Kannski fer vel á því að enginn veit hver tók myndina, né heldur hvað mennirnir tveir heita sem þar sjást. Nafnleysið hefur á sinn hátt í för með sér að hvorki áhorfandinn (ljósmyndarinn) né mennirnir tveir verða sem einstaklingar þátttakendur í þeirri skelfingu sem myndin lýsir, heldur eru þeir, má segja, fulltrúar mannkynsins alls.
Og það er líka í raun mannkynið allt sem ber ábyrgðina á því sem þarna gerðist.
En samt ekki alveg allt, heldur aðkomnir innrásarmenn sem óðu á skítugum skónum inn í gamalgróið vist- og lífkerfi sem þróast hafði í þúsundir ára.
Innan við 400 dýr eftir á lífi
Þarna standa veiðimenn og/eða hermenn yfir þúsundum hausa af bísonuxum sem á að fara að mala og brenna í áburð við verksmiðju í Michigan árið 1892.
Þau hrannvíg á uxunum stóru sem myndin er til marks um höfðu þá staðið í nokkra áratugi í Norður-Ameríku og rétt undir aldamótin 1900 voru innan við 400 dýr eftir á lífi.
Það var hressileg frá því sem mest var.
Undir lok 18. aldar er talið að fjöldi dýranna á sléttum Norður-Ameríku hafi verið um 60 milljónir. Á sumrin héldu þau sig á grassléttunum þar sem nú eru hin nyrðri miðríki Bandaríkjanna en þegar kólnaði á veturna fóru þau þúsundir kílómetra til suðurs og höfðu vetursetu í Texas og Nýju-Mexíkó, sem nú heita.
Hina löngu leið á milli fóru dýrin í ógnarstórum hjörðum. Náttúrufræðingurinn E.T. Seton kvaðst á ofanverðri 19. öld hafa séð hjörð sem taldi þrjár milljónir dýra og var eins og ólgandi haf yfir að sjá þar sem uxarnir streymdu suður á bóginn.
Hin síðasta stund
Og þetta voru engar smáræðis skepnur. Stærstu tarfarnir eru nærri tveir metrar á hæð upp á herðakamb og nálgast að vera tonn að þyngd.
Jörðin skalf og nötraði þar sem stærstu hjarðirnar fóru um.
En þá var líka að renna upp síðasta stund þessara miklu hjarða.
Margar þjóðir frumbyggja – indíána sem kallaðir voru um tíma síðar – byggðu lífsafkomu sína á uxunum. Frumbyggjarnir eru taldir hafa veitt milli 200–300 þúsund dýr á ári en miðað við heildarfjöldann sá ekki högg á vatni. Og frumbyggjarnir báru ósvikna virðingu fyrir dýrunum. Þeir töluðu gjarnan um þau sem frændfólk sitt, samherja í lífsbaráttunni frekar en fjendur.
Þeir lifðu sem sé í „sátt og samlyndi“ við náttúruna að séð varð.
Stjórnkerfi dýranna?
Það er meira að segja talið að þjóðirnar á sléttunum hafi vitandi eða óvitandi tekið stjórnkerfi sitt upp frá dýrunum.
Bísonuxahjarðir lúta ekki forystu eins öflugs karldýrs eins og raunin er hjá mörgum dýrahópum heldur ríkir þar eins konar „samvirk forysta“ þar sem samvinna margra dýra leiðir hjörðina áfram.
Sams konar stjórn var og við lýði hjá frumbyggjaþjóðunum á sléttunni.
Þegar kom fram á 19. öld fóru afkomumenn ættaðir frá Evrópu hins vegar að strádrepa dýrin. Og upp úr miðri öldinni voru veiðarnar komnar út í þau ógnarlegu hrannvíg sem ljósmyndin frá 1892 sýnir.
„Hvítu mennirnir“ höfðu ýmsar ástæður til að drepa dýrin. Þeir notuðu skinn þeirra í leður, bjuggu til dýrmæta muni úr hornunum, kjötið var víst gómsætt. Og svo þurfti, sögðu menn, að fækka í stóru hjörðunum svo þær ógnuðu ekki járnbrautarlestunum sem fóru að paufast um slétturnar upp úr miðri öldinni.
Og blóðið rann.
Tákn fyrir dýravernd
Rétt áður en síðustu uxunum væri útrýmt laust fyrir 1900, þá urðu myndir eins og sú sem tekin var af nafnlausum ljósmyndaranum í Michigan, til þess að menn hrukku loksins í kút.
Var þetta einhver hemja? Var réttlætanlegt að útrýma með öllu þessari glæsilegu dýrategund sem hafði fyrir svo skömmu ráðið ríkjum á sléttunni?
