Í frönskum stjórnmálum standa nú yfir deilur um lög um eftirlaun sem hækka eftirlaunaaldur og hægri sinnuð stjórnvöld settu en vinstri menn vilja afnema. Sams konar deilur hafa einnig komist á dagskrá, á öðru sviði en þó skyldu, þær varða atvinnuleysisbætur, sem sömu stjórnvöld vilja minnka á ýmsa vegu og mæta mikilli andspyrnu. Þetta er kunnuglegt í landslagi samtímans, eitthvað svipað mun vera upp á teningnum ef í aðrar áttir er litið.
Vissulega eru þetta mikilvæg málefni, því verður ekki neitað, og gefa tilefni til mikilla umræðna og frá alls kyns sjónarhornum, en ef menn vilja víkka sjónarsviðið blasir við að þessi atriði og fjölmörg önnur af sama tagi eru ekki annað en angar úr miklu djúpstæðara og víðtækara máli, sem menn skirrast þó við að horfast beint í augu við, og það er frjálshyggjan.
Hún er sá jarðvegur sem flestar deilur samtímans vaxa úr. Trúboðar hennar og loftungur tala stundum um „byltingu frjálshyggjunnar“, og þar hitta þeir naglann á höfuðið, sigur hennar víða um lönd var í raun og veru bylting. Þegar saga þessara tíma verður skrifuð hljóta sagnfræðingar að draga þar þykka línu og setja kaflaskipti, líkt og við upphaf stórstyrjaldar.
Peningar mælikvarði alls
Þessir atburðir, sem enginn hafði séð fyrir og enginn hefði getað ímyndað sér, umbyltu því sem áður hafði verið talinn grundvöllur mannlífsins. Þetta er hægt að skilgreina í fáum orðum. Fyrir byltingu frjálshyggjunnar var talið sjálfsagt að hlutverk stjórnvalda væri að sjá um velferð alls almennings, einkum með því að byggja upp það sem kallað var „velferðarkerfi“ og birtist í fjölbreyttum myndum – allir áttu að geta notið menntunar, búið við öryggi og þar fram eftir götunum.
En þegar byltingin var um garð gengin var þessu snúið á hvolf, nú áttu stjórnvöld – að svo miklu leyti sem einhver stjórnvöld voru enn við lýði – einungis að vera „business friendly“, eins og það var orðað. Þau áttu semsé ekki að gera annað en að ryðja úr vegi öllum hömlum fyrir því að menn gætu rakað saman sem mestum aurum hvað sem það kostaði samfélagið og umhverfið, gera hvort tveggja að óheftu veiðilandi fyrir óprúttnustu aflaklær.
Þessu fylgdi jafnframt kúvending á hugmyndinni um „manninn“. Á tímum velferðarþjóðfélagsins var gengið út frá því hugtaki sem lék stórt hlutverk í lögfræðinni að maðurinn sem þjóðfélagsvera væri, og ætti að vera, „bonus pater“, það er að segja „góður (heimilis)faðir“. Hann ætti fyrst og fremst að hugsa um velferð sinna nánustu, og hún var vitanlega ekki skilin frá velferð meðborgaranna. Góður heimilisfaðir vildi vitanlega ekki að fjölskylda hans þyrfti að lifa í þjóðfélagi sem mótaðist af því að stór hluti manna byggi þar við sárustu fátækt.
Í öllum málum var spurningin því sú, eins og lögfræðingar sögðu: hvernig myndi bonus pater bregðast við? (Femínistar myndu eflaust segja „bona mater“, en það kemur í sama stað niður.) En eins og hendi væri veifað varð bonus pater að hrökklast út af sviðinu, hann var ekki lengur annað en fornaldarvera sem gengin var sér til húðar, og í staðinn birtist alveg nýr maður: „homo oeconomicus“. Líf hans snerist einungis um peninga, þeir voru eina markmið lífsins, eða eins og tónskáldið mikla í sögu Ayn Rand sagði: „Ég geri ekkert nema fyrir peninga“, – og skyldi maður þó ætla að tónskáld væri manna ólíklegast til að hugsa út frá þessum nótum.
Það er líka til dæmis um umskiptin að eftir byltinguna var hægt að segja: „Landslag væri lítil virði ef ekki væri hægt að meta það til fjár“. Áður fyrr hefði hver sá maður verið talinn skiptingur sem þannig hefði komist að orði. Peningar voru nú mælikvarði alls, alfa og ómega tilverunnar.
