Tólf ára fangelsi fyrir fjársvik

Þyngsti dóm­ur sem fall­ið hef­ur fyr­ir fjár­svik í Dan­mörku var kveð­inn upp í bæj­ar­rétti í Glostrup í síð­ustu viku. Sá dæmdi, Sanjay Shah, er tal­inn hafa svik­ið jafn­gildi 180 millj­arða ís­lenskra króna úr danska rík­iskass­an­um. Hann seg­ist hafa nýtt glufu í skatta­kerf­inu og hef­ur áfrýj­að dómn­um.

Mánudaginn 24. ágúst 2015 sat danska ríkisstjórnin á fundi í Marienborg (embættisbústað forsætisráðherrans) skammt frá Kaupmannahöfn. Þar var verið að undirbúa fjárlög næsta árs, þau fyrstu eftir að ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussen tók við eftir kosningar fyrr á árinu. Auk ráðherranna sátu fundinn ráðuneytisstjórar og nokkrir sérfræðingar.

Karsten Lauritzen skattamálaráðherra veitti skyndilega athygli murri í síma Jens Brøchner, ráðuneytisstjóra skattaráðuneytisins. Jens Brøchner stóð upp eftir að hafa lesið skilaboð á símanum og fór út úr fundarherberginu. Að ráðuneytisstjóri yfirgefi orðalaust vinnufund ríkisstjórnar er óvenjulegt. Eftir drjúga stund kom ráðuneytisstjórinn aftur inn á fundinn, honum virtist brugðið en sagði ekkert. 

Að loknum fundinum, sem stóð fram á kvöld, spurði Jens Brøchner hvort hann gæti orðið samferða í ráðherrabílnum, en ráðuneytisstjórinn hafði komið á eigin bíl til fundarins. „Það var auðvitað velkomið,“ sagði Karsten Lauritzen og brátt kom ástæðan í ljós. „Þegar við vorum sestir inn í bílinn sagði Jens Brøchner mér frá símtalinu áðurnefnda. Sá sem hringdi var starfsmaður í ráðuneytinu til að segja ráðuneytisstjóranum að líklega hefðu verið sviknir 6,2 milljarðar danskra króna (120 milljarðar íslenskir) úr danska ríkiskassanum. Ég fékk sjokk,“ sagði Karsten Lauritzen, sem hafði verið skattamálaráðherra í tvo mánuði þegar málið kom upp.

Frásögnin hér að framan er byggð á viðtali Danska útvarpsins, DR, við Karsten Lauritzen, viðtalið var birt á vefnum 12. desember 2024, sama dag og dómur í fjársvikamálinu féll.

Skattamálaráðherra Karsten Lauritzen fékk sjokk þegar hann heyrði fyrst af málinu. Ekki tók betra við þegar hann kom í ráðuneytið og áttaði sig á umfanginu.

Voru 12,7 en ekki 6,2 milljarðar

Hafi Karsten Lauritzen fengið sjokk, eins og hann lýsti sjálfur, þegar hann fékk fyrstu fréttir af svikamálinu, tók ekki betra við þegar hann og ráðuneytisstjórinn komu í skattaráðuneytið að kvöldi mánudagsins 24. ágúst 2015, eftir langan fund í Marienborg. Þar tilkynntu sérfræðingar ráðuneytisins þeim að svikamálið væri langtum stærra en þeir 6,2 milljarðar sem fyrst voru nefndir. Upphæðin væri líklega 12,7 milljarðar danskra króna, eða 248 milljarðar íslenskar.

Miðvikudaginn 26. ágúst hélt Karsten Lauritzen skattamálaráðherra fréttamannafund. Þegar hann greindi frá málinu og upphæðinni, 12,7 milljörðum, trúðu fréttamenn vart sínum eigin eyrum og báðu ráðherrann um að endurtaka upphæðina. Síðar kom í ljós að danska skattstofan, SKAT, hafði fengið vitneskju um „endurgreiðslumálið“ tveimur mánuðum áður en gripið var til aðgerða, á þessum tveimur mánuðum streymdu meira en 2 milljarðar danskra króna úr danska ríkiskassanum til Sanjay Shah og annarra sem sóttu um endurgreiðslur.   

