Áhverjum þriðjudegi byrjar vinnudagurinn minn á því að stíga á baðvog. Við liðsfélagarnir opnum snjallforrit og stígum svo hver af annarri á apparat sem mælir okkur í bak og fyrir og sendir svo niðurstöðurnar beint til sjúkraþjálfara liðsins. Þetta er vissulegt gert í þeim tilgangi að fylgjast með heilsufarsástandi okkar og er einungis hugsað sem tól okkur til bóta í því krefjandi umhverfi sem atvinnuíþróttaheimurinn er. En þessi einfalda athöfn getur þó haldið okkur í töluvert meiri heljargreipum en karlkyns stjórnendur liðsins gera sér í hugarlund.
„Vitandi að sami sársauki hafði heltekið mig svo árum skipti vissi ég þó lítið hvernig ég gæti stutt hana
Í síðustu viku kom liðsfélagi til mín í uppnámi eftir að hafa stigið á silfurlitaða óvættinn með enn eina staðfestinguna á því að hún sé ekki eins og hún eigi að vera. Hafandi sjálf fengið þá staðfestingu oftar en ég kæri mig um að rifja upp, hryggði það mig mjög á þessari annars ágætu byrjun á deginum. Vitandi að sami sársauki hafði heltekið mig svo árum skipti vissi ég þó lítið hvernig ég gæti stutt hana. Ekki erum við þær einu sem höfum leyft þessu einfalda tæki, sem fyrirfinnst á flestum heimilum hins vestræna heims, að stýra framvindu dagsins. Og ekki er ég með úrlausn á því hvernig best sé að leiða vonbrigðaniðurstöður þess hjá sér og beina sjónum að mikilvægari málefnum.
Eftir að hún kom til mín gat ég ekki annað en velt fyrir mér hvernig heimurinn liti út ef allri þessari hugarorku væri beint í aðrar áttir. Værum við ríkari af skapandi einstaklingum? Ættum við fleiri kvenkyns stjórnendur? Eða ef við skölum þetta niður (orðaleikur ætlaður), ætti ég fleiri liðsfélaga sem hefðu burði í að berjast fyrir jafnrétti innan félagsins sem við spilum fyrir? Kynni þessi liðsfélagi minn á gítar? Eflaust gæti ég sjálf státað af bókum og háskólagráðum taldar með fleiri puttum en sitt hvorum þumlinum.
Athugasemdir