Innihaldslaus vaðall
Sagnfræðingar eiga vafalaust eftir að verja bæði orku og mannviti í að velta fyrir sér hvernig þessi bylting gat vaðið yfir eyjar og meginlönd, nánast án mótspyrnu. Aðal frjálshyggjupostularnir sem frumkvöðlar byltingarinnar þreyttust ekki á að bera fyrir sig, Hayek og Friedman, voru afskaplega litlir andans menn og rit þeirra innihaldslaus vaðall sem þolir ekki minnstu gagnrýni, þeir blikna við hliðina á þeim sem oft hafa verið taldir hafa átt sinn þátt í að búa í haginn fyrir frönsku byltinguna, Voltaire og Rousseau.
Hayek hélt til dæmis fram þeirri kenningu sem frjálshyggjupostular jöpluðust sífellt á að hin minnstu afskipti ríkisvaldsins af atvinnulífinu, með því til dæmis að setja lög um sjúkratryggingar, myndu óhjákvæmilega leiða til „áþjánar“. Samkvæmt þessu hlytu velferðarríki eins og Svíþjóð að enda sem einræðisríki, þar sem allt frelsi væri afnumið, hver og einn þyrfti að dansa eftir pípu einhvers einræðisherra og andstæðingar hans væru skotnir í hnakkann í fangelsiskjöllurum klukkan sex að morgni. Þeir voru færri sem héldu að þetta hefði ræst í Svíþjóð, þótt Hayek væri eitthvað að tauta um lífsleiðann mikla þar í sveitum.
Bæði Hayek og Friedman verðféllu í hruninu og eru nú sjaldan nefndir, en upp úr því fóru frjálshyggjumenn að fleyta annarri kellingu, Ayn Rand, og hennar sorglega amfetamínþrugli, sem Bandaríkjamenn höfðu fram til þessa ekki talið hæft til útflutnings. En nú var það útblásið með slíkum dollaralúðrum að ég varð var við að sumir héldu að hún hefði fundið upp frjálshyggjuna. Þýðingar á verkum hennar voru kallaðar „bókmenntaviðburður“.
Barátta yfirstéttar
Út frá þeirri kenningu Marx að stéttabarátta leiki stórt hlutverk í framvindu sögunnar – sem menn geta aðhyllst án þess þó að ganga svo langt að halda að hún sé eini drifkraftur hennar – voru þessi umskipti auðskýrð.
Stéttabaráttan er nefnilega ekki aðeins verkföll og mótmælagöngur vinnandi fólks, hún er líka barátta yfirstéttar til að halda lágstéttunum niðri, halda „arðráninu“ við ef svo má segja og helst auka það. Þannig má skýra „byltingu frjálshyggjunnar“ sem byltingu auðkýfinga gegn efnaminni mönnum, byltingu til að snúa hjólum sögunnar við, afnema velferðarþjóðfélagið og ná aftur þeim sneiðum kökunnar sem auðjarlarnir höfðu misst úr sínum hvolfti meðan það var við lýði.
Þá vaknar kannske sú spurning hvers vegna þessi bylting skall ekki fyrr á, hvers vegna velferðarþjóðfélaginu var leyft að eflast áratugum saman, – í Bandaríkjunum fóru auðkýfingar strax eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari að ráðast gegn þeim miklu umbótum sem Roosevelt hafði komið á í kjölfar heimskreppunnar. En því er til að svara að á seinni hluta fjórða áratugarins, eftir eina heimsstyrjöld og alheimskreppu þegar fyrsti grundvöllur velferðarþjóðfélagsins var lagður í Svíþjóð og svo í Frakklandi með „alþýðufylkingunni“, var kapítalisminn rúinn allri æru, almenningur leit svo á að hann væri endanlega genginn sér til húðar, og menn höfðu nokkuð skýrar hugmyndir um hvað þyrfti að gera.
Ekki batnaði staða kapítalismans eftir heimsstyrjöldina síðari. Þá hafði almenningur sums staðar, til dæmis í Englandi, reyndar fengið í nokkur ár að njóta góðs af því sem kalla mætti „stríðs-velferðarkerfið“. Við það má svo bæta að óttinn við „kommúnisma“ var talsvert útbreiddur meðal yfirstéttar, hann var meira en kosningabrella. Ég varð var við að á Íslandi komu vel efnaðir menn saman á síðkvöldum og hræddu hver annan með sögum um „hvað gæti gerst“.
