Það þótti táknrænt þegar formaður stærsta flokksins á landinu leitaði til forseta Íslands eftir umboði til að hefja stjórnarmyndunarviðræður, þar sem þær voru þarna tvær konur á Bessastöðum. Það þótti jafnvel enn sætara að sjá síðan þrjár konur taka höndum saman um að mynda hér nýja ríkisstjórn.
„Er eitthvað fallegra að gerast í heiminum?“ spurði rithöfundurinn Hallgrímur Helgason og deildi mynd af Kristrúnu Frostadóttur, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Ingu Sæland hlæja saman. Með orðum sínum fangaði hann tilfinningu fjölmargra sem fagna því að hér séu að verða breytingar á stjórnarfari landsins, þar sem konur eru í lykilhlutverkum.
Á meðan margir fagna því sem sigri jafnréttisbaráttunnar, eru aðrir sem fylgjast uggandi með þróun mála. Af því að eftir alþingiskosningar sem fóru fram um helgina eru þeir flokkar horfnir á brott sem helst stóðu vörð um kvenfrelsi, mannréttindi og umhverfismál. Þess í stað styrktust flokkar sem hafa haft slíkt í flimtingum; viðhaft andfeminísk sjónarmið, viljað harðari útlendingalöggjöf og viðrað efasemdir um loftslagsmál.
Í stað þess að skammast sín
Nú í haust var rætt við aðjunkt í kynjafræði við Háskóla Íslands í Kastljósi. Þar varaði Finnborg Salóme Steinþórsdóttir við bakslagi í jafnréttisbaráttunni. Birtingarmyndir bakslagsins væru ýmsar, en skýrasta merkið væri umræðan um slaufunarmenningu. Með því væri verið að færa umræðuna frá þeim alvarlega vanda að 40 prósent kvenna hér á landi hafa orðið fyrir kynbundnu ofbeldi, þriðjungur orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað og 13 prósent fyrir nauðgun eða tilraun til nauðgunar. Í því samhengi benti Finnborg á að flestir sem hafa orðið fyrir slaufun hafa átt afturkvæmt. „Ég hef litlar áhyggjur af gerendum en aftur á móti hef ég áhyggjur af fólki sem hefur stigið fram og sagt frá kynferðisofbeldi og hefur verið slaufað, bæði í fjölskyldum og nærsamfélögum. Ég hef meiri áhyggjur af því hvað við veitum þessari umræðu mikla athygli í staðinn fyrir að beina sjónum að raunverulegu vandamálunum, sem er kynbundið ofbeldi, kynjuð valdatengsl og þetta misrétti sem hlýst af því.“
Frá því að viðtalið við Finnborgu birtist liðu ekki tvær vikur áður en framboðslistar Miðflokksins birtust. Sex árum eftir að nokkrir þingmenn voru staðnir að grófri kvenfyrirlitningu, fötlunarfordómum og hrossakaupum með opinberar stöður, voru þeir allir komnir í framboð fyrir Miðflokkinn. „Í staðinn fyrir að skammast sín bjóða þeir sig kokhraustir fram eins og ekkert sé,“ skrifaði Helga Kress, sem augljóslega blöskraði.
Þjóðin valdi. Kaus þrjá þeirra á þing: Bergþór Ólason, Karl Gauta Hjaltason og Sigmund Davíð Gunnlaugsson – sem leiddi Miðflokkinn í gegnum kosningar þar sem þingmönnum flokksins fjölgaði úr tveimur í átta.
Lilja Alfreðsdóttir, sú stjórnmálakona sem varð harðast fyrir barðinu á þeim, lýsti reynslu sinni á opinberum vettvangi á sínum tíma og sagði að ofbeldismenn færu ekki með dagskrárvaldið á Íslandi, datt hins vegar af þingi.
