Breytingar verða á skólastarfi í Kársnesi í Kópavogi næsta haust er nýr samrekinn leik- og grunnskóli tekur til starfa. Sá er við götuna Skólagerði. Í honum verða börn á leikskólaaldri og upp í 4. bekk grunnskóla. Í húsnæði Kársnesskóla við götuna Vallagerði verða nemendur í 5.–10. bekk.
Á síðasta fundi menntaráðs Kópavogsbæjar var útfærsla vals á nöfnum á skólana tvo rædd og tillaga að ferli til valsins samþykkt. Í bréfi frá deildarstjóra grunnskóladeildar Kópavogs er bent á að vissulega þurfi að finna nafn á nýjan skóla við Skólagerði en ekki sé einboðið að skólinn við Vallagerði, sem hingað til hefur heitið Kársnesskóli, haldi því nafni.
Lagði deildarstjórinn til að 4.–9. desember yrði hugmyndasamkeppni þar sem nemendur, starfsfólk og íbúar gætu lagt fram hugmyndir að nöfnum á skólana. Að því loknu velji skólaráð Kársnesskóla 3–5 tillögur fyrir hvorn skóla. Þá taki við rafræn kosning. Niðurstöður hennar verða bindandi.
Ferli þetta var samþykkt á fundi menntaráðsins.
Athugasemdir