Sjálfstæðisflokkurinn mælist langstærstur í Suðvesturkjördæmi, þar sem Bjarni Benediktsson leiðir lista. Í kjördæmi hans flykktist fólk á kjörstað í dag, en kjörsókn var mun meiri í ár en þegar gengið var til kosninga árið 2021, eða um 62 prósent klukkan átta í kvöld.
Það skilaði sér í því að í Suðvesturkjördæmi bætir Sjálfstæðisflokkurinn við sig þingmanni og nær 28,6 prósenta fylgi í kjördæminu samkvæmt fyrstu tölum þaðan.
Staða Sjálfstæðisflokksins hefur lengi verið sterk í kjördæminu, ekki síst í Garðabæ og á Seltjarnarnesi. Í síðustu kosningum fékk flokkurinn til að mynda flest atkvæða þar, eða 30,2 prósent, og fjóra þingmenn af þrettán.
Þau Bjarni, Bryndís Haraldsdóttir, Jón Gunnarsson og Óli Björn Kárason tóku þá sæti á þingi, en talsverðar breytingar urðu á efstu sætum á listanum nú í haust.
Athygli vakti þegar varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, gaf kost á sér í annað sætið í kjördæminu og skoraði þar með Jón Gunnarsson á hólm. Hún skipar annað sætið, Bryndís það þriðja og Rósa Guðbjartsdóttir er í fjórða sæti á listanum. Í fimmta sæti situr hins vegar Jón Gunnarsson, fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Á eftir Sjálfstæðisflokknum í Suðvesturkjördæmi kemur Samfylkingin, með 22,2 prósenta fylgi. Því næst kemur Viðreisn með 14,3 prósenta fylgi.
Þetta er staðan eftir fyrstu tölur. Enn á eftir að koma í ljós hver endanleg niðurstaða verður.
Á landsvísu leiðir Sjálfstæðisflokkurinn með 22,9 prósenta fylgi, en fast á eftir fylgir Samfylkingin með 21,6 prósenta fylgi, nú þegar 20.640 atkvæði hafa verið talin.
Athugasemdir