Í kjölfar MeToo-byltingarinnar kom stutt tímabil þar sem mönnum var gert að axla ábyrgð á því að beita aðra kynbundnu ofbeldi, með því að víkja úr stöðum sínum eða úr opinberri umræðu. Flestir sem sættu slíkri slaufun hafa nú snúið aftur. „Þeir eru ofbeldismenn,“ sagði Lilja um þingmennina, sem viku tímabundið. En á endanum urðu örlög hennar þau sömu og örlög fjölmargra kvenna sem hafa sakað nafngreinda menn um ofbeldi og verða að víkja.
Bakslagið verður varla skýrara.
Enginn femínisti
Á meðal annarra þingmanna sem taka sæti fyrir Miðflokkinn er ungur maður sem kemur nýr inn, Snorri Másson. Hann vakti athygli samfélagsins með umræðum um að konur ættu að hugsa um börnin, heimilin og sjálfar sig. „Allir karlar myndu vilja geta haldið uppi heimili sínu án þess að konan þyrfti að vinna … Það er æðsta takmark,“ en konan: „Hún getur stofnað kaffihús,“ hélt hann áfram. „Karlmaðurinn hefur á endanum peningaáhyggjurnar. Þú veist það er þannig á flestum heimilum,“ sagði Snorri Másson meðal annars í hlaðvarpsþætti sínum, Skoðanabræður. „Það er mjög áhugavert að menn hafi gabbað alla út á vinnumarkað og kallað það svo frelsisbyltingu.“
Hann er ekki femínisti og hefur lýst því yfir: „Ég held að það komi engum á óvart,“ sagði hann í viðtali við Frosta Logason. Aðspurður hvort hann sé karlremba svaraði hann: „Ég er örugglega álitinn karlremba af mörgum. Er það ekki bara klassískt dæmi að vera álitinn karlremba? Þá er maður bara karlremba.“ Snorri tók síðan fram að mörgum væri „keppikefli að hlutur kvenna sé sem mestur“. Það ætti ekki við um hann. „Mér er það ekki sérstakt keppikefli.“
Í fréttabréfi Ritstjórans, miðilsins sem Snorri heldur úti, hafði hann fullyrt að jafnlaunavottun væri gagnslaus, gagnrýnt kynjakvóta og velt því upp hvort „þriðja vaktin“ væri „vel heppnað áróðursbragð markaðsafla, sem vilja sannfæra þig um að stóra vandamálið í lífi þínu sé makinn þinn og hans hegðun frá degi til dags, en ekki bara ömurlegi vinnustaðurinn þinn sem tekur alla orkuna frá þér af því að þú þarft að mæta þangað á hverjum degi frá níu til fimm á meðan börnin þín eru geymd á stofnun,“ skrifaði hann. „Látum ekki útsmoginn sálfræðihernað sá fræjum sundrungar á heimilum landsins.“
Óþarft væri að mótmæla þriðju vaktinni með kvennaverkfalli: „Af hverju ferðu að mótmæla þessu opinberlega? Talaðu bara við lata manninn þinn,“ skrifaði hann meðal annars.
Í viðtali við Frosta sagðist hann hafa verið gagnrýndur fyrir skrifin. „Það er ekkert heimsendir ef einhver allt í einu vaknar sem er ekki það mikill femínisti og vill bara segja: Þetta kvennaverkfall var ekki verkfall heldur eitthvað allt annað.“
Efast um kynbundið misrétti
Líkt og Snorri hefur Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins og nýkjörinn þingmaður Miðflokksins, gagnrýnt forsendur kvennafrídagsins. Árið 2017 sagði hún kynbundinn launamun of lítinn til að hægt væri að fullyrða nokkuð um kynbundið misrétti. Þótt karlar afli almennt meiri tekna þá vinni þeir meira og konur fái fleiri „dýrmætar stundir með börnunum sínum“.