Ólöglegar endurgreiðslur

Á fréttamannafundinum sagði ráðherrann að grunur léki á að um væri að ræða ólöglegar endurgreiðslur. „Jahá, hvernig ólöglegar?“ spurðu fréttamenn og vildu fá að vita meira. Og það fengu þeir og óhætt er að segja að vinnubrögð skattsins kringum endurgreiðslurnar hafi komið á óvart. Í mjög stuttu og einfölduðu máli geta hluthafar í dönsku fyrirtæki sem gengur vel fengið greiddan arð, sem þá er skattlagður í Danmörku. Sé hluthafinn búsettur utan Danmerkur, í landi sem Danmörk hefur sérstakt samkomulag við, getur hann óskað eftir að fá danska skattinn áðurnefnda endurgreiddan og borgað skatt af arðinum í búsetulandinu, þar sem skatturinn er iðulega lægri. Endurgreiðsluumsækjandi sendir umsókn til dönsku skattstofunnar, SKAT, og viðkomandi fær skattinn greiddan. Virðist einfalt.

Einn hængur á

Í ljós kom að eftirlitsdeildin með endurgreiðslunum var einn maður, sem í dönskum miðlum var kallaður „maðurinn með gúmmístimpilinn“. Sá átti að kanna hvort umsækjandi ætti hlutabréf í dönsku fyrirtæki og ef allt virtist í „orden“ staðfesti hann umsóknina með stimpli, og svo sá gjaldkeradeildin um að borga. Það var bara einn hængur á, milljarðarnir 12,7 höfðu aldrei verið greiddir í skatt til danska ríkisins. Endurgreiðslubeiðnirnar höfðu einfaldlegar runnið í gegnum kerfið, án þess að kannað væri hvort viðkomandi umsækjandi ætti rétt á þeim.

„Stor skandale,“ sögðu danskir fjölmiðlar og það var ekki orðum aukið.

Einn maður fékk um níu milljarða

Í máli Karsten Lauritzen á fréttamannafundinum 26. ágúst 2015 kom fram að einn maður hefði fengið stærstan hluta milljarðanna 12,7, um það bil níu milljarða. Sá reyndist vera breskur ríkisborgari, Sanjay Shah. Nafn hans er nú á hvers manns vörum í Danmörku, þótt fæstir hafi kannast við hann áður en endurgreiðslumálið kom upp.  

Í pistli sem birtist í Heimildinni 17. mars síðstliðinn undir heitinu „Úr 600 fermetra lúxusvillu í sjö fermetra fangaklefa“ var fjallað um Sanjay Shah, æsku hans, uppvöxt og „atvinnu“.

Handtaka og framsal

Í lok maí árið 2022 var Sanjay Shah handtekinn í Dubai. Eftir samingaþóf var hann framseldur til Danmerkur í desember á síðasta ári (2023). Réttarhöld í máli hans hófust í maí 2024 og eins og nefnt var í upphafi þessa pistils féll dómur í máli hans 12. desember síðastliðinn. Ákæruvaldið hafði farið fram á tólf ára fangelsi, sem er hámarksrefsing fyrir brot af þessu tagi. Í Bæjarréttinum í Glostrup (lægsta dómstig af þremur) var Sanjay Shah dæmdur í tólf ára fangelsi og lífstíðar brottvísun úr Danmörku að afplánun lokinni. Sanjay Shah áfrýjaði dómnum samstundis til Landsréttar. Hann fór fram á að verða látinn laus gegn tryggingu, á það féllst dómari ekki og því verður Sanjay Shah áfram í gæsluvarðhaldi. Ekki er á þessari stundu vitað hvenær dæmt verður í máli hans í Landsrétti. Ýmsir samstarfsmenn Sanjay Shah hafa þegar verið dæmdir til refsingar, þá þyngstu hlaut Bretinn Anthony Mark Petterson. Hann var í byrjun mars á þessu ári dæmdur í átta ára fangelsi og verulegir fjármunir í hans eigu gerðir upptækir. Af milljörðunum 12,7 sem runnu með ólöglegum hætti úr danska ríkiskassanum hefur tekist að endurheimta um fjórðung, en dönsk skattayfirvöld vonast til að ná milljörðum til viðbótar til baka.

