Í síðustu alþingiskosningum kusu einungis 42 prósent kosningabærra innflytjenda á meðan hlutfallið var 83 prósent hjá þeim sem ekki höfðu erlendan bakgrunn. Málefni útlendinga hafa tekið stóran skerf af kosningaumræðunni án þess að mikið sé talað til þeirra innflytjenda sem hafa kosningarétt hér á landi.
Umræðan virðist gjarnan sveigjast hratt í áttina til mikils kostnaðar við móttökukerfi flóttafólks og hælisleitenda. Sá hópur er þó ekki mjög stór ef litið er til heildarinnar – þess stóra hóps innflytjenda sem hér býr.
Sá hópur er um 18 prósent þjóðarinnar, telur um 70.000 manns en þar af eru flóttamenn 3.777 talsins, og er mjög fjölbreyttur. Erlendir ríkisborgarar mega ekki kjósa í alþingis- og forsetakosningum en það mega íslenskir ríkisborgarar með erlendan bakgrunn. Heimildin settist niður með tveimur þeirra eftir fund innflytjenda og stjórnmálamanna um síðustu helgi og ræddi þingkosningarnar fram undan.
„Við þurfum að vinna saman til þess að aðlögunin verði sem best“
Þakklátur Dalvíkingum og stjórnvöldum út ævina
Sabit Veselaj er frá Kósovó. Hann kom hingað til lands sem flóttamaður fyrir ríflega 20 árum síðan, þegar stríð geisaði í heimalandi hans, og settist til að byrja með að á Dalvík.
„Þegar ég kom til Íslands var ég mjög heppinn að fá stuðning frá fólkinu á Dalvík sem ég mun aldrei gleyma. Ég verð þakklátur út ævina fyrir það og það sem stjórnvöld gerðu fyrir okkur. Við fórum á íslenskunámskeið um leið og við komum til Íslands og fengum líka rétt til þess að vinna meðfram því – bæði að fara á námskeið og í vinnu,“ segir Sabit, sem talar í dag mjög góða íslensku.
Hann var um tvítugt þegar hann kom hingað og hafði klárað bakkalárgráðu í viðskiptafræði í Kósovó. Eftir nokkur ár á Dalvík ákvað Sabit að færa sig til Reykjavíkur og leggjast í meistaranám við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Meðfram því vann hann hin ýmsu störf, bæði sem túlkur og annað. Hann kláraði meistaranámið og er nú í doktorsnámi við Háskóla Íslands.
„Ég sé sjálfan mig sem hluta af þessu samfélagi, ég sé mig ekki sem útlending, jafnvel þó að ég sé með öðruvísi nafn og sé með sterkan hreim. Ég er búinn að reyna að aðlagast umhverfinu og öllu því. Það tekur tíma, þetta er langt tvískipt ferli, bæði fyrir okkur sem innflytjendur og líka fyrir landið, fólkið sem býr hér á Íslandi. Við þurfum að vinna saman til þess að aðlögunin verði sem best,“ segir Sabit.
Brúni víkingurinn
Þetta ferli hefur í hans tilfelli tekist nokkuð vel. Patience Afrah Antwi, sem fluttist hingað til lands frá Gana árið 2007, hefur annars konar sögu að segja af aðlögun að íslensku samfélagi.
„Stundum líður mér eins og ég sé íslensk en stundum líður mér eins og ég tilheyri ekki samfélaginu. Þegar fólk hittir þig reynir það ekki einu sinni að tala íslensku við þig svo að þú getir æft þig. Um leið og þau sjá að þú ert með litaða húð byrja þau að tala ensku,“ segir Patience.
Á sama tíma og henni finnst hún ekki fyllilega tilheyra samfélaginu segja vinnufélagar hennar þar sem hún vinnur í eldhúsinu hjá lyfjafyrirtækinu Coripharma að hún sé ekki útlendingur. Svo hún upplifir sig hvorki fyllilega íslenska né útlenska.
„Nú kalla þau mig brúna víkinginn. Ég gaf sjálfri mér það nafn,“ segir Patience og hlær. „Hefurðu einhvern tímann áður hitt brúnan víking?“
Óskaði þess heitast að komast út
Þessi brúni víkingur ætlaði upphaflega að stoppa stutt á Íslandi, í eitt ár sem au pair, en svo kviknaði ástin. Patience hitti eiginmann sinn, sem var einnig frá Gana en var með íslenskan ríkisborgararétt og hafði flust hingað árið 1992, og þau eignuðust saman tvær dætur sem nú eru 12 og 15 ára.
Patience ákvað að sækja um ríkisborgararétt árið 2012.