Þegar kvennafrídagurinn fór fram ári síðar skrifaði hún færslu þar sem hún áréttaði skoðun sína. „Þessi kynbundni munur gefur þó ekki tilefni til að álykta nokkuð um kynbundið misrétti,“ skrifaði Sigríður, þáverandi dómsmálaráðherra. Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna væri ánægjulegt að líta til þess árangurs sem hefði náðst í jafnréttisbaráttunni: „Það er mikilvæg forsenda framfara í þeim efnum að umræða sé málefnaleg og fyrirliggjandi gögn ekki mistúlkuð. Að lokum bendi ég á að í nefndri skýrslu velferðarráðuneytis kemur fram að ungar konur hjá hinu opinbera séu með hærri tekjur en karlar á sama aldri. Þær mæta væntanlega aðeins fyrr til vinnu í fyrramálið!“
Færslunni var svarað af þingmanninum sem lagði fram frumvarp um jafnlaunavottun, Þorsteini Víglundssyni, fyrrverandi félagsmálaráðherra. Sagði hann Sigríði hætta sér á hálan ís. Þótt líta verði til margra þátta í umræðum um kynbundinn launamun þurfi að hafa í huga að margir séu þeir fjarri því að vera málefnalegir eða til marks um jafnrétti á vinnumarkaði. Konur væru til að mynda um fimmtungur stjórnenda á vinnumarkaði, ekki vegna lakari menntunar eða skorts á metnaði, heldur vegna þess að þær búi við lakari framgang í starfi en karlar. Þá hafi það almennt jákvæð áhrif á laun karla að vera í sambúð eða kvæntir og að eiga börn, en lítil sem engin og jafnvel neikvæð áhrif á laun kvenna. Ekki væri heldur tekið tillit til mats fólks á verðmæti starfa, en dæmigerðar kvennastéttir eru að „jafnaði mun verr launaðar stéttir en fjölmennar karlastéttir með sambærilega lengd menntunar og ábyrgð“. Ástæða væri til að velta fyrir sér hvort væri verðmætara fyrir samfélagið að miðla fjármagni eða þekkingu. „Sennilega ættum við fáa vel menntaða starfsmenn í fjármálageiranum án góðra kennara.“
Enginn sómi sýndur
Sigríður, þáverandi þingmaður og síðar ráðherra Sjálfstæðisflokksins, var eini þingmaðurinn sem greiddi atkvæði gegn stofnun Jafnréttissjóðs sem hefur það hlutverk að fjármagna og styrkja verkefni sem stuðla að jafnrétti. „Ég ætla auðvitað ekki að tala fyrir hönd allra kvenna eða nokkurra annarra en bara sjálfrar mín, en það er nú mín skoðun að virðingu kvenna sé enginn sérstakur sómi sýndur með þingsályktunartillögu … sem sendir 500 milljóna króna reikning til skattgreiðenda.“
Með sömu rökum lagðist hún gegn viðbótarframlagi til Samtakanna ‘78. Á samfélagsmiðlum deildi hún frétt um að framlag til samtakanna hefði verið þrefaldað með þessum orðum: „Ástæða verðbólgunnar? Hér er ein: 25 milljóna árlegt framlag + 15 milljóna viðbót + 15 milljóna viðbótarviðbót til félags úti í bæ.“ Færslan vakti hörð viðbrögð en Sigríður sagðist sammála því að Samtökin ‘78 hefðu lagt margt og mikilvægt til, en þetta væri þráður um ríkisfjármál.
Færslan birtist í fyrra. Fjórum árum fyrr mótmæltu Samtökin ‘78 frumvarpi þáverandi dómsmálaráðherrans um þrengingar á ákvæði í hegningarlögum um hatursorðræðu. „Við óttumst að fólk sem þjáist af fordómum og viðhefur eða samþykkir hatursorðræðu muni líta á ofangreint frumvarp sem stuðningsyfirlýsingu frá stjórnvöldum“, sagði í yfirlýsingu frá samtökunum.
