„Þessi réttarhöld voru vitnisburður um það sem venjulegir menn gerðu einni venjulegri konu,“ skrifar blaðamaðurinn Megan Clement í The New York Times um réttarhöldin yfir fimmtíu karlmönnum sem nauðguðu franskri konu yfir tæplega tíu ára tímabil.
Konan heitir Gisèle Pelicot, hún er 72 ára og er í dag hyllt sem feminísk hetja, bæði í heimalandi sínu, Frakklandi, sem og víðar um heim. En leiðin þangað var vörðuð bröttum klettum, gjótum og heilu hyldýpi. Gisèle þurfti að horfast í augu við ómældan hrylling, sjálfsásakanir og sjálfsefa, áður en hún gat meðtekið að það var ekki hún sem þurfti að skammast sín, heldur þeir.
Réttarhöldin, sem stóðu yfir í fimmtán vikur, vöktu heimsathygli en mesta athygli vöktu þau í Frakklandi. Fólki þótti það erfið tilhugsun að samlandi þeirra, einn af þeim, hefði byrlað eiginkonu sinni og boðið tugum karlmanna heim til þeirra til að nauðga henni á meðan hún var sofandi. Dominique Pelicot, eiginmaðurinn, var dæmdur í 20 ára fangelsi. Af hinum sakborningunum voru 46 dæmdir fyrir nauðgun, tveir fyrir tilraun til nauðgunar og tveir fyrir kynferðislega árás.
Mennina fann Dominique á netinu, á spjallrás þar sem hann notaði dulnefnið „à son insu“ – án hennar vitundar. Þar sagði hann þau eiginkonuna deila því blæti að menn hefðu kynmök við hana sofandi. Margir nauðgaranna sögðust hafa talið sig vera að taka þátt í hlutverkaleik, þrátt fyrir að lögreglan hafi komist að því að Dominique notaði margoft orðið „nauðgun“ í samtölum sínum við þá. Einn spurði hvað lyfin væru lengi að virka, því það væri 20 mínútna akstur frá honum heim til þeirra. Annar vildi fullvissa sig um að konan væri ekki með neina kynsjúkdóma: „Læturðu hana reglulega í próf? Viss um að hún sé hrein?“
Hundruð söfnuðust saman í borgum víða um Frakkland, allt frá Marseille til Parísar, til að sýna Gisèle stuðning meðan á réttarhöldunum stóð. Aðallega konur. „Líkamar okkar eru ekki hlutir,“ stóð á sumum spjöldunum sem sjá mátti í hópi stuðningsfólks hennar. Á öðrum stóð einfaldlega: „Takk, Gisèle.“ En á flestum þeirra hafði verið skrifað: „Skömmin skilar sér heim.“ Orð Gisèle í réttarhöldunum – La honte change de camp – urðu einkennisorð hennar en líka einkennisorð þeirra sem sýndu henni stuðning.
Það sem var óskiljanlegt
Eitt af því sem mörgum fannst svo óskiljanlegt var hversu venjulegir menn það voru sem nauðguðu henni. Franska pressan fór að vísa til þeirra sem Monsieur-Tout-Le-Monde, sem enskir miðlar þýddu sem Mr. EveryMan. Herra Allir. Herra Hver-sem-er. Bara venjulegur maður. Meðan á réttarhöldunum stóð mátti sjá þá labba um gangana, spjalla, grínast, sækja sér kaffi á kaffihúsinu hinum megin við götuna. Venjulegir menn.
Elsa Labouret, franskur feminískur aktívisti, sagði ástæðuna fyrir því að svo margar konur tengdu við mál Gisèle værisú að „ég held að flest sem eru í langtímasamböndum með karlmönnum telji að þau geti treyst maka sínum. En samt finna konur þessa sterku tengingu við Gisèle, og hugsa: Ok, Þetta gæti komið fyrir mig.“ Hún bætti við að þessir menn væru engir þaulskipulagðir glæpamenn, þeir hefðu bara farið á internetið.
„Ég held að næstum allir gætu lent í þessari stöðu – kannski ekki akkúrat þessari stöðu
Flestir þeirra tuga manna sem nauðguðu Gisèle bjuggu í bæjum og borgum í innan við 50 kílómetra radíus frá heimili þeirra hjóna, í bænum Mazan sem telur um sex þúsund íbúa. Verjendur sumra þeirra reyndu að nýta hversu venjulegir þeir voru: „Venjulegt fólk gerir óvenjulega hluti,“ sagði Antoine Minier, verjandi þriggja þeirra. „Ég held að næstum allir gætu lent í þessari stöðu – kannski ekki akkúrat þessari stöðu, en gæti verið móttækilegt fyrir því að fremja alvarlegan glæp,“ sagði hann í samtali við BBC.
Það sem var ótrúlegt
Þegar Gisèle gaf fyrst skýrslu fyrir dómnum í Avignon, í byrjun september, sagðist hún hafa sett upp grímu styrkleika en á bak við hana væru rústir einar. Við næstu skýrslugjöf sagði hún: „Ég hef upplifað mig niðurlægða alveg síðan ég gekk inn í dómsalinn. Í dag finnst mér eins og það sé ég sem er sek, og mennirnir fimmtíu séu mínir þolendur.“ Hún fór gegn öllum ráðleggingum, bæði af hálfu réttarins og af hálfu saksóknara, og bað um að myndböndin af nauðgununum yrðu gerð opinber. Þessi ákvörðun hennar breytti öllu.
Myndböndin hafði Dominique, eiginmaður hennar, tekið þegar mennirnir sem hann bauð inn á heimili þeirra voru að nauðga Gisèle á meðan hún var sofandi lyfjasvefni, sofandi eftir að hann hafði byrlað henni þannig að hún svæfi þegar mennirnir komu.
Einn þeirra, Lionel Rodriguez, 44 ára starfsmaður í stórmarkaði og þriggja barna faðir, var dæmdur í átta ára fangelsi. Rodriguez játaði nauðgun en sagðist ekki hafa ætlað að gera það. „Þar sem ég fékk ekki samþykki frá frú Pelicot þá á ég engra kosta völ,“ sagði hann í dómsalnum. „Ég hef aldrei sagt við sjálfan mig: Ég ætla að nauðga þessari konu,“ og bætti við að hann hefði átt að fara þegar hann sá að hún var meðvitundarlaus, og að það hafi verið hugleysi hjá honum að segja ekkert. Enginn þeirra sem nauðgaði Gisèle hafði samband við lögregluna.
Annar var Simoné Mekenes, 43 ára nágranni þeirra og sá eini sem Gisèle þekkti af myndböndunum. Hann fékk níu ára dóm. Dominique hafði boðið Mekenes að koma í heimsókn áður „til að sjá hversu falleg konan mín er,“ og bætti við: „Ef hún spyr segðu þá að þú sért kominn til að skoða hjólið mitt.“ Mekenes neitaði sök, sagðist hafa haldið að konan væri bara að þykjast vera sofandi: „Ég er ekki nauðgari,“ sagði hann fyrir réttinum.
Þrír fjórðu af mönnunum eiga börn, helmingur þeirra er kvæntur eða í langtímasambandi. Fjórðungur þeirra sagðist hafa verið misnotaður eða nauðgað í æsku. Þeir voru á ólíkum aldri, allt frá 26 til 74 ára, og úr ólíkum starfsstéttum. Patrice Nicolle, 55 ára rafvirki, var dæmdur í 8 ára fangelsi fyrir að nauðga henni. Mathieu Dartus, 53 ára bakari, fékk sjö ára dóm. Redouan El Farihi, 55 ára hjúkrunarfræðingur, fékk 8 ára dóm. Adrien Longeron, 34 ára, neitaði að hafa nauðgað Gisèle og bar fyrir dómi: „Svo lengi sem eiginmaðurinn er á staðnum er engin nauðgun.“ Hann var dæmdur í sex ára fangelsi. Nizar Hamida, 41 árs, sagði í dómsal: „Ég er ekki nauðgari. Af hverju ætti ég að nauðga 66 ára gamalli konu?“ Hann fékk 10 ára dóm. Það sem þeir áttu allir sameiginlegt var að þeir voru karlmenn og að þeir höfðu komist í kynni við Dominique á vefspjalli. „Ég er að fara að gefa henni skammtinn,“ skrifaði Dominique einum þeirra áður en hann kom. Öðrum sendi hann: „Við þurfum að bíða í allavega klukkutíma með að misnota hana.“ Patrice Nicolle, 55 ára tveggja barna faðir sem fékk átta ára dóm, sagði þegar hann var spurður af hverju hann hefði ekki haft samband við lögregluna: „Ég er bara rafvirki í smábæ. Hver á lögreglustöðinni hefði átt að trúa mér?“