Allt í einu fóru Bandaríkjamenn að leiða hugann að verndun dýrastofna og myndin frá Michigan varð tákn fyrir dýravernd og fyrir andstöðu gegn stjórnlausri ofveiði og græðgi mannsins.
Og sem slík er hún vissulega firnasterk.
En hún er samt vottur um annað sem er eiginlega enn skelfilegra.
Það kom nefnilega upp úr dúrnum um síðir að þetta voru ekki stjórnlausar veiðar drifnar áfram af skammsýnni græðgi skinnakaupmanna og þvíumlíkra kóna.
Ískalt markmið
Ónei, það voru ameríski herinn og embættismenn sem beinlínis ýttu veiðimönnum út í þessi hrannvíg, og hermenn tóku reyndar oft þátt í þeim.
Og það var beinlínis markmiðið að kippa fótunum undan lífsafkomu frumbyggjaþjóðanna. Það var ísköld fyrirhyggja sem lá að baki.
„Sérhver dauður uxi þýðir einn dauðan indíána,“ sögðu herforingjarnir um leið og þeir bjuggu út veiðimennina.
Það fór líka svo. Frumbyggjaþjóðir sem byggðu á bísonuxaveiðum hrundu, dóu í hrönnum úr hungri og vannæringu og hafa ekki náð sér á strik enn. Bændur frá Evrópu fengu nóg landrými og plægðu svörðinn þar sem lík bísonuxa og frumbyggja rotnuðu.
Þetta eru reyndar þau svæði þar sem þau eru nú sterkust sem vilja „make America great again“.
„Great“ eins og þegar bísonuxarnir voru strádrepnir milljónum saman? Eins og þegar frumbyggjaþjóðirnar visnuðu og dóu?
En svo er hægt að flækja málið enn meira.
Stóri frændi
Því hvað olli því að bísonuxinn hafði fengið svo mikið pláss á amerísku sléttunum yfirleitt?
Þegar ísöldinni lauk fyrir um það bil tíu til tólf þúsund árum og jöklar hurfu af hinum miklu sléttum, þá ráfuðu þar um margar tegundir grasbíta og jurtaæta í stórum hjörðum.
Sumar risavaxnar.
Bæði mammútar og mastódónar af fílaætt, miklu stærri en bísonuxar.
Kameldýrin Camelops hesternus, sjónarmun stærri en nokkrir núlifandi úlfaldar eða kameldýr í Asíu eða Afríku.
Að minnsta kosti tvær tegundir af hestum, báðar á stærð við nútímahross.
Og síðast en ekki síst Bison latifrons, tröllslegur frændi þess bísonuxa sem við þekkjum nú, hátt í þrír metrar að hæð upp að öxl og vel á þriðja tonn að þyngd. Og með metra löng horn, þung og mikil.
Horfnar tegundir
Öll þessi gríðarstóru og glæsilegu dýr ráfuðu um frjósamar slétturnar í nokkur þúsund ár og höfðu nóg að bíta og brenna fyrir sína stóru skrokka.
En hurfu svo á skömmum tíma, dóu svo gjörsamlega út að tilvist þeirra varð ekki ljós fyrr en á ofanverðri 19. öld þegar menn fóru að grafa steingervinga úr jörð.
Og smátt og smátt hefur komið í ljós hvað varð þeim að bana.
Jú, loftslagsbreytingar komu við sögu en meginástæðan fyrir útrýmingu þessara tignarlegu tegunda voru þó hrannvíg af hendi manna. Nýkomnir til Ameríku þróuðu þeir aðferðir til að reka hin stóru dýr inn í blindgötur náttúrunnar, inn í þröng gil, fram af hengiflugi, út í straumharðar ár og fossa.
Þegar þau voru öll dauð, þá fyrst varð pláss í náttúrunni fyrir „litla“ bísoninn til að fjölga sér ærlega.
Hverjir útrýmdu tegundunum?
Fjöldadrápin á stóru tegundunum tóku ívið lengri tíma en þegar afkomendur Evrópumanna höfðu nærri útrýmt bísonuxanum á 19. öld en afköstin voru stundum litlu síðri en lýsti sér í beinabræðslunni í Michigan.
Og hverjir voru þessir menn sem útrýmdu stóru tegundunum, mammútunum, mastódonunum, hrossunum, kameldýrunum og risabísoninum?
Ójú, það voru forfeður og formæður þeirra frumbyggja sem seinna höfðu lært af illri nauðsyn að lifa í sátt og samlyndi við bísonuxann.
„Stærsta hjörðin taldi þrjár milljónir dýra og var eins og ólgandi haf yfir að sjá þar sem uxarnir streymdu suður á bóginn“
Já það er það þ.e.a.s. ef þér líkar við nautakjöt, mjög svipað því en öllu bragðsterkara og grófara.
Eyða