Velferðarþjóðfélagið reis og dafnaði
Í þessu andrúmslofti reis svo velferðarþjóðfélagið og dafnaði. Einu deilurnar voru þá þær hvaða leið væri betri til að byggja það upp, kommúnismi eins og í Austur-Evrópu eða sósíalismi sem hæst reis í norðurhluta álfunnar, og þar stóð sósíalisminn með pálmann í höndunum.
Trúin á kommúnismann var óvíða sterk nema helst í þeim tveimur löndum þar sem ég hef alið minn aldur, Íslandi og Frakklandi. (Andstaðan gegn Nató í Frakklandi, sem var varla minni á hægri vængnum, byggðist þó ekki síst á þeirri trú að Frakkar væru stórveldi og ætti ekki að láta neitt hernaðarbandalag binda hendur sínar.)
Einu sinni í fyrndinni, þegar ég sat við fótskör Einars Olgeirssonar og las „Kommúnistaávarpið“ undir leiðsögn hans, rakti hann rök kommúnista gegn stefnu sósíaldemókrata: „Þeir segja við þá: ef þið ætlið að byggja upp sósíalisma með lýðræðislegum aðferðum og komast eitthvað áleiðis, verður það auðvaldið sem gerir byltingu gegn ykkur.“
En þetta sagði hann ekki í sínu nafni, hann vildi aðeins herma rök „kommúnista“, og maður hafði á tilfinningunni að hann tæki kenningunni með fyrirvara, honum leist varla svo á að íslenskt „auðvald“ væri þesslegt að rísa upp á afturfæturna og gera mikla „byltingu“.
Bylting frjálshyggjunnar
En það sem Einari Olgeirssyni þótti sennilega ekki vera á dagskrá gerðist samt, tíma velferðarþjóðfélagsins lauk með „byltingu frjálshyggjunnar“ og þannig var það orðalag sem leiðtogi íslenskra sósíalista lagði „kommúnistum“ í munn nánast orðið að sigurópi frjálshyggjumanna. Og það er varla tilviljun að þessi bylting skall á um leið og hættan af „kommúnisma“ virtist endanlega úr sögunni og einu vopn stéttabaráttunnar voru verkföll og mótmælagöngur, í meiri og minni einangrun, sem valdhafar gátu barið niður með kylfum eða einfaldlega hunsað.
Skattaskjól – eða paradís
Allt þetta geta sagnfræðingar framtíðarinnar rakið, og síðan kemur það í þeirra hlut að lýsa því hvernig þessi „bylting“ fór fram. Þeir munu vafalaust benda á að hún gerðist þegar kapítalisminn var orðinn mun öflugri en áður, hann var ekki lengur staðsettur að mestu leyti innan vébanda þjóðríkisins þar sem lýðræðisleg stjórnvöld réðu lögum og lofum, hann var orðinn „alþjóðlegur“ í mun meiri mæli en nokkurn tíma áður, með „fjórfrelsinu“ svokallaða var svo komið að fjármálastofnanir þekktu ekki lengur nein landamæri, og nýtt fyrirbæri var farið að grafa um sig, hin svokölluðu „skattaskjól“ sem betur er lýst með franska heitinu „skattaparadís“.
Við þessar aðstæður var svo komið að hægt var að beita ýmsum alþjóðastofnunum sem tækjum til að ryðja frjálshyggjunni braut, til dæmis Evópusambandinu, með sífelldum fyrirskipunum um meiri einkavæðingar, – svosem á samgöngutækjum, hraðbrautum, járnbrautum, höfnum og flugvöllum, sem þó hafa ekki enn fengið fram að ganga að öllu leyti (sú einkavæðing flugvalla sem var á dagskrá í Frakklandi var sett í frysti vegna andstöðu almennings). Þessi öfl voru sterkari en nokkur ríkisstjórn, dæmi um það er hvernig hraklega var farið með Grikki. Með aðstoð alþjóðastofnana var einnig hægt að framkvæma eitt markmið kenningasmiða frjálshyggjunnar, að breyta reglunum þannig að stefna þeirra festist endanlega í sessi og yrði óafturkræf.