„Þegar við vorum að ferðast stríddi eiginmaður minn mér: Ég og stelpurnar notum bláa passann, þú notar bara þennan græna,“ rifjar Patience upp og hlær. „Ég hugsaði með mér að ég þyrfti að fá bláa passann.“
Það tókst og segir Patience að það hafi verið mikill sigur, enda sér hún ekki fram á að flytja frá Íslandi. Hér á hún heima í dag þó að henni finnist hún ekki alltaf tilheyra samfélaginu.
„Að einhverju leyti langar mig að fara til Gana en dætur mínar passa ekki þar inn, þær tala ekki tungumálið, þær eru fæddar hér svo ég sé þær sem Íslendinga,“ segir Patience og bendir á að stúlkurnar hennar myndu helst ekki einu sinni vilja flytja í annað hverfi, því eins og flesta unglinga langar þær að halda í skólann sinn og vinina.
Faðir stúlknanna og eiginmaður Patience lést í fyrra, eftir sex ára erfið veikindi. Það var í því ferli sem Patience upplifði virkilega að vegna húðlitar væri litið á þau sem annars flokks, já eða jafnvel fjórða flokks – eins og hún lýsir því sjálf – borgara.
„Við tilheyrum aldrei fyllilega. Það skiptir ekki máli hvort þú sért gift íslenskri manneskju eða ekki, það er aldrei komið eins fram við þig og það þarf að breytast,“ segir Patience.
Hún lýsir því þegar eiginmaður hennar veiktist árið 2007. Fjölskyldan bjó þá, og býr enn, í félagslegri íbúð, enda tekjurnar af mjög skornum skammti.
„Hann var alltaf að fara inn og út af spítala. Svo fór hann að hætta að geta gengið upp stigann. Við sóttum um skipti á íbúðum því við vorum á þriðju hæð í lyftulausu húsi,“ útskýrir Patience.
Á síðustu árum eiginmannsins átti hann þá ósk heitasta að komast út undir bert loft.
„Það hefði verið hægt ef við hefðum verið á jarðhæð, þá hefði ég getað ýtt honum út úr húsinu í hjólastól og við farið út saman. En hann komst bara út þegar hann fór á spítalann,“ útskýrir Patience og á þá við að það hafi einungis verið þegar hún þurfti að hringja á sjúkrabíl til þess að láta færa hann á spítalann sem sjúkraflutningamenn báru eiginmann hennar út undir bert loft í skamma stund áður en hann var settur inn í sjúkrabílinn.
Það var ekki fyrr en fyrir um hálfum mánuði síðan sem símtal barst um mögulegan flutning. Þá var það orðið of seint. „Við fengum ekki flutning fyrr en eftir að hann lést. Mér líður eins og ef ég væri Íslendingur hefði ég fengið tækifæri til flutnings á meðan hann var á lífi. Þá hefðu þau fært okkur um leið og hann varð svona veikur,“ segir Patience.
„Jafnvel á spítalanum finnur þú fyrir því að þú sért fjórða flokks borgari. Þetta er ástæðan fyrir því að ég ætla að kjósa núna. Ég vil ekki að börnin mín gangi í gegnum það sem faðir þeirra gekk í gegnum eða það sem ég er að ganga í gegnum,“ segir Patience og á þá við þá staðreynd að hún hefur nú í 13 ár starfað í sama eldhúsinu í láglaunastarfi. Hún sér lítinn sem engan möguleika á að komast út úr þeirri stöðu. Jafnframt vill hún sjá breytingar svo dætur hennar verði ekki fyrir sömu fordómum og hún hefur orðið fyrir hér á landi.
Þrátt fyrir að Patience hafi mátt kjósa hér á landi í 17 ár þá hefur hún einungis einu sinni gert það. Eins og mörgum öðrum innflytjendum fannst henni það lengi vel ekki skipta máli, enginn stjórnmálaflokkur væri hvort eð er að spá í hennar stöðu. Hún finnur að sú tilfinning er sterk í hópi innflytjenda frá Afríkuríkjum.
„Ég vil ekki eyða tímanum mínum í þetta, það breytist ekki neitt hvort sem er,“ hefur hún eftir kunningjakonu sinni sem hún reyndi að fá með sér á kosningaviðburð. „Fólk er ekki spennt fyrir kosningum vegna þess hvernig komið er fram við það.“
Stjórnmálamenn þurfi að gæta orða sinna
Patience og Sabit eru svokallaðir menningarsendiherrar, fólk sem hefur það hlutverk að miðla upplýsingum um margvísleg málefni innan sinna raða og skapa lýðræðislegan vettvang fyrir innflytjendur til að koma hugmyndum sínum, skoðunum og sjónarmiðum á framfæri við borgina og önnur stjórnvöld. Þau hafa jafnframt tekið þátt í verkefni um lýðræðislega þátttöku innflytjenda, en menningarsendiherrarnir buðu um síðustu helgi til opins fundar með fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem bjóða fram til alþingiskosninga. Vel var mætt á fundinn sem fór fram í Veröld – húsi Vigdísar.
