Sigur Miðflokksins í Krakkakosningum grunnskólabarna sem haldnar voru í aðdraganda nýafstaðinna kosninga til Alþingis hefur vakið umtal. Stjórnmálafræðingur segir niðurstöðuna merkingarlausa. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, kveður hana vísbendingu um að framtíð flokksins sé björt.
Í bók sinni „Age of the strongman“ – Öld einvaldsins – fjallar breski blaðamaðurinn Gideon Rachman um uppgang þjóðernissinnaðra popúlista á borð við Pútín, Erdogan, Orbán og Trump. Hann segir slíka menn – menn með persónuleika-költ, sem hallir eru undir alræði, gera út á útlendingaandúð, sá tortryggni í garð fjölmiðla og boða íhaldssöm samfélagsgildi – vera „alvarlegustu atlögu að frjálslyndum lýðræðisgildum sem sést hefur síðan á fjórða áratug síðustu aldar.“
Árið 2019 sýndi rannsókn að tveir þriðju hlutar ungs fólks í Bretlandi væru hlynntir því að sterkur leiðtogi færi gegn vilja lýðræðislega kjörins þings. Fjórðungur taldi lýðræði vera af hinu illa. Sama hlutfall sagði að það myndi heldur styðja herstjórn en stjórnmálafólk.
Ósagt skal látið hvort íslensk grunnskólabörn séu undir áhrifum alþjóðlegs uppgangs hins sterka leiðtoga sem Rachman skrifar um. Eitt er þó næsta víst: Sjái unga kynslóðin í hillingum einsýni einvaldsins höfum við sem eldri erum brugðist einni lykilskyldu okkar sem uppalendur.
Blóði drifnar hengingarólar
Um síðustu helgi steyptu sýrlenskir uppreisnarmenn forseta landsins af stóli. Ekki leið á löngu uns hrottaskapur tuttugu og fjögurra ára valdatíðar Bashar al-Assad blasti við.
„Út úr einum klefanum kjagaði smábarn, öðrum 63 ára rithöfundur sem stóð til að taka af lífi daginn eftir
Talið er að fleiri en 100.000 manns hafi horfið sporlaust í Sýrlandi fyrir tilstilli stjórnvalda frá árinu 2011. Í kjölfar fregna af falli Assad flykktist almenningur að hinu illræmda Saydnaya-fangelsi í útjaðri Damaskus í von um að finna þar týnda ástvini. Símamyndavélar fönguðu hryllinginn sem leyndist bak við luktar dyr „sláturhússins“ eins og fangelsið var kallað; pyntingartæki, blóði drifnar hengingarólar, fangar sem höfðu ekki séð dagsljós árum saman. Út úr einum klefanum kjagaði smábarn, öðrum 63 ára rithöfundur sem stóð til að taka af lífi daginn eftir.
Þrátt fyrir gífurlegan fjölda fanga sem streymdi út úr fangelsinu höfðu vonir staðið til að þeir yrðu fleiri. Þau sem ekki fundu ættingja sína og vini rótuðu í skjölum fangelsisins, sem lágu eins og hráviði um öll gólf, í von um að finna vísbendingar um afdrif þeirra. Hvað hafði orðið um allt fólkið sem hvarf? „Tekin af lífi,“ hvísluðu raddir þeirra sem stigu út í dagsljósið.
Í Sýrlandi blasa nú við starfshættir einræðisherra. Það ætti þó ekki að þurfa svo hrottalegan samtímaatburð til að minna okkur á að einræðisherrar eru ekkert til að falast eftir.
Vegurinn að betri veröld
Í lok seinni heimsstyrjaldarinnar, þegar hermenn bandamanna héldu innreið sína inn á þýsk yfirráðasvæði, blasti við þeim fordæmalaus hryllingur útrýmingarbúðanna. Kvikmyndadeild breska hersins var með í för þegar fangar búðanna í Bergen-Belsen voru frelsaðir 15. apríl 1945. Myndavélarnar fönguðu óhugnaðinn; 60.000 fangar, 13.000 lík sem lágu eins og hráviði um búðirnar.
Þjóðverjar höfðu þó gert heiðarlega tilraun til að eyða heimildum um voðaverk sín. Undir lok stríðsins förguðu þeir skjölum og kepptust við að ferja fanga úr Auschwitz í Póllandi til fangabúða í Þýskalandi í flutningum sem hlutu heitið dauðagöngur því aðeins lítill hluti fanganna lifði þá af. Spori um svo umfangsmikil illvirki reyndist þó erfitt að eyða.
Í vikunni biðlaði Volker Turk, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, til uppreisnarmanna í Sýrlandi að varðveita vel sönnunargögn um voðaverk stjórnar Assad. Stríðsglæparannsakendur alþjóðasamtakanna hvöttu jafnframt þau öfl sem nú taka yfir stjórn landsins að láta ekki „óhæfuverkin“ endurtaka sig.
„Lest we forget“ – við megum aldrei gleyma – eru einkunnarorð sem höfð hafa verið um hin ýmsu voðaverk í mannkynssögunni í þeirri von að sagan endurtaki sig ekki.
En hvað hefur það upp á sig að varðveita söguna ef við vanrækjum það svo sárlega að miðla henni áfram að ungt fólk stendur í þeirri trú að alræði sé vegurinn að betri veröld?
Þjóðarleiðtogar eru oft miklir egóistar og eru í stöðugri keppni um að vera fremstir. það er þessi keppni um að vera fremstir sem veldur brjálsemi þeirra - það kemst ekkert annað að. Sumir þeirra vita ekki afhverju þeir vilja vera þjóðarleiðtogar, þeir vita það eitt að þeir vilja vera fremstir.
Þjóðarleiðtogar eiga það til að fangelsa eða ryðja úr vegi stjórnarandstæðingum og þeim sem gætu átt til að gagnrýna þá, dómurum og blaðamönnum og stundum fara þeir í stríð. Ástæðan fyrir þessu gæti verið að þeir eru að verja þá hugmynd um sjálfa sig, um að vera fremstir og til að þessi sjálfsmynd bíði ekki hnekki, gera þeir hvað sem er. Þeir eru í raun hræddir menn að verja hugmyndina um sjálfa sig sem mikilmenni og númer eitt og ryðja þeim úr vegi sem gætu raskað þeirri hugmynd.
Rótin að þessu ástandi gæti verið lífsskoðun eins og sú, að láta engan vaða yfir sig. Í slíku lífsviðhorfi felst átök, jafnvel átakasækni (til að sanna sig) og ákveðin mikilmennskukennd, því ef enginn getur vaðið yfir viðkomandi þá hlýtur hann að vera númer eitt?
Mótefnið við þessu kann að vera "jafnaðarmennska", tilfinningaleg meðvitund, kærleikur, átakafælni og muna að fæstir eru fullkomnir.