Dæmi um þetta var hin svokallaða „stjórnarskrá“ Evrópu, sem var alls ekki neitt í líkingu við það sem kallast stjórnarskrá á mannamáli, texta sem inniheldur einungis leikreglur lýðræðisþjóðfélags, heldur hafði hún fyrst og fremst að geyma blýfastar og ítarlegar reglur þjóðfélags frjálshyggjunnar, semsé efnahags- og þjóðfélagsstefnu sem þingmenn og ráðherrar eiga þó að ákveða en ekki stjórnarskrá. Þessari stjórnarskrárnefnu höfnuðu Frakkar í þjóðaratkvæðagreiðslu, og Hollendingar líka. En þá brást stjórn Evrópusambandsins við á þann hátt að setja þennan sama texta fram, nánast óbreyttan, í því sem kallað var „Lissabon-samþykktin“ og fá leiðitöm þjóðþing til að samþykkja hana. Þannig var frjálshyggjan svo að segja lögfest með því að þverbrjóta reglur lýðræðisins. Við þessu gátu lýðræðisleg stjórnvöld engar skorður sett þó svo þau hefðu haft allan hug til þess.
Í fyrstu virðist almenningur ekki hafa áttað sig á þessari kúvendingu, sennlega af því að mönnum fannst velferðarþjóðfélagið svo sjálfsagt í heild sinni að þeim datt ekki í hug að nokkur vildi kollsteypa því. Því var auðvelt fyrir kæna áróðursmeistara að fá menn til að trúa því að nýjungar til dæmis í heilbrigðiskerfinu sem stefndu að því að brjóta það smám saman niður, stefndu einungis að því að laga galla þess, endurbæta það eða tryggja framtíð þess.
Eyðilegging náttúru
Afleiðingarnar af þessari byltingu geta menn nú séð hvert sem litið er. Þær birtast í hinni nýju stétt ofurauðkýfinga sem sölsa sífellt undir sig meiri og meiri auð, stærri og stærri skerf af sameiginlegum eignum alls mannkyns. Það geta menn oft séð tölfræðilega í fjölmiðlum, og er þetta botnlausa peningatrekk aurasjúklinga svo yfirgengilegt að það veldur varla nokkurri öfund. Menn góna einungis á tölurnar í forundran og spyrja: hvað geta þessir veslings menn gert við alla þessa peninga? (Einfalt svar væri: þeir geta ekkert gert að gagni, peningarnir eru einungis orðnir eiturlyf. Fram að vissu marki getur maður átt peninga, eftir það eiga peningarnir manninn.)
En afleiðingarnar koma einnig í ljós í hinni yfirgengilegu eyðileggingu náttúrunnar, – sem leiðir beint af þeirri kenningu að til að hún sé einhvers virði þurfi að koma henni í peninga, það þurfi að virkja hverja ársprænu, fylla forsal vinda af vindrafstöðvum og svo framvegis, og svo framvegis.
En margt fleira hangir á spýtunni, eitt er sú eyðilegging sem stafar af loftslagsbreytingum og blasir nú við ef menn vilja horfa, en svo er eyðilegging sem er kannske enn alvarlegri þessa stundina, en það er hvernig náttúran er alls staðar að mettast af hinum fjölbreyttustu eiturefnum, ekki aðeins skordýraeitri sem veldur því að skordýr og fuglar týna tölunni í svo miklum mæli að í óefni stefnir, heldur líka efnum sem eru meðal annars í snyrtivörum, og hafa hin skaðlegustu áhrif á mannslíkamann, svo sem á frjósemi.
Eitur rósanna
Í þessum skrifuðu orðum segja fjölmiðlar frá konu sem missti dóttur sína á táningsaldri úr hvítblæði. Hún var blómasölukona meðan hún gekk með barnið og síðan hafði hún dótturina hjá sér í búðinni. En nú hefur komið í ljós að þessi skrautblóm, sem voru að langmestu leyti ræktuð utan Frakklands, voru mettuð af alls kyns skordýraeitri, og sannað er að það eru þessi eiturefni sem eru völd að hvítblæðinu. En um þetta hafði konan ekki minnstu hugmynd meðan hún seldi brosandi sínar fögru rósir með litlu stúlkuna sér við hlið.
Framleiðendur eiturefna hafa verið duglegir við að koma í veg fyrir að þau séu bönnuð eða notkun þeirra takmörkuð á raunhæfan hátt, hverslu miklar sannanir komi fram um skaðsemi þeirra. Svo er hægt að sneyða hjá öllum hömlum með því að flytja inn vörur frá löndum þar sem engar reglur gilda um eiturefni, því ekki má blaka við „frjálsri verslun“, hún er nú hin helgasta kýr allra heilagra kúa, hversu mikill skaði sem af henni kann að verða.
