Eldgos er hafið á Sundhnúksgígaröð, nærri Stóra-Skógfelli og hófst klukkan 23:14. Veðurstofa Íslands varaði við yfirstandandi kvikuhlaupi um fimmtán mínútum áður en gosið hófst, en fyrstu merki um kvikuhlaup komu fram á mælum Veðurstofunnar um kl. 22:30.
Bjarminn frá gosinu sést vel frá höfuðborgarsvæðinu. Gosið er á svipuðum slóðum og þau síðustu, en vísbendingar eru um að það sé minna en síðasta gos á gígaröðinni, allavega í fyrstu.
Innviðir eru ekki taldir í hættu, miðað við fyrstu athuganir, en samkvæmt Veðurstofunni benda fyrstu fréttir af hraunrennsli til þess að hraunstraumur renni í vestur og liggi sunnanvert í Stóra-Skógfelli. Enginn hraunstraumur sést hinsvegar í átt að Grindavík.
Stíf norðanátt er á svæðinu sem beinir gasmengun suður á bóginn yfir Grindavík. Fram kom í máli Úlfars Lúðvíkssonar lögreglustjóra á Suðurnesjum í viðtali á Rás 2 á tólfta tímanum að unnið væri að því að rýma Grindavíkurbæ.
Á neyðarstig
Í tilkynningu frá almannavörnum kemur fram að ríkislögreglustjóri hafi í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum ákveðið að fara á neyðarstig vegna eldgossins.
Búið er að virkja samhæfingarstöð almannavarna. Fram kemur í tilkynningu almannavarna að gist hafi verið í um 50 húsum í Grindavík undanfarnar nætur.
Fréttin hefur verið uppfærð
Athugasemdir