Vofa gengur ljósum logum um jörðina. Vofa nýfrjálshyggjunnar. Í skjóli hennar hafa fáeinar hræður rakað saman helmingi auðæfa heimsins, þjappað þeim saman, útilokað heilaga samkeppni, náð valdi yfir lýðræðinu og stofnunum þess. Þær hafa einnig náð yfirráðum yfir umræðunni með uppkaupum á fjölmiðlum og eiga auk þess samfélagsmiðlana og setja þar mannkyninu sína skilmála. Ríkustu menn heims reka auk þess áróðursveitur sem smeygja sér inn í stjórnmálaflokka, verkalýðshreyfingar og rústa tiltrú kjósenda á vinstri flokkum sem eitt sinn kenndu sig við jöfnuð eða sósíalisma.
Ásælni hinna ríku, sem sækja taumleysi sitt til nýfrjálshyggjunnar hefur skert kjör ekki aðeins verkalýðs heldur einnig millistétta sem finna óánægju sinni nýja farvegi. Kjósendur trúa ekki lengur á mátt vinstrisins til að bæta kjör og velferð á nýjan leik og hallast að „sterkum körlum“ sem selja þeim snákaolíu, lofa öllu fögru en hafa engan áhuga á kjörum fólks og eiga enga samleið með því: Berlusconi, Trump, Boris Johnson, Erdogan, Wilders, Orbán, Bolsonaro, Milei, Modi... (Vill einhver nefna íslenska samsvörun?).
Vonbrigði og reiði
Í gliðnandi gjá milli mikilla væntinga og vona og og raunverulegrar stöðu almennings nærist auðmýkingin og reiðin. Sagan kennir okkur að þegar engra kosta er lengur völ í kjörklefanum fara kjósendur að finna nýja syndabokka, ný mál til að skella skuldinni á (transfer of blame). „Sterku karlarnir“ rækta beinlínis vaxandi andúð á öðrum menningarhópum og árásir á flóttamenn og hælisleitendur. Sjónum manna er beint að allskyns málum sem litlu skipta um velferð og kjör. Deilt er um hvort salerni eigi alls staðar að vera fyrir bæði kyn o.þ.h. Vonbrigðin verða loks til þess að fjöldinn lætur glepjast af einræði, forsjá og lýðskrumi „sterkra karla“.
Í látlausri úthlutun almannaeigna til hinna ríku hafa fótgönguliðar nýfrjálshyggjunnar grafið undan velferðarkerfinu, veikt stoðir heilbrigðiskerfisins að því marki að útsendarar þeirra á þjóðþingum fá sínar fullkomnu réttlætingar fyrir einkavæðingu helstu innviða samfélaganna sem til þessa hafa verið í eigu almennings.
„Nýfrjálshyggjan er orðin hið eðlilega og hvunndagslega“
Nýfrjálshyggjan er orðin hið eðlilega og hvunndagslega, Á hennar skilmálum fer stjórnmálaumræðan fram. Hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar er vatnið sem við syndum í. Svo sjálfgefið er það fiskunum að þeir vita ekki að þeir eru blautir. Við erum fiskar. Hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar gegnumsýrir ekki aðeins hægriflokka um heim allan heldur nú einnig vinstriflokka, nema kannski flokka eins og Sósíalistaflokkinn svo aðeins sé litið til Íslands.
Ef stjórnmálum, sem fylgja grunngildum lýðræðisins, tekst ekki að snúa þessari þróun við getur meira en verið að við blasi aðeins toppurinn á ísjakanum. Nær allstaðar er lýðræðið á undanhaldi gagnvart lýðskrumi riddara nýfrjálshyggjunnar.
Völdin flutt til ríkra á markaði
Fasismi festir rætur þegar ríkisvaldið (lýðræðislega kjörið) bregst, þegar stjórnmálin bregðast, þegar ekki er lengur unnt að mæta þörfum almennings í krafti lýðræðislegra ákvarðana.
Séra Davíð Þór Jónsson reyndi eitt sinn að vefja ofan af blekkingaleik nýfrjálshyggjunnar sem fest hefur rætur í tungu okkar og tungutaki:
„Vegna þess að ég heyrði ráðherra nýlega tala um nauðsyn þess að „setja eigur ríkisins á markað“ finnst mér nauðsynlegt að afrugla aðeins hvernig sagt er frá þessu. Hér eru tvö orð sem vert er að gefa gaum að merkingunni í og því hvernig þau eru notuð. Hið fyrra er „markaður“. Hverjir eru „markaðurinn“? Ég er ekki á þessum markaði og fólkið sem kemur hingað til að biðja um hjálp er það ekki heldur. Öryrkjar eru ekki á þessum markaði. „Markaður“ er nefnilega í raun fínt orð yfir það sem kallað er „fjármagnseigendur“, sem aftur er aðeins skrúðyrði yfir þá sem eiga peningana, þ.e. auðmenn. Hitt orðið er „ríkið“. Hverjir eiga „ríkið“? Það er í raun almenningur í þessu landi, þjóðin. Höfum þess vegna alveg á hreinu að þegar talað er um að setja eigur „ríkisins“ á „markað“ er í raun verið að tala um að koma eigum þjóðarinnar í hendur auðmanna.“
Helsti gúrú nýfrjálshyggjunnar og hugmyndafræðingur hennar, Friedrich Hayek, óttaðist mest af öllu uppgang alræðisins. Nú sækir þróun í átt til alræðisins mátt sinn og styrk fyrst og fremst til kenninga hans.
(Greinin er að mestu byggð á kafla í nýrri bók Monbiot og Hutchison , The Invisible Doctrine – The Secret History of Neoliberalism (and how it came to control your life).)
Jóhann Hauksson
blaðamaður
Athugasemdir