Styður sjálfsákvörðunarrétt kvenna en …
Þegar Ásmundur Einar Daðason lagði fram frumvarp um fæðingar- og foreldraorlof á Alþingi árið 2021 steig hún í pontu og sagði að tilvísanir í jafnréttissjónarmið í umræðum um frumvarpið „gamlar lummur“ sem lýstu „ákveðnu þroti í jafnréttisumræðunni“. „Eftir tveggja áratuga reynslu af þessum málum eru menn enn þá að vísa í þetta. Hvernig væri nú að prófa að fara aðrar leiðir?“
Aðrir þingmenn brugðust við. Formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín, sagðist sjá blikur á lofti um mikla gjá á milli flokka á þingi þegar kæmi að jafnréttismálum. Og vísaði því á bug að hægt væri að nálgast umræðuna út frá hugmyndum um frelsi. „Það er tómt mál að tala um frelsi, þegar jafnrétti er ekki til staðar,“ sagði hún.
Fleiri tóku til máls. Þeirra á meðal var Lilja Alfreðsdóttir, sem sagðist „hafna því algjörlega“ að „jafnréttismál væru gamlar lummur“. Hvorki Lilja né Ásmundur náðu kjöri, en Sigríður sneri aftur á þing eftir helgina.
Hún var önnur tveggja kvenna sem greiddu atkvæði gegn frumvarpi um rétt kvenna til þungunarrofs. Í skýringu á afstöðu sinni sagðist hún styðja sjálfsákvörðunarrétt kvenna en það ætti ekki við í þessu tilviki. Eins væri nauðsynlegt að umræða um mögulegan rétt fósturs færi fram á heimspekilegum og siðfræðilegum forsendum. „Þess vegna sé ég mér ekki fært að styðja þetta mál.“
Sveið í hjartanu
Hin konan sem greiddi atkvæði gegn frumvarpi um rétt kvenna til þungunarrofs var Inga Sæland. Í ræðustól Alþingis sagðist henni líða illa í umræðum um frumvarpið. Rökin sem væru færð til grundvallar frumvarpinu væru „svo ömurlega innantóm“. „Það er gert svo lítið úr okkur konum með því að reyna að halda því fram í fyrsta lagi að við njótum ekki sjálfsákvörðunarréttar yfir eigin líkama,“ sagði hún. „Þegar verið er að tala um sjálfsákvörðunarrétt okkar, hver er lífsréttur barnsins?“ spurði hún og hélt áfram: „Hvernig getur ófætt 22. vikna gamalt barn í móðurkviði varið sig?“
Í raun væri engin ástæða til að ræða þetta, að hennar mati, sem þurfti að fá sér vatnssopa til að klára ræðuna. „Ég stend hér og er stolt af því að tala fyrir munn ófæddra barna sem eru gengin 22 vikur. Ég var að horfa á mynd af einu slíku rétt áðan. Ég var meira að segja búin að prenta hana út risastóra og var að hugsa um að setja hana hérna upp.“
Ljótt væri að halda því fram að þeir sem andmæltu frumvarpinu væru á móti sjálfsákvörðunarrétti kvenna eða fóstureyðingum, „þó að mann svíði í hjartanu þegar hefur skapast líf, að skuli koma upp þær erfiðu aðstæður að þurfi að eyða því“.
