Söguleg stund í Danmörku

Þeir Dan­ir sem sett­ust við sjón­varps­tæk­in klukk­an sex á gaml­árs­dag sáu strax að eitt­hvað var breytt. Frið­rik kon­ung­ur kom gang­andi inn í mót­töku­her­berg­ið, sett­ist við borð og hóf lest­ur­inn. Þetta var sögu­leg stund. Í fyrsta sinn sem nýr kon­ung­ur ávarp­aði dönsku þjóð­ina í ný­ársávarpi.

Þótt Danir hafi nokkur undanfarin ár velt því fyrir sér hvort Margrét Þórhildur, sem verður 85 ára í apríl næstkomandi, myndi afhenda syninum Friðrik krúnuna þvertók hún lengi vel fyrir það. Jeg bliver indtil jeg falder af pinden“, ég verð þar til ég hrekk upp af, svaraði hún ætíð þegar spurt var.

Margrét Þórhildur var 32 ára þegar hún varð drottning Danmerkur. Faðir hennar, Friðrik IX, lést 14. janúar árið 1972 en hann hafði verið þjóðhöfðingi Dana frá árinu 1947. Margrét Þórhildur giftist árið 1967 Frakkanum Henri-Marie-Jean André, sem eftir giftinguna var ætíð nefndur Henrik prins. Þau eignuðust tvo syni, Friðrik, sem er fæddur 26. maí 1968 og Jóakim, fæddur 7. júní 1969. Danir hafa alla tíð fylgst grannt með fjölskyldunni á Amalienborg og smávægileg atvik orðið umfjöllunarefni fjölmiðla. Af þeim bræðrum hefur athyglin einkum beinst að eldri syninum, ríkisarfanum Friðriki. 

Danir hafa alltaf haft mikið dálæti á drottningunni en eiginmaðurinn Henrik, sem lést í febrúar 2018, var umdeildari. Þau Margrét Þórhildur og Henrik höfðu mikinn áhuga á myndlist, tónlist og bókmenntum. Þann áhuga hefur Friðrik ekki erft í jafnríkum mæli en hann hefur þeim mun meiri áhuga á íþróttum og heilsurækt, sá áhugi er ekki frá foreldrunum kominn. Hann hefur líka mikinn áhuga á dægurlagatónlist, einkum danskri. Friðrik er stjórnmálafræðingur að mennt en Jóakim lærði fyrst búvísindi, hann lauk síðar námi frá École Militaire í París og er eini Daninn sem hefur lokið þar námi með hæstu prófgráðu. Jóakim er nú sérfræðingur við sendiráð Danmerkur í Washington og á fjögur börn.

Hitti eiginkonuna Mary fyrst á Slip Inn barnum í Sydney

Á Ólympíuleikunum í Sydney í Ástralíu sumarið 2000 brá Friðrik sér á Slip Inn barinn í borginni. Blaðamenn, sem annars fylgdust vel með ferðum Friðriks, vissu ekki af þessari ferð á barinn og nöguðu sig í handarbökin því þarna hitti Friðrik Mary Donaldson, tilvonandi eiginkonu sína, í fyrsta sinn. Í október árið 2003 tilkynntu þau Mary og Friðrik trúlofun sína, þá höfðu þau Margrét Þórhildur og Henrik lagt blessun sína yfir ráðahaginn. Brúðkaupið fór fram í Frúarkirkjunni í Kaupmannahöfn 14. maí 2004.

Tók dönsku þjóðina með trompi

Mary krónprinsessa, eins og hún var nefnd eftir brúðkaupið, vann strax hug og hjörtu dönsku þjóðarinnar. Hún þykir aðlaðandi og alþýðleg og náði fljótt góðum tökum á dönskunni. Þau Friðrik eiga fjögur börn, elstur er Christian, fæddur árið 2005.

Under bjælken og fimmtugsafmælið

Haustið 2017, þegar stutt var í fimmtugsafmæli Friðriks, kom út bókin Under bjælken“. Bókin, sem rithöfundurinn Jens Andersen skrifaði, fjallar um Friðrik og er byggð á viðtölum við hann og marga sem til hans þekkja. Titill bókarinnar vísar til verkefnis innan deildar hersins og Friðrik lýsti í bókinni. Bókin þykir vel skrifuð og gagnrýnendur sögðu hana bestu bók sem skrifuð hefði verið um fjölskylduna á Amalienborg.

Í tilefni fimmtugsafmælis Friðriks fjölluðu danskir fjölmiðlar ítarlega um ævi hans og störf. Ýmsir sem fylgjast grannt með lífi og starfi fjölskyldunnar á Amalienborg, iðulega kallaðir hirðsérfræðingar, voru sammála um að Friðrik hefði náð því sem þeir nefndu konungsþroska“. Þeir voru líka sammála um að hann yrði öðruvísi þjóðhöfðingi en móðir hans, með aðrar áherslur í ýmsum málum.

Nýársræður

Embættisstörf danska þjóðhöfðingjans fylgja um margt ákveðnum reglum og venjum sem breytast lítið ár frá ári. Það tæpa ár sem liðið er frá því að Friðrik tók við krúnunni hefur hann að mestu fylgt þeim venjum sem ríkt hafa. Einn hirðsérfræðingur sagði í viðtali um það leyti sem Friðrik tók við krúnunni að fátt myndi breytast fyrr en kæmi að nýársræðunni. Margrét Þórhildur flutti sín nýársávörp sitjandi við borð í móttökustofu sinni í höll Kristjáns IX, þar sem hún hefur búið alla tíð, og býr enn. Nýársávarpið hefur ætíð verið sent út beint, í útvarpi og sjónvarpi, og drottning lesið ræðuna af blöðum, en ekki notast við textavél. Drottningin ræddi ætíð um það sem að hennar mati bar hæst á liðnu ári, í Danmörku, Grænlandi, Færeyjum og annars staðar í heiminum. Opinberar heimsóknir, utan lands og innan, nefndi hún ætíð og sömuleiðis einstök málefni sem henni fannst ástæða til að nefna sérstaklega. Ræðan á gamlársdag 2023 skar sig ekki úr að þessu leyti þangað til í lokin þegar hún tilkynnti að hún myndi láta af embætti þjóðhöfðingja 14. janúar 2024, þá yrðu nákvæmlega 50 ár frá því að hún varð þjóðhöfðingi Danmerkur.

Ekki er ofmælt að þessi tíðindi komu Dönum, og mörgum öðrum, í opna skjöldu. Þótt drottningin sé komin á níræðisaldur og hefði fyrr á árinu gengist undir aðgerð á baki, eins og hún orðaði það, áttu engir von á því að hún hygðist láta af embætti. Þessi ákvörðun mætti hins vegar skilningi þegnanna, sem sögðu hana eðlilega.

Nýársræða Friðriks

Þeir Danir sem settust við sjónvarpstækin klukkan sex á gamlársdag sáu strax að eitthvað var breytt. Friðrik konungur kom gangandi inn í móttökuherbergið í íbúðarhúsi fjölskyldunnar á Amalienborg, höll Friðriks VIII, settist við borð og hóf lesturinn. Konungurinn hefur aldrei átt sérlega auðvelt með að flytja óundirbúnar ræður eða ávörp, honum lætur betur að flytja fyrir fram skrifaðan texta.

Friðrik byrjaði á að nefna að kannski hefðu margir Danir verið áhyggjufullir fyrir hans hönd og spurt hvort einhver annar en Margrét Þórhildur gæti yfirleitt flutt nýársávarpið. Hann las ræðuna af blöðum rétt eins og móðir hans hafði gert. Hann fór mörgum orðum um fjölskylduna og þá breytingu sem orðið hefði 14. janúar og nefndi að krónprinsinn Christian, elsti sonur hans og Mary, hefði lokið framhaldsskóla á árinu. Í framhaldi gat hann um mikilvægi þess að hlusta á ungdóminn og aðstoða þá sem lendi út af sporinu við að rata á rétta braut. Konungurinn þakkaði landsmönnum fyrir þann hlýhug sem þeir hefðu sýnt fjölskyldunni í ferðum hennar um landið. Hann nefndi ánægjulegar heimsóknir til danska minnihlutans í Suður-Slésvík og sömuleiðis heimsókn til Grænlands. Færeyjar væru á dagskrá á þessu ári.