Hvernig gat þetta gerst?

Eins og geta má nærri varð uppi fótur og fit þegar fréttirnar um endurgreiðslurnar komust í danska fjölmiðla í lok ágúst 2015. Allir voru sammála um að með ólíkindum væri að milljarðar gætu nánast eftirlitslaust streymt úr ríkiskassanum. Danskir fjölmiðlar fjölluðu um málið dögum og vikum saman og þar kom ýmislegt í ljós. Meðal annars að margir starfsmenn höfðu margsinnis vakið athygli yfirmanna sinna á miklum brotalömum í starfsemi og eftirliti skattsins, þar á meðal vegna endurgreiðslna. Stjórnmálamenn og yfirmenn skattsins bentu hver á annan. Ein ástæða sem oft var nefnd fyrir óreiðunni hjá skattinum var að árum saman var skorið niður í mannafla og árið 2015 voru starfsmenn samtals um sex þúsund en voru nokkrum árum fyrr um tíu þúsund. Ekkert var hlustað á ábendingar og kvartanir starfsmanna, „árlegar uppsagnir keyrðu nánast á sjálfstýringu,“ sögðu starfsmenn.

Seint og um síðir virtust stjórnvöld ranka við sér og á undanförnum árum hefur starfsemi skattsins gengið í gegnum mikla endurskoðun og starfsfólki fjölgað.

Rétt er hér í lokin að geta þess að endurgreiðslusvindlið var ekki bundið við Danmörku. Árið 2018 greindu fjölmiðlar í mörgum Evrópulöndum frá því að svindlarar hefðu með sömu aðferðum og notaðar voru gegn danska skattinum krækt í jafngildi 410 milljarða danskra króna (átta þúsund milljarðar íslenskir) frá fimm löndum. Mest frá Þýskalandi en einnig frá Frakklandi, Ítalíu og Belgíu auk Danmerkur. Hugsanlega næði svindlið til fleiri landa.    

Kjósa
35
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Hlynur Jörundsson skrifaði
    Skattaeftirlit er ekki lengur til a íslandi. Svo einfalt er það. Þökk sé stjórnmálamönnum. Og líkt og annars staðar er það embætti fjárhagslega skorið niður eins og önnur eftirlit. Stóru málin kosta pening og mannskap og eru þessvegna sett til hliðar. í stað þess að staðsetja einn starfsmann sérstakann hjá skattinum svo tvívinnsla ætti sér ekki stað þá lögðu þeir niður skattrannsóknarstjóraembættið. Og það er ekki starfsmönnum þar að kenna. Þegar Mellon banki krafði den norske bank um upprunarvottorð þá rak DNB Samherja úr viðskiftum og fékk sekt. Þegar Seðlabankinn þvoði þúsund milljarða snjóhengju var ekkert upprunarvottorð krafist og skatturinn fékk ekkert að vita. Og af hverju olli milljarða innspýting fjármagns ekki verðbólgu en launahækkun er sögð gera það ? Jú út af því að fjármagn í umferð eykst ef launamaður notar klinkið sem kerfið skilur eftir en þegar launagreiðandinn notar fulla upphæð þá eykst ekki fjármagn í umferð ???? Í alvöru ???? En þetta eru rök Seðló.
    5
  • SS
    Sveinn Sveinbjörnsson skrifaði
    Ég tel nú að ekki veitti af að styrkja skattaeftirlitið hér líka.
    6
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Árið í myndum: Jarðhræringar á Reykjanesskaga
6
FréttirUppgjör ársins 2024

