Samtök um bíllausan lífsstíl héldu opinn kosningafund á Loft Hostel í Reykjavík síðdegis á miðvikudag, þar sem fulltrúum allra flokka sem bjóða fram á landsvísu var boðið að senda fulltrúa til að svara spurningum fundargesta um málefni á borð við bættar almenningsamgöngur, aðstæður fyrir virka ferðamáta og fleira.
Sex flokkar sendu fulltrúa á fundinn, en Framsóknarflokkurinn, Miðflokkurinn og Lýðræðisflokkurinn gerðu það ekki.
„Það verða nokkrir háðungarstólar hér, þeim til háðungar sem ekki sendu fulltrúa,“ sagði sjónvarpsmaðurinn Gísli Marteinn Baldursson, sem stýrði umræðum á fundinum.
Stjórnmálamennirnir sem voru til svara á fundinum voru þau Pawel Bartoszek frá Viðreisn, Rósa Björk Brynjólfsdóttir frá VG, Dóra Björt Guðjónsdóttir frá Pírötum, Dagur B. Eggertsson frá Samfylkingu, Sigurður Örn Hilmarsson frá Sjálfstæðisflokki og Davíð Þór Jónsson frá Sósíalistaflokknum.
Búi Bjarmar Aðalsteinsson, einn þeirra sem stóðu fyrir fundinum, segir við Heimildina að hann kunni ekki skýringar á því af hverju flokkarnir þrír sem ekki mættu hafi ekki sent fulltrúa. Allir flokkar hafi þó sannarlega fengið boð um að sitja fundinn.
Búi segir að þvert yfir línuna hafi upplifun hans af samtalinu með stjórnmálafólkinu verið sú að flokkarnir væru ekki með miklar pælingar eða skýra stefnu um virka ferðamáta, fyrir utan það sem snýr að almenningssamgöngum.
Svör stjórnmálamannanna voru að hans sögn með þeim hætti að þau virtust búin til á staðnum, frekar en að þau endurspegluðu einhverja raunverulegar stefnu flokkanna. En það er einmitt tilgangur svona fundar, segir Búi Bjarmar, að setja þessi mál á dagskrá og fá stjórnmálaflokka til að hugsa um þau.
Athugasemdir