Hvað er hægt að segja um árið 2024, séð úr baksýnisspeglinum?
Ég hef alla tíð átt erfitt með að gera upp árið sem er að líða af því að ég tengi atburði sjaldnast við ákveðnar dagsetningar. Ég get hreinlega litið út fyrir að vera tímaferðalangur, því ég er alveg líklegur til þess að spyrja: „Gerðist þetta í ár?“ eða „hvaða ár er í dag?“
Kosningaárið mikla
En þegar ég horfi yfir árið 2024 er eitt sem stendur skýrt upp úr: kosningar. Ekki bara nýafstaðnar, sögulegar kosningar hér á Íslandi, heldur þetta sérstaka kosningaár sem hefur verið kallað „kosningaárið mikla“. Á árinu 2024 fóru fram 74 kosningar í ríkjum sem eiga aðild að Sameinuðu þjóðunum (ásamt Taívan), þar á meðal tvennar kosningar á Íslandi – forsetakosningar og þingkosningar. Alls skiluðu kjósendur í heiminum yfir 1,6 milljörðum atkvæða í kjörkassa á þessu eina ári.
Kosningar snúast oftast um tvennt: uppgjör við fortíðina og umboð til að fást við framtíðina. Það er því viðeigandi að líta ekki aðeins til baka yfir árið 2024, heldur einnig fram á við – til þess hvaða skilaboð þetta mikla kosningaár er að senda okkur.
Árið hófst á tilkynningu fyrrverandi forseta Íslands um að hann hygðist ekki bjóða sig fram til endurkjörs og árinu mun líklega ljúka með myndun nýrrar ríkisstjórnar. Strax frá fyrsta degi ársins var tónninn sleginn og þann 3. janúar var greint frá fyrsta forsetaframboðinu, og sá sami frambjóðandi fór einnig fram með nýjan flokk í þingkosningum. Auk hans voru tveir aðrir forsetaframbjóðendur ofarlega á listum í þingkosningunum. Svakalegt kosningaár fyrir þau.
Breytingar?
Niðurstöður bæði forseta- og þingkosninganna má túlka sem ákall um breytingar. Fyrrverandi forsætisráðherra, sem hafði notið mikilla vinsælda um árabil, beið eftirminnilegan ósigur í forsetakosningunum. Ríkisstjórnin, sem hékk á grunni kosningasigurs Framsóknarflokks árið 2021, kolféll. Flokkur fyrrverandi forsætisráðherra hvarf af þingi, Framsókn rétt hélt, og Sjálfstæðisflokkurinn fór niður fyrir 20%. Heildarfylgi ríkisstjórnarinnar hrundi úr 54,3% í 29,5%.
Það er hins vegar óljóst hvaða breytingar fólk vill sjá, enda flokkarnir sem styrktust fjölbreyttir og viðhorf þeirra dreifð. Mál sem hafa almennan stuðning, svo sem atkvæðagreiðslu um framhald Evrópusamvinnu, ný stjórnarskrá eða skýrari aðgerðir í umhverfis- og loftslagsmálum, náðu ekki fram að ganga sem kosningamál. Samt styður þjóðin þessi mál samkvæmt könnunum og þjóðaratkvæðagreiðslum en það endurspeglast ekki endilega í þeim flokkum sem fengu brautargengi. Svona er lýðræðið stundum skrýtið: Atkvæði lenda stundum á flokkum sem ekki endilega setja þau mál á dagskrá, jafnvel þótt almennur vilji sé til staðar.
Hvatning til stjórnvalda
Skilaboðin ættu þá kannski að vera að stjórnvöld legðu rækt við hinn almenna vilja þjóðarinnar. Á næstu árum bíða okkar fjölmörg brýn verkefni, hvort sem þau tengjast endurnýjun samfélagssáttmálans, umbótum í stjórnkerfinu, umhverfis- og loftslagsmálum eða alþjóðlegri samvinnu. Það er ekki nóg að gera upp fortíðina í kosningum og segjast ætla að breyta. Lýðræðið á nefnilega að virka á milli kosninga líka.
Stjórnvöld þurfa að ganga lengra: að hlusta á skýr skilaboð sem finnast í samhljómi skoðanakannana, grasrótarstarfs, almennra umræðna og fyrri þjóðaratkvæðagreiðslna. Það er ekki nóg að nudda aðeins heilbrigðiskerfið, plástra menntakerfið og byggja fleiri íbúðir. Öll hin stóru málin sem hafa bara fengið að safna ryki niðri í geymslu þurfa líka athygli. Það þarf nokkurs konar vorhreingerningu. Með því að taka þessi mál föstum tökum, móta skýra framtíðarsýn og vinna markvisst að þeim, geta stjórnvöld sýnt að íslenskt lýðræði sé ekki aðeins skrifað á blað, heldur líka innleitt í verki. Það er verkefni komandi ára og tækifærið er núna – þessi mál leysast ekki sjálfkrafa og þau eru ekkert að fara að hverfa. Brettum upp ermarnar, öll sem eitt, og látum bara verkin tala.
Höfundur er fyrrverandi þingmaður.
Aðrir slepptu því.