Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar stéttarfélags, hefur sent erindi til sérleyfisveitingakeðjanna Subway IP LLC og Hard Rock Cafe International og vekur þar athygli „á þátttöku sérleyfishafa þeirra hér á landi í réttindabrotum gegn vinnandi fólki, ólögmætu athæfi og lagabrotum“, samkvæmt því sem segir í fréttatilkynningu frá Eflingu.
Þar kemur fram að í erindunum bendi Sólveig Anna á að Stjarnan ehf., sérleyfishafi Subway á Íslandi, og HRC Ísland ehf., sem heldur á sérleyfi fyrir Hard Rock Cafe á Íslandi, hafi „að líkindum bæði tekið þátt í stofnun ólögmæts gervistéttarfélags, sem stýrt sé af atvinnurekendum.“
Í bréfunum biður hún erlendu móðurfélögin um að „rannsaka“ hegðun íslensku sérleyfishafanna til að tryggja að þeir „uppfylli gildandi vinnulöggjöf, sem og hvers kyns siðferðileg vinnubrögð tengd fyrirtækinu“.
Í erindum Sólveigar Önnu út til þessara móðurfélaga Subway og Hard Rock Cafe á alþjóðavísu segir meðal annars: „Þó Efling geri sér grein fyrir að sérleyfishafar starfi sem sjálfstæð eining undir vörumerki ykkar, þýða tengslin að framganga þeirra gætu brugðið slæmu ljósi á orðspor ykkar á heimsvísu.“
Barátta gegn gervikjarasamningi
Þessar bréfasendingar formanns Eflingar eru áframhald á þeim slag sem stéttarfélagið hefur ráðist í vegna starfsemi stéttarfélagsins Virðingar og kjarasamnings þess við SVEIT, samtök fyrirtækja á veitingamarkaði.
Þann samning segir Efling vera ólögmætan, enda sé Virðing gervistéttarfélag, stofnað af fyrirtækjaeigendunum sjálfum í því skyni að ráðast gegn kjörum starfsfólks í veitingageiranum.
Efling segir að auk þess innihaldi samningurinn fjölmörg ákvæði sem brjóti gegn íslenskum lögum og Evrópureglugerðum.
Athugasemdir