Það sem var ómögulegt
Það var í nóvember 2020 sem Gisèle og Dominique voru boðuð á lögreglustöðina í Carprentas vegna þess að tveimur mánuðum áður hafði Dominique verið tekinn af öryggisverði þar sem hann var að taka myndir undir pils hjá konum í stórmarkaði. Þarna fyrst hóf lögreglan að rannsaka hann, og út af allt öðru máli. Gisèle var þarna tekin afsíðis og spurð ýmissa spurninga, sem sumar virtust henni í fyrstu sakleysislegar. Spurningar á borð við: „Klukkan hvað ferðu að sofa? Tekurðu lyf? Svefnpillur? Geturðu lýst hefðbundnu kvöldi heima með eiginmanni þínum? Leggurðu þig stundum síðdegis?“ Gisèle var áfram afslöppuð þegar lögreglufulltrúinn spurði hana: „Heldurðu að þú þekkir eiginmann þinn svo vel að hann geti ekki falið neitt fyrir þér?“ Hún svaraði: „Ég held það.“ Lögreglumaðurinn upplýsti hana þá um að Dominique hefði verið handtekinn í tengslum við nauðganir: „Okkur grunar að hann hafi oft gefið þér [svefnlyf] til að láta þig sofna í því skyni að hvetja einn eða fleiri einstaklinga til að hafa samræði við þig án þinnar vitundar á heimili ykkar. Er það mögulegt?“ spurði lögreglan Gisèle. Að segja að henni hafi verið brugðið nær ekki yfir þær tilfinningar sem hún upplifði: „Það er ekki mögulegt. Ég trúi því ekki,“ svaraði hún. Í gögnum lögreglunnar er síðan skrifað: „Frú Pelicot grætur.“ Henni voru sýndar myndir og skjáskot úr myndböndum þar sem hún bar kennsl á svefnherbergið sitt, á sjálfa sig. En alls ekki mennina á myndunum.
Eftir þetta bjó hún tímabundið hjá börnum þeirra Dominique en ákvað síðan að flytja í lítið þorp í Suður-Frakklandi þar sem enginn þekkti hana og hún sagði engum þar frá því sem hafði gerst. „Hún var kona sem brosti en virtist þó djúpt sokkin í þunglyndi. Hún deildi hlátri sínum en faldi tárin,“ sagði Babonneau, lögmaður hennar. Árið 2023 fóru að birtast fréttir í fjölmiðlum af nauðgunarmáli í Mazan en Gisèle lét enn ekkert uppi. Rannsóknin stóð sem hæst. Mönnunum voru síðar birtar ákærur. Sumarið 2024 tók hún ákvörðun um að óska eftir því að réttarhöldin yrðu opin.
Það sem var óboðlegt
Vegna þeirrar athygli sem málið vakti ræddi BBC við borgarstjórann í Mazan, þar sem nauðganirnar áttu sér stað, og það áfall sem íbúarnir hlytu að hafa upplifað við þessar fregnir. Borgarstjórinn, Louis Bonnet, sagði hins vegar að það hefði verið gert of mikið úr málinu þar sem konan hefði verið meðvitundarlaus og því upplifað minni skaða en ella: „Þegar þetta snertir börn, þegar konur eru drepnar, þá er það mjög alvarlegt því þú getur ekki náð þér aftur. Í þessu tilviki þarf fjölskyldan að byggja sig upp aftur. Það verður erfitt en enginn dó þannig að þau geta það alveg.“ Vegna harðrar gagnrýni um allt Frakkland baðst hann afsökunar á þessum ummælum: „Sérstaklega þær konur sem urðu sárar vegna klaufalegra orða minna þegar ég var fyrir framan míkrófón og upplifði mikla pressu frá erlendum fjölmiðlum.“ En þarna birtist á enn einn veg þau viðhorf sem Gisèle ákvað að stíga upp gegn.
