Þrettán rauðvínsflöskur

Í fe­brú­ar ár­ið 2022 ákváðu toll­verð­ir á Kast­rup-flug­velli að skoða nán­ar tvær ferða­tösk­ur með þrett­án flösk­um. Eig­end­ur þeirra voru að koma til lands­ins með flugi og sögðu flösk­urn­ar inni­halda rauð­vín. Ann­að kom á dag­inn þeg­ar tapp­arn­ir voru skrúf­að­ir af.

Þegar ferðatöskurnar hlunkast niður á færibandið á flugvellinum að lokinni flugferð bíða farþegarnir í ofvæni eftir sinni tösku og anda svo léttar þegar þeir sjá hana birtast. Maður sem beið eftir tveimur töskum við færibandið á Kastrup í febrúar 2022 sá þær birtast á bandinu og hélt svo með þær áleiðis að græna útganginum. En lengra komst hann ekki, tollverðir báðu hann vinsamlegast að koma með þeim afsíðis og opna töskurnar.

Maðurinn sagðist vera með 13 rauðvínsflöskur í töskunum, í hverri flösku 1,5 lítri. Þegar tollverðirnir skrúfuðu tappann af fyrstu flöskunni kom í ljós að innihaldið var ekki rauðvín, heldur fljótandi kókaín og í öllum hinum flöskunum 12 var innihaldið það sama. Samtals voru 19,5 lítrar af fljótandi kókaíni í flöskunum 13.

Í tilkynningu lögreglunnar daginn eftir „flöskufundinn“ kom fram að flöskurnar 13 hefðu sést við tilviljanakennda athugun tollvarða á farangri sem fer um flugvöllinn. Síðar kom í ljós að sú lýsing var ekki sannleikanum samkvæm.

Operation Bianco

Eins og áður sagði var maðurinn með ferðatöskurnar handtekinn í febrúar 2022 og var síðar dæmdur fyrir ólöglegan innflutning. Í október á síðasta ári handtók lögreglan 10 menn. Þeir eru grunaðir um að hafa átt aðild að kókaínmálinu. Ástæðu þess að rannsóknin hefur tekið svona langan tíma segir lögregla vera að málið hafi reynst mjög umfangsmikið og teygt anga sína víða.

Lögreglan hafði lengi fylgst með, og hlerað, síma manns sem talinn er hafa staðið á bak við innflutninginn og reyndar komið víðar við sögu í undirheimunum, eins og fulltrúi lögreglunnar orðaði það í tilkynningu.

Nú hafa 6 af mönnunum 10 verið ákærðir en 4 til viðbótar var sleppt eftir yfirheyrslur. Alls 8 til viðbótar eru grunaðir um að tengjast málinu. Mennirnir eru á aldrinum 43 til 69 ára, hinn meinti höfuðpaur yngstur. 

 Minkaskinn, peningar og kókaín

Það var ekki að ástæðulausu að lögreglan sagði að rannsóknin hefði teygt anga sína víða og verið umfangsmikil. Stundum eru innkaup þannig að einhver fer með peninga í tösku, eða greiðslukort og kaupir varning, fer með þær heim og þar með er málinu lokið. Þannig var það ekki í Operation Bianco, eins og málið heitir í skrám lögreglu.

Lögreglan hefur haldið spilunum þétt að sér, en ýmislegt hefur þó verið gert opinbert. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafa viðskiptin með kókaínkaupin farið þannig fram að dönsk minkaskinn hafa verið seld til nokkurra landa, lögregla nefndi Kína og Pólland. Fyrir peningana voru keypt eiturlyf, í þessu nefnda tilviki fljótandi kókaín, sem svo var flutt til Danmerkur og selt þar og hugsanlega víðar.

Viðskiptin fóru fram gegnum milliliði sem allir þurftu að fá borgað fyrir sitt. Öll voru þessu viðskipti utan hefðbundinna leiða, peningaþvætti segir lögreglan. Upphæðin sem um ræðir jafngildir að minnsta kosti 700 milljónum íslenskra króna, á árunum 2020 til 2024.

 Af hverju minkaskinn?

Eins og mörgum er ef til vill í fersku minni var danski minkastofninn, samtals milli 15 og 17 milljónir dýra, sleginn af síðla árs 2020, að skipan stjórnvalda. Síðar kom í ljós að ef til vill  hefði svona róttæk, og kostnaðarsöm, aðgerð ekki verið nauðsynleg, en það er önnur saga.

Öllum danska minkastofninum var fargað, beinlínis með húð og hári. Mikil ringulreið skapaðist í kringum „minkamálið“ eins og það var kallað og enn eru ekki öll kurl komin til grafar í því máli, varðandi bótagreiðslur og fleira.

