Vindorkuver eru og verða umdeild, hvort sem þau verða reist í litlum eða verulegum mæli á Íslandi. Sé horft framhjá skoðunum fólks og stjórnvalda á þeim er gagnlegt að horfa til um 40 verkefna sem búið er að strika upp. Tvö eru á vegum Landsvirkjunar í nýtingarflokki rammaáætlunar og er vinna við annað þeirra hafin. Hin eru erlend og Norðmenn (Zephyr) og aðilar að franska Qair þar frekir til fjörsins. Afltölur vindveranna í heild eru miklum mun hærri en núverandi virkjað vatns- og jarðvarmaafl landsins.
Því miður hefur ekki tekist að afgreiða á Alþingi þörf lög um vindafl/vindorku. Gera þar með yfirgripsmikla tilraun til að setja vindorkunni sess, skorður, reglur og skilgreina leyfisferli eða sníða henni umhverfisstakk og aðlaga að vistkerfisnálgun. Þau brýnu verkefni þola ekki langa bið og verða að ná lendingu í samræmi við sjálfbæru orkustefnuna sem mörkuð hefur verið. Var það gert í tíð fyrri ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur eftir vinnu stórs þverpólitísks starfshóps. Næsta ríkisstjórn á að setja í forgang áframhaldandi vinnu við lög og reglur um vindorku og þátt hennar í fullum orkuskiptum, samhliða öðrum brýnum verkefnum sem hafa verið í vinnslu þingsins en eru nú í biðstöðu, m.a. í loftslags- og umhverfismálum.
Vegna núverandi stöðu orkumála verður í raun að slá því föstu að langt er í land með jöfnunarafl fyrir 10-15 vindorkuver; hvað þá tugi orkuvera.
Vindorkuver Landsvirkjunar eru þau einu er liggja fyrir í nýtingarflokki 4. áfanga rammaáætlunar en brátt mun verkefnastjórn 5. áfangans leggja fram tillögur um flokkun allnokkurra orkuvera til viðbótar handa Alþingi að fjalla um. Í raun er ekki vitað hér og nú hvernig þau, sem lenda í nýtingarflokki eftir vinnu faghópanna, falla að loftlagsmarkmiðum eða orkuskiptum okkar. Full orkuskipti felast í að fasa út rúmlega einni milljón tonna af innfluttu jarðefnaeldsneyti, fyrir árið 2040! Í þeim skiptum skilar hver 1 GWst raforku um 0,3 til 0,4 GWst af hreyfiorku til annarra tækja en þeirra rafhlöðuknúnu í samgöngum, þ.e. aðallega til tækja sem nýta rafeldsneyti.
Hvert vindorkuver þarfnast svokallaðs jöfnunarafls (þegar vindur er ónógur). Hér á landi er það vatnsafl. Má reikna með að vindorkuver með 100 MW uppsettu afli þurfi allt að 40 MW af jöfnunarafli. Fyrir 350 MW vindorkuver er talan 140 MW. Ver með 820 MW afli þarf um 300 MW til jöfnunar. Í núgildandi nýtingarflokki rammans (4. áfanga) er ekki mikið vatnsafl til reiðu. Talan er 312 MW, aðallega aflaukning orkuvera Landsvirkjunar. Endurmat orkukosta úr 3. áfanga (unnið af faghópum 5. áfanga) hefur verið umdeilt. Þar eru þrjár nýjar vatnsvirkjanir settar í nýtingarflokk með 240 MW uppsett afl. Samtalan er 552 MW og myndi t.d. henta sex vindorkuverum með 220 MW uppsett afl.
Allur vafi leikur reyndar á að Alþingi samþykki umrætt endurmat, þegar þar að kemur. Auk þess getur alls ekki allt nýtt vatnsafl orðið að jöfnunarafli m.a. vegna þess að veruleg þörf er á raforku á almennum markaði. Um það eru mörg dæmi, m.a. í matvælaframleiðslu og vegna nýsköpunarverkefna, fólksfjölgunar og rafvæðingu bílaflotans.
Vegna núverandi stöðu orkumála verður í raun að slá því föstu að langt er í land með jöfnunarafl fyrir 10-15 vindorkuver; hvað þá tugi orkuvera. Fjöldi vindorkuvera á pappír er augljóslega langt umfram grunnhugmyndir um brýna og sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda. Staðan ýtir því enn frekar á viðunandi lendingu laga og reglna frammi fyrir loftköstulum erlendra vindorkufyrirtækja. Full orkuskipti verða að nást – helst með megin orkufyrirtækin í samfélagseigu.
Frakkar framleiða um 200 sinnum meira með kjarnorku af raforku en á öllu Íslandi með gufu- og vatnsafli sem þýðir að okkar framleiðsla er nákvæmlega hálft prósent. Hvernig hefurðu hugsað þér að bjarga heiminum með rafmagni framleiddu hér á landi? Þú getur skoðað þessar upplýsingar á heimasíðum Orkustofnunar og Landsvirkjunar en þessar upplýsingar komu fram á ársfundi Landsvirkjunar fyrir nokkrum árum. Þá má benda á hugmyndir um stórtæk sólarorkuver í Sahara sem er mjög raunhæft en pólitíkin kemur í veg fyrir þau áform.
Það sem hér á landi er svo horft fram hjá er rafmagn unnið úr sólarljósi sem gæti að vissu leyti jafnað sveiflurnar úr vindorku. A.m.k. á sumrin er mun jafnara framboð á sólarljósi en á syðri slóðum þar sem kemur nótt à hverjum degi. Rafmagn úr sólarljósi er þar að auki ódýrasti kosturinn.
Þriðja stóðin væri svo vatnsaflið og þyrfti að nota þegar hinar tvær uppsprettur rafmagns eru ekki tiltæk. En þegar vindurinn blæs og sólin skín mættu uppistöðulónin fyllast en undanfarið hefur það gerst endurtekið að afköst vatnsaflsvera þurfti að takmarka vegna lágrar stöðu vatnsyfirborðs.
Nú, ef svo verður umframorka mætti leita lausna að nýta hana líka, búa til grænt vetni eða slíkt eftir því sem tæknin byður upp á.