Ár­ið í mynd­um: Jarð­hrær­ing­ar á Reykja­nesskaga

Elds­um­brot á Reykja­nesskaga voru án efa eitt stærsta frétta­mál árs­ins. Áskor­an­irn­ar sem nátt­úru­ham­far­irn­ar færðu Ís­lend­ing­um í hend­ur voru marg­ar og erf­ið­ar. Ná­kvæmt mat á um­fangi þess­ara at­burða bíð­ur seinni tíma og mörg stór og flók­in verk­efni standa frammi fyr­ir íbú­um og stjórn­völd­um á nýju ári enda þessu skeiði í jarð­sögu lands­ins ekki lok­ið.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Við erum ekkert „trailer trash“
1
VettvangurHjólhýsabyggðin

Við er­um ekk­ert „trailer trash“

Lilja Kar­en varð ólétt eft­ir gla­sa­frjóvg­un þeg­ar hún bjó á tjald­svæð­inu í Laug­ar­daln­um og á dög­un­um fagn­aði dótt­ir henn­ar árs af­mæli. Af­mæl­is­veisl­an var hald­in í hjól­hýsi litlu fjöl­skyld­unn­ar á Sæv­ar­höfða, þar sem þær mæðg­ur búa ásamt hinni mömm­unni, Frið­meyju Helgu. „Okk­ar til­finn­ing er að það hafi ver­ið leit­að að ljót­asta staðn­um fyr­ir okk­ur,“ seg­ir Frið­mey, og á þar við svæð­ið sem Reykja­vík­ur­borg fann fyr­ir hjól­hýsa­byggð­ina.
Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
2
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
„Þetta er eins og að búa í einbýlishúsi“
4
VettvangurHjólhýsabyggðin

„Þetta er eins og að búa í ein­býl­is­húsi“

Berg­þóra Páls­dótt­ir, Bebba, hef­ur un­un af því að fá gesti til sín í hjól­hýs­ið og finnst þetta svo­lít­ið eins og að búa í ein­býl­is­húsi. Barna­börn­in koma líka í heim­sókn en þau geta ekki far­ið út að leika sér í hjól­hýsa­byggð­inni í Sæv­ar­höfð­an­um: „Þau skilja ekki af hverju við vor­um rek­in úr Laug­ar­daln­um og sett á þenn­an ógeðs­lega stað.“
Tilnefnd sem framúrskarandi ungur Íslendingur en verður send úr landi
5
Fréttir

Til­nefnd sem framúrsk­ar­andi ung­ur Ís­lend­ing­ur en verð­ur send úr landi

Til stend­ur að hin sýr­lenska Rima Charaf Eddine Nasr verði send úr landi. Hún var á dög­un­um ein af tíu sem til­nefnd voru til verð­laun­anna Framúrsk­ar­andi ung­ur Ís­lend­ing­ur í ár. Til­nefn­ing­una fékk hún fyr­ir sjálf­boða­liða­störf sem hún hef­ur unn­ið með börn­um. Hér á hún for­eldra og systkini en ein­ung­is á að vísa Rimu og syst­ur henn­ar úr landi.
Innsæi Karenar öskraði: „Það er eitthvað að“
6
ViðtalMóðursýkiskastið

Inn­sæi Kar­en­ar öskr­aði: „Það er eitt­hvað að“

Þeg­ar Kar­en Ösp Frið­riks­dótt­ir lá sár­kval­in á kvenna­deild Land­spít­ala ár­ið 2019 var hún sök­uð um verkjalyfjafíkn. Hún hafði þá ver­ið verkj­uð síð­an hún var níu ára. Geð­lækn­ir leiddi að því lík­um að verk­ir henn­ar tengd­ust gervióléttu. Tveim­ur ár­um síð­ar fékk hún loks stað­fest­ingu á því að hún væri með lík­am­leg­an sjúk­dóm. Hún von­ar að heil­brigðis­kerf­ið og sam­fé­lag­ið læri af henn­ar sögu.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár