Þann 3. janúar síðastliðinn ákvað Umhverfis- og orkustofnun að framlengja bráðabirgðaheimild Skotfélags Reykjavíkur til rekstrar skotvallar á Álfsnesi. Frestur til að skila athugasemdum um áform stofnunarinnar hafði runnið út á hádegi þennan sama dag en „engar athugasemdir bárust á auglýsingatímanum“, segir á vef stofnunarinnar um afgreiðslu málsins. Auglýsingatíminn var skammur eða aðeins um sólarhringur.
Skotfélag Reykjavíkur hefur verið starfrækt frá árinu 1867 og er því elsta íþróttafélag Íslands. Fyrstu skotæfingar félagsins fóru fram við Tjörnina í Reykjavík og dregur Skothúsvegur nafn sitt af Skothúsi Skotfélags Reykjavíkur sem stóð við Tjarnargötu.
Frá miðri síðustu öld og æfingasvæði félagsins í Leirdal við Grafarholt en um aldamótin varð það að víkja fyrir íbúabyggð. Um skeið lágu útiæfingar niðri en síðan var félaginu tryggð aðstaða í Álfsnesi sem það taldi vera til framtíðar.
Nágrennið nýtt til útvistar
En þar sem er hleypt af byssum getur skapast ónæði og síðustu ár hafa nágrannar, m.a. Á Kjalarnesi, kvartað undan hávaða. Á sama tíma sækja sífellt fleiri að nýta Esjuna og grannsvæði hennar til útivistar. Upp hafa því vaknað spurningar um hvort skotvellir eigi heima í næsta nágrenni. Þess má geta að niðurstaða rannsóknar sem heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur framkvæmdi árið 2020 leiddi í ljós að hávaði frá skotsvæðinu var undir eða við viðmiðunargildi að degi til en aðeins yfir gildunum sem gilda á kvöldin. Mældur var hávaði við hús í nágrenninu þar sem í er föst búseta. Áfram hafa þó borist kvartanir og starfsemi á skotsvæðunum á Álfsnesi var stöðvuð um tíma þar sem hún taldist ekki samrýmast landnýtingu samkvæmt aðalskipulagi. Skotveiðifélag Reykjavíkur er einnig með skotvöll á sama svæði.
Eitt fyrsta verk nýrrar stofnunar
Umhverfisstofnun veitti Skotfélagi Reykjavíkur bráðabirgðaheimild fyrir rekstri skotvallarins í Álfsnesi þann 5. september síðastliðinn og var henni markaður gildistími þar til starfsleyfi yrði gefið út en þó eigi lengur en til 5. janúar í ár. Útgáfa starfsleyfis er í höndum heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Um miðjan desember sótti félagið um framlengingu á bráðabirgðaheimildinni. Umhverfisstofnun var lögð niður um áramótin og í upphafi árs tók ný stofnun, Umhverfis- og orkustofnun, til starfa. Hún tekur við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar.
Fram kemur í umsókn Skotfélags Reykjavíkur að vegna dráttar á vinnu við undirbúning starfsleyfis á Álfsnesi, óski félagið eftir framlengingu bráðabirgðaheimildar. Fram kemur að vinna sé í gangi við undirbúninginn hjá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar og reiknað sé með að öll gögn verði tilbúin fyrir heilbrigðiseftirlit borgarinnar innan skamms. Unnið sé að lagfæringu girðingar utan um svæðið og verkfræðistofan VSÓ sé að gera tillögur að auknum hljóðvörnum, sem liggja eigi fyrir fljótlega.
Umhverfisstofnun aflaði umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur vegna málsins sem staðfesti að vinna væri hafin við gerð starfsleyfisskilyrða vegna tillögu að starfsleyfi. Sú vinna væri hins vegar í bið á meðan beðið væri ítarlegri gagna vegna greiningar og aðgerða til minnkunar á hávaða frá starfseminni.
Samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir er Umhverfis- og orkustofnun heimilt í sérstökum undantekningartilvikum, þegar brýn þörf er á að hefja eða halda áfram starfsemi sem heyrir undir lögin, að veita rekstraraðila bráðabirgðaheimild að hans beiðni fyrir starfseminni. Er stofnuninni heimilt að framlengja bráðabirgðaheimild um allt að eitt ár.
Í ljósi þessa hefur Umhverfis- og orkustofnun nú ákveðið að framlengja bráðabirgðaheimild Skotfélags Reykjavíkur til rekstrar skotvalla á Álfsnesi. Ákvörðunin er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan eins mánaðar frá birtingu ákvörðunar.
Athugasemdir (1)