„Þjóðin er búin að sýna það að hún vill sjá breytingar,“ sagði Kristrún Frostadóttir fyrr í kvöld en eftir fyrstu tölur frá Reykjavíkurkjördæmunum tveimur fær Samfylkingin lang mesta fylgið þar, nær forystu á landsvísu og bætir við sig tíu nýjum þingmönnum.
Nú þegar búið er að lesa fyrstu tölur í Reykjavíkurkjördæmi suður og norður er ljóst að staða Vinstri grænna er ansi slæm. Flokkurinn sem fékk fjóra þingmenn í þessum kjördæmum árið 2021 missir þá alla, en þeirra á meðal eru formaðurinn Svandís Svavarsdóttir og þingflokksformaðurinn Orri Páll Jóhannsson. Sama staða er uppi á landsvísu. Nú þegar búið er að telja 68.174 atkvæði á landsvísu hefur flokkurinn, sem setið hefur í ríkisstjórn frá árinu 2017, ekki enn náð einu sæti á þingi.
Annar ráðherra er á leið út af þingi samkvæmt þessum fyrstu tölum úr Reykjavíkurkjördæmunum, Ásmundur Einar Daðason barnamálaráðherra, því Framsóknarflokkurinn missir sinn mann í Reykjavíkurkjördæmi norður. Lilja Alfreðsdóttir kemur hins vegar inn sem uppbótarþingmaður í Reykjavíkurkjördæmi suður. Á landsvísu fellur Framsóknarflokkurinn úr því að vera með þrettán þingmenn í fimm, eins og staðan er núna. Formaðurinn, Sigurður Ingi Jóhannsson, fellur af þingi, eins og staðan er núna.
Viðreisn bætir við sig þingmanni í Reykjavíkurkjördæmunum er og er samtals með fjóra þingmenn. Ef fram fer sem horfir verður Jón Gnarr þingmaður Viðreisnar á næsta kjörtímabili, ásamt þeim Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, Hönnu Katrínu Friðriksdóttur og Pawel Bartoszek.
Fleiri tíðinda er að finna í þessum tölum. Samkvæmt þeim nær Miðflokkurinn inn manni í Reykjavík norður, sem þýðir að Sigríður Á. Andersen er á leið aftur á þing. Í Reykjavík suður heldur flokkurinn áfram einu sæti, en þar er Snorri Másson oddviti.
Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínum þingmannafjölda, þar sem hann missir þingmann í Reykjavíkurkjördæmi suður en bætir einum við í Reykjavíkurkjördæmi norður. Samtals eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fimm talsins. Það eru þau Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður, Guðlaugur Þór Þórðarson og Diljá Mist Einarsdóttir inn sem kjördæmakjörnir þingmenn. Brynjar Níelsson kemur hins vegar inn sem uppbótarþingmaður.
Það á einnig við um Dagbjörtu Hákonardóttur í Samfylkingunni. Samkvæmt fyrstu tölum í Reykjavík bætir Samfylkingin við sig tveimur þingmönnum í báðum kjördæmunum, og fer frá þremur í sjö þingmenn í Reykjavíkurkjördæmunum báðum.
Kjördæmakjörnir þingmenn Samfylkingarinnar í Reykjavík norður eru formaðurinn Kristrún Frostadóttir, Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, og Þórður Snær Júlíusson, sem hefur lýst því yfir að hann muni ekki taka sæti á Alþingi nái hann kjöri. Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður leiðir lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, en auk hans ná sæti Ragna Sigurðardóttir læknir og Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins.
Flokkur fólksins heldur sinni stöðu í Reykjavík með einn mann í sitthvoru kjördæminu, þau Ingu Sæland og og Ragnar Þór Ingólfsson.
Píratar virðast hins vegar vera á leið út af þingi. Þeir ná ekki manni inn í Reykjavíkurkjördæmunum, frekar en annars staðar. Sósíalistaflokkurinn hafa heldur ekki haft erindi sem erfiði, með 3,8 prósenta fylgi á landsvísu.
Athugasemdir