Eins og kunnugt er eru minkar aldir vegna skinnanna og dönsk minkaskinn hafa lengi verið þau eftirsóttustu í heimi. Kínverjar hafa um langt árabil sóst eftir dönskum minkaskinnum og verið tilbúnir að greiða hátt verð fyrir. Þessi markaður var því sem næst þurrkaður út með einu pennastriki.

Töluðu upphátt um peningaþvætti og minkaskinn

Samkvæmt gögnum sem lögregla hefur undir höndum hafa menn sem þekkja til í minkabransanum rætt í síma og á netinu við höfuðpaurinn fyrrnefnda og ýmsa samstarfsmenn hans. Þar var rætt um verð á minkaskinnum, hvar sé hægt að selja þau og svo framvegis.

Fram kom í máli fulltrúa lögreglunnar á fundi með fréttamönnum að menn, fleiri en einn og fleiri en tveir, sem tengdust minkaeldi í Danmörku hefðu verið í nánum tengslum við kókaínsalana og selt þeim skinn.

 Formaðurinn undrandi

Þegar fréttamaður danska útvarpsins, DR, ræddi við Tage Pedersen, formann samtaka danskra loðdýrabænda, kvaðst hann ekki þekkja til málsins umfram það sem hann hefði heyrt og séð í fjölmiðlum.

Hann sagði að þessar fréttir hefðu komið sér mjög á óvart, ekki síst að svo virtist sem umtalsvert magn hvítra minkaskinna hefðu verið til í landinu löngu eftir að búið væri að farga öllum stofninum. „Ég vissi að það voru til skinn en ekki að þau væru í þúsundatali, ég er miður mín yfir þessum fréttum af kollegum mínum,“ sagði Tage Pedersen.

 Tveir hafa játað

Réttarhöld í Operation Bianco-málinu hófust í síðustu viku í Kolding. Fyrir liggja játningar tveggja manna í málinu en aðrir hafa neitað sök eða ekki tekið afstöðu til ákæru. Allt að átta ára fangelsi getur beðið hinna ákærðu verði þeir fundnir sekir.

Kjósa
29
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Ég er náttúrlega gangandi kraftaverk“
6
Viðtal

„Ég er nátt­úr­lega gang­andi krafta­verk“

Þeg­ar Thelma Björk Jóns­dótt­ir fata­hönn­uð­ur, jóga- og hug­leiðslu­kenn­ari og þriggja barna móð­ir, fann fyr­ir hnúð í öðru brjóst­inu fékk hún ekki að fara strax í skimun. Nokkr­um mán­uð­um síð­ar greind­ist hún með mein­vörp í bein­um, sem hald­ið er niðri með lyfj­um. Hún seg­ir vald­efl­andi að eiga þátt í eig­in bata, með heild­rænni nálg­un og já­kvæðu hug­ar­fari. Hún seg­ir frá þessu, stóru ást­inni og gjöf­inni sem fólst í því að eign­ast barn með downs-heil­kenni.

Mest lesið í mánuðinum

Ásgeir greindist með banvænt krabbamein: „Ég ætla samt að halda partí“
1
Viðtal

Ás­geir greind­ist með ban­vænt krabba­mein: „Ég ætla samt að halda partí“

Ás­geir H. Ing­ólfs­son fékk ný­ver­ið dauða­dóm, eins og hann orð­ar það. Krabba­mein­ið sem hann greind­ist með er ekki tækt til með­ferð­ar. Ljóð­skáld­ið og blaða­mað­ur­inn býð­ur því til Lífs­kviðu; mann­fagn­að­ar og list­við­burð­ar á Götu sól­ar­inn­ar við Kjarna­skóg. Ás­geir frá­bið­ur sér orð­ið æðru­leysi í þessu sam­hengi, því auð­vit­að sé hann „al­veg hund­fúll.“
Móðir Kolfinnu Eldeyjar: „Ég segi mína sögu því að samfélagið þarf að vakna“
2
Fréttir

Móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar: „Ég segi mína sögu því að sam­fé­lag­ið þarf að vakna“

Ingi­björg Dagný Inga­dótt­ir, móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar Sig­urð­ar­dótt­ur, opn­ar sig um and­lát dótt­ur sinn­ar. Hún seg­ir kerf­in hafa brugð­ist barns­föð­ur sín­um, sem hef­ur ver­ið ákærð­ur fyr­ir að hafa ráð­ið dótt­ur þeirra bana. „Ég vissi strax í hjarta mínu að hann hefði ekki tek­ið með­vit­aða ákvörð­un um að gera svona lag­að“.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár