Mótsagnakenndur glundroði fortíðarinnar – esseyja

„Svip­ur brot­anna er skemmti­lega ögr­andi tit­ill á veiga­miklu riti sem Þór­ir Ósk­ars­son hef­ur ný­lega sent frá sér um Bjarna Thor­ar­en­sen (1786−1841)“ – skrif­ar Jón Karl Helga­son í hug­leið­ingu um verk­ið.

Mótsagnakenndur glundroði fortíðarinnar – esseyja
Bjarni Bók Þóris er ekki aðeins til þess fallin að draga Bjarna og ljóð hans „á ný fram í dagsljósið“, heldur líka haganlega smíðuð tímavél.

Í

formála segir Þórir að Bjarni sé „jafnan talinn til höfuðskálda Íslendinga“, frumkvöðull rómantíkurinnar og í hópi þeirra „sem reyndu að efla sjálfsvitund landsmanna“. En um leið bendir hann á að lítið hafi farið fyrir arfleifð hans hérlendis undanfarna áratugi, hvort sem horft sé til umræðu fræðimanna eða opinberra tyllidaga. Að einhverju marki hefur Bjarni, líkt og flest önnur íslensk ljóðskáld nítjándu aldar, fallið í skugga arftaka síns, Jónasar Hallgrímssonar. Sá síðarnefndi er stöðugt að festast betur í sessi sem opinber þjóðardýrlingur, meðal annars með árvissum degi íslenskrar tungu og Jónasarverðlaununum sem Ari Eldjárn veitti viðtöku í liðinni viku. Nýjasta framlagið til helgifestu Jónasar er söguleg skáldsaga Arnaldar Indriðasonar, Ferðalok, þar sem listaskáldið góða er dauðvona og þó sprelllifandi vitundarmiðja.

Bók Þóris er ekki aðeins til þess fallin að draga Bjarna og ljóð hans „á ný fram í dagsljósið“, heldur líka haganlega smíðuð tímavél. Hún gerir okkur kleift að ferðast á rúmum 400 síðum 200 ár aftur í tímann, þegar Ísland var harðbýlt landbúnaðarsamfélag og vanþróaður hluti danska konungsríkisins. Hérlendis var aðeins starfrækt ein prentsmiðja, með herkjum, undir stjórn hins ráðríka dómsstjóra og stiftamtmanns, Magnúsar Stephensen. Íslenskur bókamarkaður var enn ekki orðinn til, hvað þá jólabókaflóð. Fátt virtist eins illa fallið til frama eða fjár og framsækin ljóðagerð.

„Það er gott að vera minntur á að hvorki Bjarni né Jónas lifðu það að sjá fyrstu ljóðasöfn sín koma út“
Jón Karl Helgason

Seintekið ljóðskáld

Nú á dögum er okkur tamt að mæla skáld og rithöfunda í útgefnum bókum. Það er gott að vera minntur á að hvorki Bjarni né Jónas lifðu það að sjá fyrstu ljóðasöfn sín koma út. Þau voru prentuð svo að segja samhliða árið 1847, sex árum eftir andlát Bjarna og tveimur árum eftir banvænt fótbrot Jónasar. Reyndar fórst um helmingur þúsund eintaka upplags beggja bóka í bruna. Enn liðu áratugir þar til að heildarsöfn skáldanna litu dagsins ljós og hefur ýmislegt ratað í þau sem hvorugur hugsaði til útgáfu. Sú mynd sem við gerum okkur af þeim félögum í bókmenntasögulegu tilliti er að einhverju marki seinni tíma sviðsetning, ólík þeirri mynd sem samtímamenn þeirra (og jafnvel þeir sjálfir) höfðu.

Í Svipum brotanna er undirstrikað að það tók Bjarna allmörg ár að gera sig gildandi á innlendum skáldabekk. Þórir setur, til að byrja með, ýmsa varnagla við þá goðsögu sem eldri fræðimenn (Grímur Thomsen fyrstur) hafa sagt af honum sem „bráðþroska, menntaþyrstu ungmenni sem hafi fljótlega eftir komuna til [Kaupmannahafnar] sökkt sér á kaf í heimspeki- og bókmenntastrauma samtímans og ort innan við tvítugt sum fegurstu ljóð sín“.  Rifjar Þórir upp fyrri efasemdir sínar um að Bjarni hafi, fimmtán ára gamall, hlýtt á eða yfirleitt skilið áhrifamikla fyrirlestra um þýska hughyggju, eðlisfræði og skáldskap sem norski heimspekingurinn Henrich Steffens flutti í dönsku höfuðborginni á árunum 1802 til 1804. Þessir fyrirlestrar hafa lengi verið taldir marka upphaf danskrar og íslenskrar rómantíkur en líklega eru bein áhrif þeirra ofmetin í tilviki Íslands. Í heildina virðist Bjarni ekki ljúka við nema um tug kvæða, sem hann er sæmilega sáttur við, á þeim tæpa áratug sem hann er við nám og störf í Danmörku. Aðeins fáein ljóð eftir hann birtast á víð og dreif í tímaritum næsta áratug þar á eftir og hann er farinn að halla í fimmtugt þegar farið er að líta á hann sem þjóðskáld.

Embættismaður og bóndi

Undirtitill bókar Þóris er „Líf og list Bjarna Thorarensen“. Enda þótt verulegur hluti verksins sé vönduð og glögg greining á list skáldsins, þar með talið fjölbreyttur samanburður á erlendum og innlendum hliðstæðum einstakra ljóða, fer ekki á milli mála að líf Bjarna snerist um aðra hluti. Söguhetja frásagnarinnar er fremur vel heppnaður forréttindapési; lögfræðimenntaður sýslumannssonur sem hefur starfsferil sinn við fornritaútgáfu hjá Árnanefnd og ritarastörf á stjórnarskrifstofunum í Kaupmannahöfn. Heimkominn fær hann misvel launaða vinnu sem dómari, sýslumaður og amtmaður. Hann gerist líka bóndi og bústólpi, fyrst á jörðinni Gufunesi í Mosfellssveit og síðar á Möðruvöllum í Hörgárdal. Ljóðagerðin er aukageta, eitthvað sem hann grípur til í stopulum frístundum eða af sérstöku tilefni, til dæmis eftir andlát ættingja eða vinar.

Bjarni kemur mér fyrir sjónir sem samviskusamur og strangur embættismaður sem kunni þó sannarlega að gera sér glaðan dag, drekka vín og bresta í söng. Og oftast hefur hann hjartað á merkilega réttum stað. Skilningur hans á breyskleika guðs barna kemur skýrt fram þegar hann biður vin sinn í bréfi um að fordæma ekki ungan guðfræðistúdent, Þorstein Helgason. Sá hafði slitið trúlofun sinni við biskupsdótturina í Laugarnesi, Sigríði Hannesdóttur Finsen, og gert hosur sínar grænar fyrir ungri þjónustustúlku á heimilinu, Sigríði Pálsdóttur. Bjarni telur sýnt að Þorsteinn sé „sterbend verliebt“ – helsjúkur af þýskættaðri rómantískri ást og honum sé vorkunn. Enginn leiki sér að því að styggja eina valdamestu ætt landsins, „og það sem menn svoleiðis gjöra nauðugir er aldrei illgirnis synd“. Með líkum hætti styður Bjarni, ólíkt flestum fyrirmönnum af sinni kynslóð, róttæka menningarviðleitni yngri kynslóðar Íslendinga í Kaupmannahöfn sem birtist skýrast í útgáfu tímaritanna Ármanns á Alþingi og Fjölnis. Og það er þessi hópur, ekki síst Fjölnismenn með Tómas Sæmundsson í broddi fylkingar, sem á ríkan þátt í að lyfta Bjarna sem skáldi og hvetja hann til dáða. Áhrifarík fyrir orðspor hans eru ljóð sem ná útbreiðslu meðal yngra fólks við vinsæl sönglög. En aðdáunin hefur sín takmörk. Því er meðal annars haldið til haga að við andlát amtmannsins á Möðruvöllum árið 1841 hafi alþýðuskáldið Bólu-Hjálmar fagnað með kviðlingum þar sem fram kom að nú væri einum „foldar grófum niðja“ færra í landinu.

Með titli bókar sinnar og ummælum í inngangi og niðurlagi, leggur Þórir mikla áherslu á að þær heimildir sem varðveist hafa um Bjarna og ljóð hans séu brotakenndar. Hann stenst meðvitað þá freistingu að yrkja þar í eyðurnar (sem er beinlínis markmiðið í sögulegum skáldsögum eins og Ferðalokum Arnaldar) og skoðar með gagnrýnum huga ýmsar ályktanir sem menn hafa dregið af einstökum ljóðum, ekki síst þær sem kenna má við ævisögulega bókmenntatúlkun. „Við ritun þessarar bókar var tekin sú ákvörðun að leyfa brotunum í lífi og list að standa eins og hverjum öðrum staðreyndum og jafnvel vekja sérstaka athygli á þeim ef því var að skipta,“ skrifar Þórir og bætir við að lesendum sem leiti „eftir heild og samræmi“ kunni að þykja þetta miður. „Þeim hinum sömu er því að svara að veruleikinn einkennist sjaldan af heild og samræmi, hvað þá breytinga- og byltingarskeiðið sem Bjarni Thorarensen lifði […], líf og listir tókust á svo niðurstaðan varð stundum mótsagnakenndur glundroði.“

„Hildur Bogadóttir er aðeins nafngreind á sex síðum í bókinni. Og þó ber hún tíu börn þeirra hjóna undir belti og komast sjö þeirra á legg“
Jón Karl Helgason

