Þegar þetta er skrifað snemma á sunnudagsmorgni 8. desember verður ekki betur séð en Bashar al-Assad forseti Sýrlands frá 2000 sé flúinn frá Damaskus og stjórn hans hrunin.
Það er í sjálfu sér fagnaðarefni því Assad var ótrúlega grimmur einræðisherra og ber alla ábyrgð á því að borgarastríð braust út í Sýrlandi 2011 með skelfilegum afleiðingum fyrir sýrlensku þjóðina, auk þess sem stríðið hafði víðtækar afleiðingar víðar um veröld og allar slæmar.
Að sönnu er þó í bili alveg óvíst hvort valdaskiptin nú muni hafa í för með sér til skamms tíma friðsamlegra eða betra líf fyrir sýrlensku þjóðina.
Að því vík ég síðar en full ástæða er fyrst til að rifja upp sögu Sýrlands af þessu tilefni til að átta sig á hvað liggur að baki því sem nú er að gerast.
Ein elsta borg í heimi
Það er kunnara en frá þurfi að segja að á svæðinu sem við köllum nú Sýrland reis mjög snemma það sem við köllum menning. Damaskus er ein þeirra borga í sögunni þar sem hefur verið lengst samfelld búseta. Þar var komin skipuleg byggð með fullkomnu áveitukerfi í sveitunum í kring fyrir meira en 5.000 árum.
Frjósemi landsins var þá mun meiri en nú og íbúar lifðu þar yfirleitt góðu lífi. Þegar öflug ríki tóku að myndast í Miðausturlöndum varð það þó hlutskipti Sýrlands að verða leiksoppur stórvelda, fremur en að þar risi sjálfstætt stórveldi.
Eitt þeirra stórvelda var Assyría og oft er sett samasemmerki milli Assyríumanna hinna fornu og Sýrlendinga. En það er þó ekki fyllilega rétt. Assyríumenn komust á legg í efri byggðum Mesópótamíu (Íraks) og eru kenndir við borgina Assúr við Tígris-fljótið. Öflugasta stórveldi þeirra stóð um það bil frá 900-600 FT (fyrir upphaf tímatals okkar) og þá réðu Assyríumenn meðal annars svæðinu sem við köllum Sýrland.
Voru Sýrlendingar Assyríumenn?
Það voru þá grískir kaupmenn sem tóku að kalla íbúana Sýrlendinga vegna þess að þeir lutu stjórn Assyríumanna, en ekki vegna þess að þeir væru í sjálfu sér allir Assyríumenn.
Þá þegar höfðu margar öflugar þjóðir ráðið Sýrlandi um lengri eða skemmri tíma — Húrríar, Hittítar, Egiftar og Babýloníumenn — og eftir að Assyríumenn voru að velli lagðir komu Persar, Makedóníumenn (Selefkídar), Parþar og loks Rómverjar á miðri fyrstu öld FT.
Rómverjar réðu Sýrlandi í tæp 700 ár, síðustu aldirnar reyndar í líki hinna grískumælandi Býsansmanna. Á þeim tíma festi kristindómur djúpar rætur í Sýrlandi.
Kristindómur, svo íslam
Antíokkía varð ein af fjölmennustu og auðugustu borgum heims. Stærstur hluti yfirstéttarinnar talaði þá grísku en alþýðan sína útgáfu af hinni semitísku tungu arameísku sem var þá útbreiddasta mál Miðausturlanda.
Laust fyrir miðja sjöundu öld ET breyttist allt.
Arabískir þjóðflokkar höfðu búið í meira en þúsund ár fyrir sunnan Sýrland og Mesópótamíu og allt suður á Arabíuskaga. Þeir sáu sér leik á borði þegar Býsansríkið og Persía (Sassanídaríkið) höfðu gengið fram af sér með áratuga löngu stríði, ekki síst um Sýrland.
Arabarnir lögðu nú á skömmum tíma undir sig öll Miðausturlönd og gríðarstór flæmi í Norður-Afríku, Persíu og Mið-Asíu.
Ný trúarbrögð Arabanna, íslam, áttu ólítinn þátt í að fylla þá þeim eldmóði sem dugði til að knésetja nánast í einu vetfangi hin fornu stórveldi heimshlutans.
Damaskus höfuðborg heimsveldis
Og nú varð hin forna menningarborg Damaskus í fyrsta sinn höfuðborg stórveldis. Árið 661 varð herforinginn معاوية بن أبي سفيان eða Múavía hæstráðandi hins nýja arabíska ríkis, kallaður kalífi eða „arftaki“ spámannsins Múhameðs, trúarlegs og andlegs leiðtoga hinnar arabísku útrásar. Ætt Múavía réði svo ríkinu frá Damaskus í 90 ár og kallast kalífar hennar Umajjadar.
Á valdatíma Umajjada treystu Arabar sig í sessi á öllu því flæmi sem þeir höfðu lagt undir sig. Víðast í ríkinu leysti íslam kristindóminn nær alveg af hólmi og arabíska kom smátt og smátt í stað arameísku. Þau tungumál voru og eru enda harla skyld.
Árið 750 ruddi ný valdaætt, Abbasídar, Umajjödum úr sessi og flutti höfuðborg ríkisins til Bagdad í Mesópótamíu. Um leið dró úr mikilvægi Damaskus. Arabíska stórríkið fór svo að klofna æ meir næstu aldirnar. Stundum höfðu ýmsir pótintátar aðsetur í Damaskus en sjaldnast voru þeir miklir menn fyrir sér.
Kóngar Þýskalands og Frakklands setjast um Damaskus
Á krossfaratímanum komst Damaskus aftur í sviðsljósið sem þungamiðja andstöðu gegn hinum kristnu innrásarmönnum og 1148 settust hersveitir Loðvíks 7. Frakkakóngs og Konráðs 3. Þýskalandskonungs um borgina. Með því að leggja hana undir hugðust krossfarakóngarnir tveir gera borgina að þungamiðju í öflugu kristnu ríki í Miðausturlöndum.
Þeir fóru hins vegar hrakfarir og Damaskus var aldrei síðan í hættu á krossfaratímum.
Hinn mikli soldán Saladín braut krossfarana rækilega á bak aftur í næstu krossferð þeirra og hefur æ síðan verið dáður og elskaður í Damaskus.
Meira að segja þótt hann hafi í rauninni verið Kúrdi en millum Kúrda og Sýrlendinga er lítill vinskapur, vægast sagt.
Í byrjun 16. aldar var Damaskus og raunar Sýrland mestallt undir stjórn hinna svonefndu Mamlúka í Egiftalandi.
Ný þjóð frá Mið-Asíu hafði þá undanfarnar aldir verið að dunda við að leggja undir sig hið gamla Býsansríki og síðan undiroka stóra hluta Balkanskaga.
Það voru Tyrkir sem náðu Konstantínópel (nú Istanbúl) höfuðborg Býsansríkins 1453.
Tyrkir ná Damaskus!
En næst sneru Tyrkir sér undir forystu Selíms 2. soldáns að ríki Mamlúka og öðrum arabískum ríkjum í Miðausturlöndum. Á árunum 1516-17 lögðu Tyrkir Mamlúkaríkið undir sig, heldur léttilega, og þar á meðal Sýrland.
Damaskus varð miðpunkturinn í stjórnsýslu Tyrkja á svæðinu. Margvíslegra umbóta var þörf enda hafði Mamlúkaríkið verið orðið staðnað og fúið undir lokin, og um skeið var líf og fjör í Damaskus á ný. Hinir arabísku íbúar voru þó ekki allir himinsælir með yfirráð Tyrkja og með tímanum kom æ oftar til mótþróa og jafnvel uppreisna gegn Tyrkjum.
Færðist andstaðan í aukana jafnóðum og drungi og stöðnun tók mjög að færast yfir Tyrkjaveldi sjálft er líða fór á 19. öld.
Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út 1914 gerðu Tyrkir þau mistök að ganga í lið með Þjóðverjum og fengu þar með heimsveldi Breta og Frakka upp á móti sér. Bæði stórveldin hófust nú handa um að grafa undan stjórn Tyrkja í Miðausturlöndum.
