„Hér snjóar og snjóar,“ sagði í texta sem fylgdi myndbandi sem birt var á upplýsingasíðu skíðasvæðisins í Bláfjöllum í vikunni, en kuldinn í vikunni hefur gert starfsmönnum skíðasvæðisins kleift að hefja snjóframleiðslu af fullum krafti.
Einar Bjarnason, rekstrarstjóri Bláfjalla, segir við Heimildina að framleiðslan hafi verið sett af stað síðasta laugardag og að síðan þá hafi verið hægt að keyra snjóbyssurnar átta sem eru á svæðinu í um fjóra sólarhringa. Ef það verður of hvasst þá þarf að slökkva á kerfinu, enda til lítils að framleiða snjó sem vindurinn feykir um leið langleiðina niður í Þorlákshöfn.
„Við erum samt að framleiða ótrúlegt magn því við höfum getað verið að keyra byssurnar á fullum afköstum og erum að skila miklu magni af snjó,“ segir Einar og nefnir sem dæmi að aðfaranótt fimmtudags hafi verið 12 gráðu frost í fjallinu, sem séu kjöraðstæður fyrir snjóframleiðsluna. Í svo miklu frosti sé hægt að hafa „allt í botni“.
Ef ekki væri fyrir hvassviðrið telur Einar að starfsmenn fjallsins væru komnir langt með að setja gott grunnlag á brekkurnar.
Snjóframleiðslukerfi af fullkominni gerð var sett upp í Bláfjöllum sumarið 2023. Á síðasta ári var fyrsti dagur snjóframleiðslunnar 22. nóvember og fyrsti opnunardagur skíðasvæðisins var síðan 21. desember og skíðafólk á suðvesturhorninu gat notið þess að renna sér yfir hátíðarnar.
Einar segir að það sé ekki komin nein dagsetning á fyrstu opnun Bláfjalla í vetur, en að það væri gaman að geta opnað á milli 10. og 15. desember.
Athugasemdir