Ekki svo einföld
Inga lét ekki þar við sitja heldur sendi fjölmiðlum mynd af stúlku sem fæddist á 23. viku meðgöngu. „Vegna fóstureyðingarfrumvarpsins sem nú bíður atkvæðagreiðslu Alþingis, sendi ég ykkur þessar myndir með vitund og vilja foreldra þessar litlu stúlku.“
Til að verjast frumvarpinu tóku þingmenn Flokks fólksins og Miðflokksins höndum saman með breytingartillögu þess efnis að heimild til þungunarrofs miði aðeins við tólf vikur, „nema fyrir hendi séu ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar sé stefnt í meiri hættu með lengri meðgöngu“. „Rökstuðningur sem fylgir því að það komi engum við nema konunni sjálfri hvort ófullburða barni hennar sé eytt úr móðurkviði eftir 12 vikna meðgöngu einkennist af öfgafemínisma,“ útskýrði Inga í pistli sem birtist í Morgunblaðinu. „Á hinni upplýstu 21. öld er ólíðandi að láta að því liggja að konan sé svo einföld að hún viti ekki hvernig börnin verða til. Að hún viti ekki af getnaðarvörnum og hafi ekki áttað sig á því fyrir 12. viku meðgöngu að hún gangi með barn sem hún af einhverjum ástæðum treystir sér ekki til að ala.“
Breytingartillögunni var hafnað af meirihluta Alþingis og frumvarpið náði fram að ganga. Ingu var ansi heitt í hamsi og hélt reiðilestur yfir Alþingi: „Við ætlum að taka ákvörðun um það að 22. vikna gamalt ófullburða barn verði drepið í móðurkviði.“
Treysti frekar konum en þér
Í Pallborðinu á Vísi fyrir kosningar voru fulltrúar hægri flokka beðnir um að taka einfalda afstöðu og svara annaðhvort með já-i eða nei-i, hvernig þeir myndu greiða atkvæði með frumvarpinu ef atkvæðagreiðsla færi fram á Alþingi í dag.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fráfarandi forsætisráðherra, svaraði neitandi. Fréttamaðurinn ítrekaði spurninguna og Bjarni hristi hausinn. „Um hvað ertu eiginlega að spyrja?“ spurði hann hvasst og hækkaði róminn. „Ég er búinn að tjá mig.“
Sigmundur Davíð svaraði einnig neitandi þegar sömu spurningu var beint að honum. Þorgerður Katrín var sú eina sem svaraði játandi. „Ég treysti konum.“ Sigmundur Davíð gekk á hana varðandi tímamörk heimildar til þungunarrofs en hún sagði einfaldlega: „Ég myndi frekar treysta konum en þér fyrir atkvæðapakkanum þegar kemur að réttindum kvenna.“
Valdinu vísað til kjósenda
Í aðdraganda kosninga rifjuðu Píratar málið upp með myndbandi þar sem Þórhildur Sunna Ævarsdóttir spurði ábúðarfull: Skiptir femínismi einhverju máli í þessari kosningabaráttu?
„Já, ég myndi segja að femínismi skipti heilmiklu máli í þessari kosningabaráttu,“ sagði Þórhildur Sunna, „því það gæti gerst í þessum kosningum að það komist hér menn til valda sem vilja taka af þér valdið til að hafa stjórn yfir þínum eigin líkama.“
Valdinu var vísað til kjósenda: „Þú hefur valið og þú getur valið eitthvað annað og betra en þá.“ Og kjósendur völdu. Flokkur fólksins fékk 10 þingmenn og hefur val um að mynda ríkisstjórn með Samfylkingu og Viðreisn, eða Sjálfstæðisflokknum og Miðflokki.
Píratar náðu ekki einum einasta manni á þing, þrátt fyrir áherslu á algild mannréttindi. Það gerðu ekki heldur Vinstri græn, sem sátu áður í ríkisstjórn. Staða þeirra var svo slæm eftir kosningarnar að nú uppfylla þau ekki einu sinni skilyrði fyrir fjárhagsstuðningi ríkisins við stjórnmálaflokka. Þar með er 25 ára sögu flokksins sem hefur öðrum fremur kennt sig við kvenfrelsi lokið.
Flokknum sem stóð að baki frumvarpi um rétt kvenna til þungunarrofs og fleiri jafnréttismál var hafnað.
