Þrátt fyrir ítrekuð samtöl hafa tilraunir Reykjavíkurborgar til að fá Samtök sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu til samstarfs ekki leitt til þess að sveitarfélögin hafi sett fram áætlanir um viðbrögð við heimilisleysi einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir og hafa lögheimili utan Reykjavíkur en sækja þjónustu til höfðuðborgarinnar. Þetta kemur fram í endurskoðaðri aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar fram til ársins 2027 í málefnum heimilislausra með mikla þjónustuþörf sem samþykkt var í borgarstjórn í vikunni.
Velferðarsvið Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness ákváðu á vormánuðum 2022 að fara af stað með samstarfsverkefni í málaflokki heimilislausra. Markmiðið með verkefninu var að meðal annars að móta tillögur um það hvernig bæta mætti þjónustu við þennan hóp með sameiginlegu átaki aðildarsveitarfélaganna.
„Önnur sveitarfélög virðast hafa hafnað því að styðja við þennan hóp“
„Engar úrbætur hafa verið gerðar af hálfu umræddra sveitarfélaga í kjölfar þessarar vinnu sem bendir til áhugaleysis sveitarfélaganna til úrbóta sem veldur því að þungi af málaflokknum í Reykjavík eykst,“ segir í aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar þar sem fjallað er um áskoranir í málaflokknum.
„Önnur sveitarfélög virðast hafa hafnað því að styðja við þennan hóp,“ segir í bókun sem Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins í velferðarráði lagði fram á síðasta fundi ráðsins þar sem hún fjallaði um áðurnefnt áhugaleysi nágrannasveitarfélaganna. Í bókuninni segir ennfremur: „Þetta er auðvitað bagalegt.“
Í aðgerðaáætluninni er ennfremur gagnrýnt að Reykjavíkurborg beri eitt sveitarfélaga hitann og þungann af þjónustunni og hvetur til þess að ríkið móti sér stefnu í málaflokknum, en Reykjavíkurborg hefur ítrekað vakið athygli stjórnvalda á stöðunni.
Þessi skortur á samstarfi sveitarfélaganna á sér ýmsar birtingarmyndir. Heimildin greindi frá því sumarið 2023 að heimilislaus karlmaður svipti sig lífi eftir að hafa verið vísað frá neyðarskýli í Reykjavík. Ástæða frávísunarinnar var krafa Hafnafjarðarbæjar þar sem maðurinn var með lögheimili, en lögheimilissveitarfélag greiddi þá svokallað gistináttagjald ef fólk þurfti að leita skjóls í neyðarskýlunum sem öll eru í Reykjavík.
„Hann var með lögheimili í Hafnarfirði og Hafnarfjarðarbær neitaði að borga fyrir hann í gistiskýlinu. Honum var vísað frá því Hafnarfjarðarbær sagði bara Fokkaðu þér,“ sagði systir mannsins í samtali við Heimildina.
Athugasemdir