Tæplega helmingur leigjenda, eða 46 prósent, telur húsnæðið sitt vera of lítið. Hlutfallið er 19 prósent meðal þeirra sem búa í eigin húsnæði. Núverandi húsnæði leigjenda er að meðaltali 76 fermetrar, en 135 fermetrar hjá húsnæðiseigendum.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).
Í skýrslunni segir að takmarkaðra framboð virðist vera á leiguhúsnæði en á húsnæði til eignar. Þetta megi sjá á því að algengara er að leigjendur búi ekki á þeim stað sem þeir myndu helst kjósa, en fimmti hver leigjandi myndi helst ekki kjósa að búa þar sem hann býr nú. Hlutfallið er talsvert lægra meðal húseigenda, eða sjö prósent.
Meðalleiga 244 þúsund krónur á höfuðborgarsvæðinu
Samkvæmt skýrslunni lækkaði vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu um 0,9 prósent í desember. Meðalleiga á höfuðborgarsvæðinu í desember var 244 þúsund krónur, sem er um þremur prósentum meira en á sama tíma árið áður.
Á síðastliðnu ári hefur vísitala leiguverðs hækkað um 12,6 prósent en vísitala neysluverðs um 4,8 prósent.
Þá hefur munurinn á markaðs- og meðalleigu á höfuðborgarsvæðinu aukist úr 24 þúsund krónum á mánuði upp í 30 þúsund krónur á síðustu 12 mánuðum.
Meðalleiguverð nýrra samninga á leiguíbúðum í eigu einstaklinga eða hagnaðardrifinna leigufélaga var 275 þúsund krónur á höfuðborgarsvæðinu í desember. „Til samanburðar nam meðalleiguverð nýrra samninga á slíkum íbúðum um 225 þúsund krónum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins,“ segir í skýrslunni.
Aukið framboð á höfuðborgarsvæðinu
Í upphafi nýs árs voru 3.890 íbúðir til sölu og fækkaði um rúmlega 200 frá því í desember. Í samanburði við ársbyrjun 2024 eru nú um 500 fleiri íbúðir til sölu á landinu öllu.
Meira framboð er á höfuðborgarsvæðinu í samanburði við upphaf síðasta árs, en þar hefur íbúðum til sölu fjölgað um 300. Fjölgunin skýrist að mestu af því að óseldum nýjum íbúðum hefur fjölgað en hlutdeild nýrra íbúða í framboði heldur áfram að hækka.
„Hlutdeild nýrra íbúða í framboði hefur ekki verið hærri frá því að gagnasöfnun hófst síðla árs 2017. Ein skýring á háu hlutfalli nú er að nýbyggingar koma í meira mæli fyrr á sölu en áður. Af um það bil 1.450 nýjum íbúðum til sölu á höfuðborgarsvæðinu í desember 2024 voru um 750 á matsstigi 1-5, sem þýðir að rúmlega helmingur auglýstra íbúða í nýbyggingum voru ekki fullbúnar,“ segir í skýrslunni.
Athugasemdir