Grunur um olíu
Tvennt kom þar til, og þó þrennt.
Í fyrsta lagi tiltölulega skiljanleg löngun stórveldis í stríði til þess að yfirbuga öflugan andstæðing.
En í öðru lagi voru Evrópustórveldin farin að líta Miðausturlönd mjög hýru auga vegna þess að menn grunaði, og með réttu, að þar myndu líklega leynast í jörðu miklar olíulindir.
Einmitt um þær mundir var ljóst orðið að olían yrði sjálft lífsblóð framfara og framkvæmda á 20. öldinni.
Og svo í þriðja lagi var evrópsku stórveldunum þá einfaldlega orðið eiginlegt að vilja sölsa undir sig lönd og nýlendur hvar sem því varð viðkomið.
Bæði Bretar og Frakkar ýttu markvisst undir þjóðernistilfinningar Araba og andstöðu þeirra gegn Tyrkjum. Þeir gáfu til kynna að ef Arabar í Sýrlandi, Palestínu, Mesópótamíu og á Arabíuskaga legðu þeim lið myndu þeir síðan hjálpa Arabaþjóðunum (sem nú voru farnar að skilgreina sig svo) til sjálfstæðis og framsóknar.
Og nærri hvarvetna risu Arabar upp og tóku fullan þátt í að sigra Tyrki, sem að lokum urðu að gefast upp, beygðir og sveigðir og niðurlægðir.
Þannig að fjandskapur milli Tyrkja og ýmissa Arabaþjóða, ekki síst Sýrlendinga, er ekki beint nýr af nálinni, þótt bæði Tyrkir og Sýrlendingar séu vissulega múslimar og haldi þann hóp yfirleitt á yfirborðinu.
Öll loforð svikin
Þegar heimsstyrjöldinni lauk sviku Bretar og Frakkar svo öll loforð sem þeir höfðu gefið íbúum á svæðinu. Flest lönd á svæðinu voru gerð „verndarsvæði“ evrópsku stórveldanna en það var nýtt og snoturt orð yfir nýlendur.
Og er íbúar dirfðust að malda í móinn voru þeir einfaldlega barðir til hlýðni.
Fyrir fjórum árum skrifaði ég í Stundina flækjusögugrein þar sem því var lýst hvað næst gerðist. Frakkar hirtu Sýrland og virtust nú líta á sig sem beina arftaka krossfarans Loðvíks 7. sem hafði mistekist að leggja Damaskus undir sig 1148.
Hér er greinin: „Vaknaðu Saladín, við erum komnir!“
Seinna víkur að því hvað gerðist næst.
Um menntun barnanna á Gaza
Ég sendi hér þýðingu á bréfi frá Reham Khaled um átak í málefnum barna og kennslu þeirra. Hún er fyrrum barnskólakennari á Gaza. Nú er búið að eyðleggja skólann ásamt öllum öðrum innviðum á Gaza. (Meðal annarra orða, hvers vegna er ekki búið að koma á viðskiptabanni og slíta stjórnmálasambandi við hryðjuverkaríkið Ísrael? Það ættu öll ríki, sem láta sér annt um mannréttindi, að gera.) Reham hefur ásamt fjórum öðrum myndað hóp sem ætlar sér að reyna að koma á einhvers konar barnakennslu. Hún biður um hjálp ykkar í eftirfarandi bréfi og ég sendi með söfnunarslóð þessa hugrakka og þolgóða unga fólks. Hér kemur þýðing mín á bréfinu.
Komið þið sæl, mín kæru.
Ég skrifa ykkur í dag frá stríðshrjáðu landi þar sem draumar hafa orðið að engu
og lífið hefur tekið varanlegum stakkaskiptun. Ég heiti Reham Kaled og er 27 ára gömul kona frá Gazaborg. Við erum 6 manna fjölskylda. Ég skrifa þetta í þeirri von að bjarga fjölskyldu minni frá meiri grimmdarverkum en hægt er að ímynda sér sem skekið hafa Gazasvæðið síðan í október 2023. Ég menntaði mig í Kennaraháskólanum og var grunnskólakennari þegar allt breyttist. Hernámsliðið hefur eyðilagt allt sem okkur er kært. Ég hef misst heimili mitt, atvinnuna og fjölskyldan hefur misst alla sína tekjumöguleika. Sem ég skrifa þetta bý ég í geymsluhúsi með fjölskyldunni eftir að okkur hefur verið gert að flytja 8 sinnum til að reyna að komast í skjól undan sprengjustorminum.
Við sem myndum Ungmennahóp framtíðarinnar (Future Youth Team) erum fimm kennarar. Við skrifum þessa áskorun í þeirri von að geta bjargað börnum á Gaza frá þessu ótrúlega þjóðarmorði sem hefur farið hér fram. Ég vann við að kenna ungum börnum allt þar til stríðið hófst og draumar okkar voru sprengdir í tætlur.
Borgin Gaza er orðin að draugaborg þar sem eru engir háskólar, spítalar, engar moskur eða skólar yfirleitt. Þúsundir barna hafa misst það sem kalla má þeirra grundvallar réttindi: Öryggi, friður, menntun, matur. Ungmennahópurinn hefur ákveðið að hjálpa þessum börnum með því að reyna að sjá þeim fyrir einum af þessum grundvallar þáttum sem er rétturinn til menntunar eftir eyðileggingu skóla á Gaza. Við byrjuðum að vinna að þessu með því að koma á fót kennsluhópi fyrir grunnskólastigið til að reyna að bæta fyrir þann tíma sem börnin okkar hafa misst. Þessir fimm kennarar eru:
Reham, sem hefur sérhæft sig í kennslu ungra grunnskóla- og leikskólabarna.
Sohaib sem kennt hefur arabísku og bókmenntir og var að ljúka meistaraprófi þegar allt breyttist.
Fadia sem er enskukennari fyrir alla aldurshópa.
Múhameð sem hefur kennt samfélags- og stærðfræði.
Nour sem hefur kennt arabísku og bókmenntir fyrir alla aldurshópa.
Mishelle Napolitano sem kennir ensku með hjálp myndbandstækninnar.
Öll hafa þau mikla reynslu á sínu sviði.
Menntunarhópur okkar á erfitt með að finna húsnæði við hæfi til að taka á móti börnunum. Við erum að reyna að verða okkur úti um kennslutjald, hæfilega stórt til að taka nokkra hópa af börnum. Þetta er persónulegt frumkvæði nokkurra kennara frá Gaza ströndinni sem þarfnast hjálpar við að takast á við erfiða daga í þeirri von að hægt verði að láta þennan draum rætast.
Þú getur stutt þetta átak með framlagi. Við stingum upp á 5, 10 eða 50 dollurum eftir getu. Stuðningur ykkar getur hjálpað til við að sjá barni fyrir plássi, barni sem hefur misst alla möguleika á menntun í þessum hörmungum. Með ykkar framlagi getum við komist nær því að útvega hluta barnanna á Gaza sæti á skólabekk sem mun hjálpa þeim að tryggja sér betra líf og betri framtíð. Hjálpið okkur að opna þessar dyr fyrir börnunum okkar.
Þakka þér fyrir að lesa þetta, fyrir samkenndina og fyrir allt það sem þú gerir til þess að bæta heiminn með þessu. Engir eiga frekar skilið þetta augnablik tíma þíns og örlætis heldur en börnin á Gaza. Staðfastur stuðningur þinn og uppörvun minnir okkur á það að mannkynið kemst af jafnvel þegar það stendur frammi fyrir ótrúlega erfiðum vandamálum. Og það er mögulegt vegna fólks sem eins og þín. Allur stuðningur skiptir máli fyrir líf svo margra barna. Takk fyrir að standa með okkur og fyrir hjálp þína við að halda voninni lifandi á Gaza.
https://chuffed.org/project/119838-future-yout
Reham Kahled
(Mig langar að senda ykkur mynd af henni en hún vill ekki vistast hér inn.)