Sabit, sem hefur kosið í hverjum einustu kosningum síðan hann fékk rétt til þess, segir að margir góðir punktar hafi komið fram í umræðunum.
„Mér fannst eins og þau séu núna að taka alvarlegar mál varðandi innflytjendur. Þau voru að lofa því að þau myndu fara í breytingar, með menntun til dæmis, að viðurkenna menntun þeirra sem koma hingað og skoða hana öðruvísi en hefur verið gert áður,“ segir Sabit og bætir því við að hann hafi verið ánægður með umræðu um mikilvægi þess að bjóða innflytjendum upp á íslenskunám á vinnutíma.
„Mér fannst þau tala of sterkt, að þau þurfi að passa að orðræðan um innflytjendur fari ekki í mjög neikvæða átt
Sjálfur hefur Sabit fylgst vel með umræðunni í kringum kosningarnar og þó að honum þyki umræðan vera að færast í rétta átt hvað varðar aðlögun og inngildingu þá hefur hann orðið var við neikvæða orðræðu í garð innflytjenda, til dæmis í kappræðum formanna stjórnmálaflokkanna á RÚV fyrir nokkrum vikum síðan.
„Mér fannst þau tala of sterkt, að þau þurfi að passa að orðræðan um innflytjendur fari ekki í mjög neikvæða átt, sérstaklega um þau sem eru búin að vera hér lengi og búin að aðlagast. Mér fannst koma fram mjög sterk neikvæð viðhorf gagnvart innflytjendum,“ segir Sabit og nefnir sérstaklega Miðflokkinn þegar hann er spurður hvaða flokk hann eigi við sérstaklega. Hann tekur þó fram að fulltrúi Miðflokksins á fundinum í Veröld hafi talað með öðrum og opnari hætti.
Föst á „neðsta stigi“
Patience segir að hún hafi ekki fengið skýr svör á fundinum við spurningu um það hvernig ætti að bregðast við þeirri staðreynd að börn af erlendum uppruna, sem alast ekki upp á íslenskumælandi heimili, eigi erfitt með að ná tökum á íslenskunni.
„Það er eitthvað að hjá okkur þegar börn sem fæðast hér geta ekki talað tungumálið,“ segir Patience. Hún telur þó viðburði sem þessa mjög mikilvæga, bæði til þess að stjórnmálafólk hitti innflytjendur og hafi þá í huga og fyrir innflytjendur, til þess að sjá hvort einhver stjórnmálaflokkanna hafi mögulega eitthvað að bjóða sem þeim hugnast. Fyrir Patience eru það atvinnumálin sem skipta mestu máli. Hún bendir á sjálfa sig sem dæmi. Það er erfitt fyrir hana að sjá fyrir börnunum sínum í starfinu sem hún hefur verið í síðastliðin 13 ár en Patience sendir einnig pening heim til foreldra sinna sem enn búa í Gana.
„Þegar eiginmaður minn var lifandi og hann veiktist varð ég eina fyrirvinna heimilisins. Að sjá um börnin mín og foreldra mína heima – að fá aukapening til þess að borga fyrir nám er meira en að segja það fyrir mig,“ segir Patience sem myndi vilja mennta sig en sér ekki leiðir til þess meðfram vinnu og vegna takmarkaðrar íslenskukunnáttu. „Þá er maður fastur á neðsta stigi. Margir úr mínu samfélagi eru í sömu stöðu. Ég myndi vilja nota það sem ég er þegar búin að læra í vinnunni til þess að fá það metið til einhvers konar viðurkenningar. Við myndum vilja stutt námskeið á ensku sem við gætum bætt við okkur þekkingu með.“
„Fólk er ekki spennt fyrir kosningum vegna þess hvernig komið er fram við það
Sabit telur upp svipuð kosningamál og aðrir Íslendingar þegar hann er spurður um þau mikilvægustu; menntun, heilbrigðismál og húsnæðismál. Því þessir flokkar snerta alla landsmenn, sama hver uppruni þeirra er.
Þau vona bæði að starf menningarsendiherra og fundur eins og sá sem var í Húsi Vigdísar aðstoði við að draga upp kosningaþátttöku innflytjenda.
„Ég tala venjulega um mína eigin reynslu til þess að þeir sem taka ákvarðanir viti af því að við erum til. Það eru ekki allir í mínu samfélagi tilbúnir að tala um sín vandamál en ég er alltaf tilbúin að deila því sem ég hef gengið í gegnum svo að eitthvað breytist. Það er ekki bara ég sem geng í gegnum svona erfiðleika,“ segir Patience.
Athugasemdir