Jafnréttisstefna í sex liðum
Fyrir kosningarnar lögðu Vinstri græn fram ítarlega stefnu í kvenfrelsis- og jafnréttismálum, í sex liðum og tæpum 2.000 orðum. Flokkurinn var jafnframt með sérstaka stefnu í málefnum fatlaðs fólks, hinsegin fólks, innflytjenda og fólks á flótta, alþjóða- og friðarmál, svo dæmi séu tekin. Sem og ítarlega stefnu um jöfnuð og félagslegt réttlæti, velferðarsamfélagið. Og ýmis málefni tengd náttúru- og umhverfisvernd.
Skilaboð Viðreisnar í jafnréttismálum voru einföld: „Upprætum kynbundið ofbeldi.“ Auk kynbundis ofbeldis var áhersla lögð á jafnrétti á vinnumarkaði, lagaleg réttindi hinsegin fólks, jafnrétti fatlaðs fólks og barnvænt og sveigjanlegt samfélag.
Í stefnuskrá Samfylkingar mátti finna yfirlýsingu um „samfélag þar sem öll eru jöfn fyrir lögum og njóta fullra mannréttinda án mismunar, svo sem vegna fötlunar, kyns, kynhneigðar og kynvitundar, efnahags, uppruna eða stöðu að öðru leyti“. Sérstaklega var fjallað um þolendavænt réttarkerfi, aukinn stuðning fyrir brotaþola og fjölgun úrræða fyrir gerendur, auk sérkafla um stöðu hinsegin fólks.
Ekki eitt einasta orð
Svipaða jafnréttisyfirlýsingu má finna í stefnumálum Sjálfstæðisflokksins: „Öll ættu að búa við jöfn tækifæri óháð kynferði, kynhneigð, uppruna, trú eða öðrum þáttum. Fjölbreytileiki þrífst best í frjálsu samfélagi.“ Þegar kosningaáherslur Sjálfstæðisflokksins eru hins vegar skoðaðar er lítið að finna um jafnréttismál. Áhersla er á öruggt samfélag, en það er sett í samhengi við „trygg landamæri“, sem felst í því að efla lögregluna og vísa fólki á flótta á brott. Í kaflanum „fjölskyldan, hornsteinn samfélagsins“ er fjallað um áskoranir sem fylgja því að stofna fjölskyldu, en Sjálfstæðisflokkurinn vill létta róðurinn með barnafólki, meðal annars með auknu frelsi á fæðingarorlofi.
Miðflokkurinn og Flokkur fólksins eiga það sammerkt að í stefnuskrám þeirra er ekki minnst einu orði á jafnréttismál.
Ég þori
Kona er ekki bara kona og kona er ekkert endilega femínisti, hvað þá sú sem sendir frá sér grein með fyrirsögninni: „Ég neita að pissa standandi“ vegna reglugerðar um innleiðingu kynlausra salerna. „Hávær minnihluti hefur á örskömmum tíma náð að snúa samfélaginu á hvolf með yfirgangi og aðkasti,“ skrifaði Inga Sæland og sagði að nú væri tími til kominn að „stíga niður fæti og segja STOPP! Hingað og ekki lengra!
Ég þori!“
Eitt sinn var þetta slagorð jafnréttisbaráttunnar: „Ég þori, get og vil.“
Fjallað er um stöðu Sjálfstæðisflokksins í Heimildinni í dag. Þar er haft eftir flokksmanni að hægt sé að tala um varnarsigur en staða flokksins eftir kosningar sé „auðvitað ósigur“.
Þessi orð má heimfæra yfir á stöðu jafnréttismála á Alþingi. Kannski er ákveðinn varnarsigur fólginn í því ef þremur konum tekst að mynda ríkisstjórn, en kosningarnar voru auðvitað ósigur fyrir femínisma og bakslag í jafnréttisbaráttunni.
Það má vel vera en er það ekki spurning um val? Líklega vildu fleiri karlar einnig eyða dýrmætum stundum með börnum sínum en eru fastir í vinnunni af því konan fær ekki sömu laun og betri skipting tímans fyrir fjölskylduna þýddi lægri heildartekjur.