En það er áreiðanlega ekki tilviljun að bylting frjálshyggjunnar reið yfir þegar menn voru farnir að gera sér grein fyrir loftslagsvánni og ljóst var að nú voru ráðin dýr. Þá sáu forkólfar frjálshyggjunnar sína sæng upp reidda, baráttan gegn vandanum myndi óhjákvæmilega skerða til muna þeirra ofsagróða. Síðan hafa þeir unnið ötullega að því að koma í veg fyrir allar raunhæfar aðgerðir. Stjórnmálamenn eru að vísu duglegir í að gefa hástemmdar yfirlýsingar um umhyggju sína fyrir náttúrunni, en lítið verður úr efndum. Orðin eiga á hættu að renna beint niður með sopanum.
Síaukin harka samfélagsins
En afleiðingar byltingarinnar birtast á enn öðru sviði. Það er hin síaukna harka sem færist í allt mannlíf, og er vafalaust rökrétt samskiptaform þegar það eru homines oeconomici sem ráða ferðinni og segja hátt eða í hljóði: „Ég geri ekkert nema fyrir peninga“.
Eða þá, eins og hótelstýra sagði þegar ég fékk henni í hendur lykla sem ferðamaður hafði óvart gleymt í vasanum þegar hann kvaddi sitt herbergi á öðrum stað morguninn áður og bað hana að koma þeim til skila: „Hvað koma mér önnur hótel við?“ Fram að þessu hafði það verið eðlileg samhjálp milli hótelstjóra að senda sín á milli óskilahluti.
Hörkuna geta menn fundið þegar þeir þurfa til dæmis að leita á náðir heilbrigðiskerfisins, sem nú er sífellt verið að brjóta niður: Þessi þróun er svo hliðstæð á Íslandi og í Frakklandi að ef ekki væru sérnöfn í fréttunum gæti maður illa áttað sig á því hvaðan úr landi þær koma.
Til þess er leikurinn vitanlega gerður að einkavæða að lokum heilbrigðiskerfið, eða þá hluti þess sem einhver leið er til að græða á. Sama gildir um skólakerfið, markmiðið er líka að einkavæða sem mestan hluta þess.
En á bak við þetta allt er líka skelfileg ólund auðkýfinga yfir því fé sem fer í félagsmál, þeim finnst að því sé af þeim stolið, eða eins og þeir segja: „Það eru ekki til neinir atvinnuleysingjar, það eru bara menn sem nenna ekki að vinna og með því að greiða þeim bætur er bara verið að mæla upp í þeim letina. (það er líka kallað „ríkisstyrkt fátækt“), ÉG á að fá peningana, ÉG er duglegastur í samkeppninni, ÉG er hæfust aflakló. ÉG verð ofan á í náttúruvalinu.“
Leita nýrra lausna
Í þessu nýja ástandi hefur almenningur stundum brugðist við með aukinni samhjálp á vettvangi grasrótarinnar, það eru eðlileg viðbrögð og í anda þess sem Laozi sagði forðum daga: „Þegar menn yfirgefa hinn mikla Veg, koma fram velvild og réttlæti“. Þegar menn fara að níðast, löglega, á veikum börnum, vaknar bonus pater aftur, menn sem vilja standa vörð um velferð þeirra birtast á vettvangi.
En stjórnmálamenn á vinstri vængnum verða að leita róttækari ráða, og í Frakklandi er nú boðuð lausn: að hverfa aftur til sósíaldemókratískrar stjórnar- og efnahagsstefnu. Í ræðum og ritum sumra ber þetta hæst. En því miður eru þetta villigötur. Velferðarþjóðfélag í anda sósíalisma var mikilvægt augnablik í sögu Vesturlanda, en það augnablik er liðið og kemur ekki aftur. Staðan er gerólík þeirri sem var á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar, kapítalisminn hafði þá aðra ásjónu og þau vandamál sem nú eru brýnust voru þá óþekkt með öllu.
Að sumu leyti má líta aftur, til dæmis með því að láta skaðlegustu einkavæðingarnar ganga snarlega til baka, en svo verður að horfa fram á við og leita nýrra lausna, leita að hugsunum sem enn hafa ekki verið hugsaðar.
Athugasemdir