Fjölmargar ljósmyndir af Gisèle birtust um allan heim þegar réttarhöldin stóðu yfir. Á fyrri stigum þess mætti hún til dómshússins með sólgleraugu. Þegar líða tók á réttarhöldin hætti hún að nota sólgleraugun. „Hún notaði sólgleraugun til að hylja augu sín … til að verja friðhelgi sína,“ sagði Stéphane Babonneau, lögmaður Gisèle. „Síðan kom að því að henni fannst hún ekki lengur þurfa að verja sig á þennan hátt. Hún þurfti sólgleraugun ekki lengur.“
„Ég ákvað að segja þetta í mynd því ég vildi að allar konur gætu sagt við sjálfa sig: „Frú Pelicot gat það, ég get það
Gisèle er hins vegar enn brotin og sár hennar munu væntanlega aldrei gróa. Ástkær eiginmaður hennar, maðurinn sem hún eignaðist með þrjú börn og á með barnabörn, maðurinn sem hún kaus að verja lífi sínu með og setti allt sitt traust á braut á henni með hætti sem orð hreinlega ná ekki að lýsa hversu viðurstyggilegur er.
Eftir að dómurinn var kveðinn upp, þar sem staðfest var formlega að allir þessir venjulegu menn voru nauðgarar, las hún upp yfirlýsingu í viðurvist fjölmiðla alls staðar að úr heiminum: „Ég ákvað að segja þetta í mynd því ég vildi að allar konur gætu sagt við sjálfa sig: „Frú Pelicot gat það, ég get það.“ Ég tala hátt og skýrt en ég er ekki að tjá reiði eða hatur, ég er að tjá hversu ákveðin ég er í að breyta þessu samfélagi.“ Hún bætti síðan við að það væri misskilningur þegar fólk segði hana einstaklega hugrakka: „Þetta er ekki hugrekki, þetta er viljastyrkur.“
Hópur franskra karlmanna, þeirra á meðal þekktir leikarar, söngvarar og blaðamenn, birti opið bréf meðan réttarhöldin stóðu yfir þar sem þeir hvöttu karlmenn til að skora feðraveldið á hólm, sögðu engan hafa hag af samfélagi þar sem karlar hafa völd yfir konum, og að hætta þurfi að skrímslavæða nauðgara því nauðgarar séu líka venjulegir menn, Monsieur-Tout-Le-Monde.
Kynferðisbrot, þar með taldar nauðganir, eru eitt stærsta mein samfélagsins – ekki bara í Frakklandi eða bara á Íslandi heldur um allan heim. Og við eigum öll jafnerfitt með að meðtaka að það eru ekki bara einhver skrímsli sem nauðga. Sá mikli fjöldi sem leitar til neyðarmóttöku fyrir þolendur nauðgana, til Stígamóta og lögreglunnar sýnir einfaldlega að fjöldi kynferðisbrotamanna er mikill. Þá erum við ekki einu sinni að horfa til fjölda þeirra sem aldrei leita sér hjálpar, jafnvel uppfullar af sjálfsásökunum og skömm.
Það er kannski klisja en stundum eru klisjur sannar; nauðgarar eru í hópi vina okkar, eiginmanna, bræðra, sona, vinnufélaga, nágranna. Þeir eru á öllum aldri, úr öllum stéttum samfélagsins. Þeir eru venjulegir menn.
En af hverju tala íslenskir fjölmiðlar næstum eingöngu um karlkyns fól?
Því í venjulegum konum leynast líka stundum fól. En vestrænar þjóðir virðast á síðustu áratugum hunsa slíkt. Og það birtist m.a. í umfjöllun fjölmiðla, þ.m.t. RÚV og Vísi, en kannski sérstaklega Heimildarinnar. Verst er kannski afleidd neikvæð og kynjamismunandi meðferð dómsstóla og löggæslu íslenskrar gagnvart körlum, eins og Helga Vala lögmaður og fyrrum alþingismaður komst að niðurstöðu um í MA ritgerð sinni nú læstri. Huginn Þór Grétarsson lýsti ítarlega slíkum dæmum löggæslu og dómsstóla í Vísis-grein sinni "Lögbrot íslenskrar stjórnsýslu og dómstóla" frá október 2024 og er verðug lesning.
Erla Hlynsdóttir og Heimildin, hvenær munið þið fjalla um ofbeldisfólk í heild sinni, fjalla um þann mismun sem karlmenn verða fyrir, það ofbeldi sem þeir verða fyrir m.a. af hálfu kvenna, og hvernig er hægt að vinna gegn því, og hjálpa kvenkyns gerendum? Karlmenn eru jú líka manneskjur, eins og kvenmenn og kvár.