Eiginmaður og sjö barna faðir

Meðal þess sem brotakenndar heimildir hafa varðveist um er veruleiki Bjarna sem eiginmaður, faðir og uppalandi. Það segir sína sögu að eiginkona skáldsins, Hildur Bogadóttir, er aðeins nafngreind á sex síðum í bókinni. Og þó ber hún tíu börn þeirra hjóna undir belti og komast sjö þeirra á legg. Í raun birtist skýrari mynd af misheppnuðum kvonbænum Bjarna, áður en þau Hildur ná saman, enda hafa varðveist um þær ýmsar heimildir sem leiða meðal annars í ljós hve afdrifaríkt það gat verið að hafa hinn valdamikla Magnús Stephensen á móti sér, eins og raunin var lengi með Bjarna.

Ástæða þess að ég fór, að lestri loknum, að velta ósýnileika Hildar og barnanna fyrir mér voru ekki aðeins ábendingar Þóris um að heimildirnar veiti brotakennda mynd af fortíðinni heldur einnig annað ævisögulegt rit sem skolað hefur á land til okkar í jólabókaflóðinu. Þar á ég við Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809–1871 eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur. Hún fjallar þar um viðburðaríka ævi vinnukonunnar sem guðfræðistúdentinn Þorsteinn Helgason giftist eftir að hafa slitið trúlofun sinni við Sigríði biskupsdóttur Hannesdóttur. Meginheimildir eru sendibréf sem Sigríður yngri skrifar til sinna nánustu frá átta ára aldri til æviloka. Ég er rétt farinn að fletta þessari viðamiklu bók Erlu Huldu og tel sýnt að um sé að ræða aðra haganlega smíðaða tímavél sem einnig bjóði upp á spennandi 400 síðna ferðalag 200 ár aftur í tímann. Leiðir tímavélanna tveggja um nítjándu öldina skerast á stöku stað en að flestu leyti virðast þær lýsa ólíkum hliðum hins brotakennda glundroða fortíðarinnar.

Kjósa
2
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Við mætum í vinnuna til þess að sigra“
2
Á vettvangi

„Við mæt­um í vinn­una til þess að sigra“

Kona sem sit­ur á bið­stofu með fleira fólki er að grein­ast með heila­æxli og það þarf að til­kynna henni það. En það er eng­inn stað­ur sem hægt er að fara með hana á, til að ræða við hana í næði. Í ann­an stað er rætt við að­stand­end­ur frammi, fyr­ir fram­an sjálfsal­ann en þá fer neyð­ar­bjall­an af stað og hama­gang­ur­inn er mik­ill þeg­ar starfs­fólk­ið hleyp­ur af stað. Í fjóra mán­uði hef­ur blaða­mað­ur ver­ið á vett­vangi bráða­mót­tök­unn­ar á Land­spít­al­an­um og fylgst með starf­inu þar.

Mest lesið í mánuðinum

Leyniupptaka lýsir vinargreiða og hrossakaupum Bjarna og Jóns
1
Afhjúpun

Leyniupp­taka lýs­ir vin­ar­greiða og hrossa­kaup­um Bjarna og Jóns

Son­ur og við­skipta­fé­lagi Jóns Gunn­ars­son­ar þing­manns full­yrð­ir í upp­tök­um sem tekn­ar voru af manni sem sagð­ist vera fjár­fest­ir að Jón hafi sam­þykkt beiðni Bjarna Bene­dikts­son­ar um að þiggja sæti á lista gegn því að Jón kom­ist í að­stöðu til veita veiði­leyfi til Hvals hf. Það verði arf­leifð Jóns að tryggja Kristjáni Lofts­syni nán­um vini sín­um leyf­ið. Það sé hins veg­ar eitt­hvað sem eigi að fara leynt.
„Hann sagðist ekki geta meir“
2
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Grunaði að það ætti að reka hana
3
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Myndir af neyðarmóttöku sendar áfram: „Ekki myndir sem ég vildi sjá af sjálfri mér“
6
FréttirKynferðisbrot

Mynd­ir af neyð­ar­mót­töku send­ar áfram: „Ekki mynd­ir sem ég vildi sjá af sjálfri mér“

Lög­reglu var heim­ilt að senda mynd­ir sem tekn­ar voru af Guðnýju S. Bjarna­dótt­ur á neyð­ar­mót­töku fyr­ir þo­lend­ur kyn­ferð­isof­beld­is á verj­anda manns sem hún kærði fyr­ir nauðg­un. Þetta er nið­ur­staða Per­sónu­vernd­ar. Guðný seg­ir ótækt að gerend­ur í kyn­ferð­isaf­brota­mál­um geti með þess­um hætti feng­ið að­gang að við­kvæm­um mynd­um af þo­lend­um. „Þetta er bara sta­f­rænt kyn­ferð­isof­beldi af hendi lög­regl­unn­ar.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár