Um mitt ár 2019 var skilmálum kjarasamningsbundinna atvinnuslysatrygginga breytt einhliða af tryggingafélögunum með þeim afleiðingum að bætur úr tryggingunni geta lækkað umtalsvert. Tekin var upp svokölluð hlutfallsregla þegar metinn er varanlegur miski vegna fjöláverka en sum tryggingafélög höfðu tekið reglu þessa upp án þess að breyta skilmálum sínum. Það var talið ólögmætt sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 5/2021. Í kjölfar hans breyttu tryggingafélögin skilmálum sínum, öll nema TM Tryggingar sem hefur kosið að beita ekki þessari reglu um lækkun örorkubóta.
Breytingar gerðar án samráðs
Í ákvæðum kjarasamninga segir einfaldlega að bætur skuli greiddar skv. töflum sem gefnar eru út af Örorkunefnd sem er fastanefnd stjórnvalda, heyrir undir Dómsmálaráðuneytið og starfar skv. skaðabótalögum. Þessi ákvæði byggja á þeim forsendum sem giltu þegar um þau var samið. Þessar forsendur hafa nú brotið þar sem ákvörðun Örorkunefndar á árinu 2019 var tekin án samráðs við kaupendur trygginganna (samtök atvinnurekenda) eða verkalýðshreyfinguna sem gætir réttar hinna tryggðu.
Hlutfallsreglan lækkar bætur verulega
Dæmi: Launamaður verður fyrir fjöláverka í vinnuslysi. Missir auga, þolir lömun á sköflungstaug og brýtur auk þess hnéskel. Eftir nýrri töflu örkunefndar lækka bætur til hans um 9% frá því sem áður gilti. Sjá töflu Örorkunefndar bls. 15.
Skv. fyrri töflu lögðust prósentin einfaldlega saman en eftir þeirri nýju er lækkar næst mesti skaðinn um prósentuhlutfall mesta skaðans og síðan koll af kolli. Þetta er svokölluð hlutfallsregla. Vegna skaða sem eru meira en 25% margfaldast síðan bótafjárhæðir þannig að um verulega bótalækkun getur verið að ræða og í alvarlegum slysum fleiri milljónir.
Hlutfallsreglan er líklega ólögmæt
Þó Örkunefnd hafi einhliða heimilað beitingu hlutfallsreglunnar er enn verulegur vafi um lögmæti hennar. Í dómi Landsréttar í málinu nr. 825/2019 sem síðar var áfrýjað til Hæstaréttar segir:
„ … lítur rétturinn svo á að í fyrirmælum VIII. kafla um hlutfallsreglu í fyrrnefndri miskatöflu 5. júní 2019 felist nýmæli sem hvorki sækir nauðsynlega stoð í skaðabótalög nr. 50/1993 né hafði tekið gildi er matið var framkvæmt sumarið 2018 og verður ekki beitt í máli því sem hér er til úrlausnar.“
Í dómi Hæstaréttar segir hins vegar:
„Þar sem skilmálar fyrrnefndrar slysatryggingar launþega mæltu fyrir um að meta skyldi örorku í hundraðshlutum samkvæmt töflum örorkunefndar um miskastig sem í gildu væru þegar örorkumat færi fram er ekki tilefni til þess að taka til þess afstöðu í málinu hvort miskatafla örorkunefndar frá árinu 2019 á sér lagastoð svo sem gert var í dómi Landsréttar.“
Samkvæmt framansögðu er verulegum vafa undirorpið hvort hin breytta tafla Örorkunefndar frá 2019 eigi sér yfir höfuð lagastoð og þá um leið hvort það slasaða launafólk sem fengið hefur greiddar skertar skaðabætur á undanförnum árum hafði orðið fyrir tjóni vegna þess.
Lokaorð
Brýnt er fyrir allt launafólk sem slasast hefur í vinnuslysum og hlotið fjöláverka eftir mitt ár 2019 og ýmist bíður uppgjörs eða hefur þegar fengið bætur að kanna réttarstöðu sína og eftir atvikum hafa samband við þá lögfræðinga sem með mál þeirra fara. Þetta á, eins og áður segir einungis við um tryggingar hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. (VÍS), Sjóvá – Almennum tryggingum hf. og Verði tryggingum hf. Jafnframt ættu atvinnurekendur sem að kanna hvernig tryggingamálum sínum er háttað og stéttarfélög hvort gengið hafi verið á rétt félagsmanna.
Athugasemdir