti spurt bróður sinn álits á upptökum sem þegar höfðu verið gerðar og David sagði honum að honum þætti vanta kraft í þær. Bob varð að viðurkenna að litli bróðir hafði rétt fyrir sér og David kom svo töluvert við sögu á þeim nýju upptökum sem þá fóru fram.

Og ber flestum saman um að Blood on the Tracks sé einhver albesta plata Dylans og jafnvel í hópi allra mestu meistaraverka rokksögunnar.

David yngri bróðir Dylans, Sara kona hans og goðið sjálft.

Kjósa
37
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • ÓS
    Ólöf Sverrisdóttir skrifaði
    Takk Illugi. Gaman að vita meir um Bob Dylan.. Og svo sagði myndin kannski ekki allt um ferilinn heldur eftir að hann kom til New York.. en það er erfitt í einni mynd..
    2
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Meirihlutaslitin
1
Aðsent

Guðný Maja Riba, Hjálmar Sveinsson, Sabine Leskopf og Skúli Helgason

Meiri­hluta­slit­in

Skipt­ar skoð­an­ir voru með­al ann­ars um hug­mynd­ir um fyr­ir­tækja­skóla og heim­greiðsl­ur til for­eldra, skrifa fjór­ir borg­ar­full­trú­ar Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í að­sendri grein. Þau segja að mál flug­vall­ar­ins hafi ver­ið erf­ið­ara. „Fyr­ir­vara­laus og ein­hliða slit meiri­hluta­sam­starfs­ins“ hafi kom­ið þeim í opna skjöldu.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Aðstoð Brynjars við Jón átti þátt í yfirburðahæfi
3
Fréttir

Að­stoð Brynj­ars við Jón átti þátt í yf­ir­burða­hæfi

Hæfn­is­nefnd­in sem komst að nið­ur­stöðu um að Brynj­ar Ní­els­son vara­þing­mað­ur væri hæf­ast­ur til að verða dóm­ari við Hér­aðs­dóm Reykja­vík­ur horfði sér­stak­lega til starfa hans sem póli­tísks að­stoð­ar­manns Jóns Gunn­ars­son­ar í dóms­mála­ráðu­neyt­inu. Meiri­hluti um­sækj­enda dró um­sókn­ina til baka eft­ir að þeir voru upp­lýst­ir um hverj­ir aðr­ir sóttu um.
Svona græddu allir bankarnir milljarða
6
Greining

Svona græddu all­ir bank­arn­ir millj­arða

Ís­lensku við­skipta­bank­arn­ir fjór­ir, Lands­banki, Ís­lands­banki, Ari­on banki og Kvika, græddu sama­lagt 96 millj­arða króna. All­ir hafa þeir skil­að upp­gjöri og vilja stjórn­ir þeirra greiða eig­end­um sín­um meira en 50 millj­arða króna í arð. Ís­lenska rík­ið og líf­eyr­is­sjóð­ir eru lang­stærstu eig­end­ur ís­lenska banka­kerf­is­ins og mega því vænta stærsta hluta arðs­ins.

Mest lesið í mánuðinum

Ásgeir greindist með banvænt krabbamein: „Ég ætla samt að halda partí“
1
Viðtal

Ás­geir greind­ist með ban­vænt krabba­mein: „Ég ætla samt að halda partí“

Ás­geir H. Ing­ólfs­son fékk ný­ver­ið dauða­dóm, eins og hann orð­ar það. Krabba­mein­ið sem hann greind­ist með er ekki tækt til með­ferð­ar. Ljóð­skáld­ið og blaða­mað­ur­inn býð­ur því til Lífs­kviðu; mann­fagn­að­ar og list­við­burð­ar á Götu sól­ar­inn­ar við Kjarna­skóg. Ás­geir frá­bið­ur sér orð­ið æðru­leysi í þessu sam­hengi, því auð­vit­að sé hann „al­veg hund­fúll.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár