Aðstoðarmenn Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra eru uppistandarinn Jakob Birgisson og lögfræðinginn Þórólfur Heiðar Þorsteinsson. Þeir hafa þegar tekið til starfa í dómsmálaráðuneytinu. Þetta segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Jakob útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2018, hann hefur síðan starfað sem uppistandari og við texta- og hugmyndavinnu hjá auglýsingastofunni Hvíta húsinu.
Þórólfur Heiðar Þorsteinsson lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 2007 og fékk lögmannsréttindi árið 2010. Þá lauk hann LL.M gráðu frá Uppsalaháskóla árið 2015. Þórólfur hefur starfað sem lögfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu frá árinu 2022, en þar á undan starfaði hann sem lögfræðingur hjá Bankasýslu ríkisins og BBA//Fjeldco.
Ingileif og Stefanía aðstoða Þorgerði Katrínu og Hönnu Katrínu
Fyrr í dag tilkynnti utanríkisráðuneytið að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefði ráðið Ingileif Friðriksdóttur í stöðu aðstoðarmanns. Hún er með BA-gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands, hefur starfað sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu, þáttastjórnandi á RÚV og framkvæmdastjóri hjá framleiðslufyrirtækinu Ketchup Creative.
Ingileif hefur meðal annars setið í Stúdentaráði Háskóla Íslands, trúnaðarráði Samtakanna ’78 og tekið þátt í skipulagningu Druslugöngunnar.
Þá mun Stefanía Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Viðreisnar, verða aðstoðarmaður Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra. Stefanía hefur verið framkvæmdastjóri þingflokksins frá árinu 2017, áður starfaði hún sem verkefnastjóri viðburða á markaðssviði Háskólans í Reykjavík. Stefanía hefur lokið BA-gráður í listrænni viðburðastjórnun frá Rose Bruford College í London.
Jón Steindór aðstoðar Daða
Fyrr í vikunni staðfesti Jón Steindór Valdimarsson, fyrrverandi þingmaður Viðreisnar að hann hefði verið ráðinn aðstoðarmaður nýs fjármála- og efnahagsráðherra, Daða Mas Kristóferssonar. Hann hefur þegar hafið störf.
Jón Steindór er með stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri, embættispróf í lögfræði frá HÍ og MPM frá tækni- og verkfræðideild HR 2013. Hann sat á þingi í Suðvesturkjördæmi fyrir Viðreisn árin 2016-2021. Jón Steindór hefur bæði verið formaður Evrópuhreyfingarinnar og Já Ísland! sem tala fyrir inngöngu Íslands inn í Evrópusambandið.
Athugasemdir (3)