Royal Run

Konungurinn fór mörgum orðum um það mikilvæga sjálfboðaliðastarf sem unnið væri víða í landinu og nefndi í því sambandi sérstaklega Royal Run, en þar störfuðu um það bil 2.500 sjálfboðaliðar á síðasta ári. Royal Run varð til árið 2018 að undirlagi Friðriks, í tengslum við fimmtugsafmæli hans, og varð strax mjög vinsælt. Það er haldið árlega, á annan í hvítasunnu, og fer næst fram 9. júní. Þá verður gengið, eða hlaupið, í fimm borgum í Danmörku, ein ensk míla (1,6 km), fimm eða tíu kílómetrar. Þátttakendur þurfa að skrá sig, en nefna má að löngu er uppselt, ef svo má að orði komast, í hlaupið á þessu ári, en alls voru 97.500 pláss í boði. Hlaupið er hvorki keppnis- né fjáröflunarhlaup, tilgangurinn er einungis að hvetja almenning til hreyfingar. Konungsfjölskyldan hefur ætíð tekið þátt í hlaupinu og þar fer Friðrik fremstur í flokki og tók á síðasta ári þátt á þremur stöðum í landinu. Royal Run er orðið að föstum lið í dönsku þjóðlífi og í margra augum eins konar þjóðhátíð.  

Hvernig tókst konunginum upp?

Eftir á voru hirðsérfræðingar og aðrir sammála um að kónginum hefði tekist vel upp. Hann hefði verið öruggur og ræðan vel gerð. Hann hefði farið mörgum orðum um fjölskylduna, minnst á dökkt útlit í heimsmálunum og nauðsyn þess að Evrópa standi saman.

Sérfræðingarnir voru líka sammála um að nýársávarpið 2025 yrði með allt öðru sniði.

Konungurinn lauk nýársávarpinu á sömu orðum og móðir hans gerði ætíð: Gud bevare Danmark.

Kjósa
12
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • SFG
    Sveinn Flóki Guðmundsson skrifaði
    vefslóð á upptöku af umræddu nýársávarpi á vef DR: https://www.dr.dk/lyd/p1/kongens-nytaarstale-2145132629000
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Við erum ekkert „trailer trash“
1
VettvangurHjólhýsabyggðin

Við er­um ekk­ert „trailer trash“

Lilja Kar­en varð ólétt eft­ir gla­sa­frjóvg­un þeg­ar hún bjó á tjald­svæð­inu í Laug­ar­daln­um og á dög­un­um fagn­aði dótt­ir henn­ar árs af­mæli. Af­mæl­is­veisl­an var hald­in í hjól­hýsi litlu fjöl­skyld­unn­ar á Sæv­ar­höfða, þar sem þær mæðg­ur búa ásamt hinni mömm­unni, Frið­meyju Helgu. „Okk­ar til­finn­ing er að það hafi ver­ið leit­að að ljót­asta staðn­um fyr­ir okk­ur,“ seg­ir Frið­mey, og á þar við svæð­ið sem Reykja­vík­ur­borg fann fyr­ir hjól­hýsa­byggð­ina.
Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
2
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
„Þetta er eins og að búa í einbýlishúsi“
4
VettvangurHjólhýsabyggðin

„Þetta er eins og að búa í ein­býl­is­húsi“

Berg­þóra Páls­dótt­ir, Bebba, hef­ur un­un af því að fá gesti til sín í hjól­hýs­ið og finnst þetta svo­lít­ið eins og að búa í ein­býl­is­húsi. Barna­börn­in koma líka í heim­sókn en þau geta ekki far­ið út að leika sér í hjól­hýsa­byggð­inni í Sæv­ar­höfð­an­um: „Þau skilja ekki af hverju við vor­um rek­in úr Laug­ar­daln­um og sett á þenn­an ógeðs­lega stað.“
Innsæi Karenar öskraði: „Það er eitthvað að“
5
ViðtalMóðursýkiskastið

Inn­sæi Kar­en­ar öskr­aði: „Það er eitt­hvað að“

Þeg­ar Kar­en Ösp Frið­riks­dótt­ir lá sár­kval­in á kvenna­deild Land­spít­ala ár­ið 2019 var hún sök­uð um verkjalyfjafíkn. Hún hafði þá ver­ið verkj­uð síð­an hún var níu ára. Geð­lækn­ir leiddi að því lík­um að verk­ir henn­ar tengd­ust gervióléttu. Tveim­ur ár­um síð­ar fékk hún loks stað­fest­ingu á því að hún væri með lík­am­leg­an sjúk­dóm. Hún von­ar að heil­brigðis­kerf­ið og sam­fé­lag­ið læri af henn­ar sögu.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár