Barnabarn Önnu Láru Pálsdóttur er eitt þeirra barna sem liggur illa haldið á spítala eftir að E.coli-sýking kom upp á leikskólanum Mánagarði um miðjan október. Hún segir að um enga magakveisu sé að ræða, börnin séu bókstaflega að berjast fyrir lífi sínu.
Tugir barna eru enn veik vegna sýkingarinnar. Nokkur börn hafa veikst alvarlega og verið lögð inn sjúkrahús. Í gær lágu ellefu börn inni á barnaspítala Hringsins með E.coli, þar af fjögur alvarlega veik á gjörgæslu.
Fyrr í dag var greint frá því að sýkinguna mætti rekja til blandaðs nautgripa- og kindahakks frá Kjarnafæði sem notað hafði verið í hakk og spagettí.
„Það er búið að stinga og pota svo mikið í hann“
„Pétur Helgi er búinn að vera með blóðugan niðurgang í tvær vikur og það er gríðarlegt álag á lítinn kropp. Hann hefur verið í nokkurskonar gjörgæslu sl. vikuna þar sem lífsmörk eru tekin á fjögurra tíma fresti allan sólarhringinn og blóðgildi lesin á tólf tíma fresti.
Hann hefur verið með magakrampa og uppköst, hefur nánast ekkert nærst en stöðugt með vökva og glúkósa í æð. Það var hryllingur að koma æðaleggnum upp því hann var orðinn svo þurr og má varla orðið snerta barnið án þess að hann kveinki sér því það er búið að stinga og pota svo mikið í hann. Nýrnastarfsemin hefur verið skert og vökvagjöfin þar af leiðandi safnast upp í bjúg um allan líkamann. Litlu hendurnar hans litu orðið út eins og uppblásnir latexhanskar,“ skrifaði Anna Lára á Facebook fyrr í dag.
Tæpt að drengurinn færi á gjörgæslu
Pétur Helgi hefur ekki enn þurft að fara á gjörgæslu. „En það hefur verið tæpt nokkrum sinnum,“ segir Anna Lára í samtali við Heimildina. „Á laugardaginn síðasta þá mælist að hann er kominn með HUS [Hemolytic–uremic syndrome] – sem er afleiddur sjúkdómur frá bakteríunni sem að leggst á nýrun.“
Nokkrum dögum eftir að hann veiktist var Pétur Helgi lagður inn á spítala í sólarhring. Eftir það var hann í reglulegu eftirliti. Þegar hann greindist með HUS um helgina þurfti að leggja drenginn inn og hann hefur verið mjög veikur. „Þetta eyðileggur líka blóðflögurnar. Svo hann er búinn að fara þrisvar í blóðgjöf með stuttu millibili,“ segir Anna Lára.
Hún segir að í hvert skipti sem lesa þurfi blóðgildi drengsins taki óttinn yfir um það hvort nú eigi að leggja drenginn inn á gjörgæslu þar sem börn eru sett í blóðskilun til að létta á nýrunum. En sýkingin getur haft í för með sér varanlega nýrnabilun og jafnvel dauða. „Þið getið rétt ímyndað ykkur angist og örvæntingu foreldranna við að horfa upp á barnið sitt svona veikt,“ skrifaði Anna Lára á Facebook.
Börnunum líði illa og geti varla tjáð sig
Hún segir við Heimildina að enn séu börn að bætast við á spítalanum. „Það bættist við eitt barn í innlögn í fyrradag síðast. Þetta eru svo langvinn veikindi. Þau eru svo lengi að malla.“
„Börnunum líður svona hryllilega illa og geta varla tjáð sig. Þetta er bara hryllingur.“
Anna Lára segir álagið vera rosalegt á fjölskyldur þeirra barna sem eru mjög veik. „Alveg gríðarlegt.“ Spurð hvernig hennar fjölskylda hafi það segir Anna Lára að fólk bregðist mismunandi við. „[Foreldrarnir] þau eru bara búin að vera að troða marvaðann þarna inni á spítala að horfa á barnið sitt svona veikt.“
Þriggja ára stúlka sem var með Pétri Helga í herbergi á spítalanum er nú komin á gjörgæslu. Nú er enn yngri stúlka, sem Anna Lára heldur að sé um tveggja ára, komin í hennar stað. „Hún er svo lítil. Börnunum líður svona hryllilega illa og geta varla tjáð sig. Þetta er bara hryllingur.“
Annað sem taki á sé biðin á eftir niðurstöðum og því sem í rauninni gerðist. „Því maður fer í raun í gegnum áfall. Það er sjokk og hræðsla og svo kemur reiðin og þá vill maður vita hvað gerðist eiginlega. Af hverju er barnið ekki öruggt á leikskólanum sínum? Hvernig getur þetta gerst? Þetta á ekki að geta gerst.“
Finnst að leikskólinn ætti að biðjast afsökunar
Anna Lára er óánægð með það hvernig viðbrögð leikskólans hafa verið eftir að sýkingin kom upp. Henni þykja yfirlýsingar frá Mánagarði vera á þá leið að starfsfólkið sé í áfalli og þakki foreldrum stuðninginn, líkt og þau væru fórnarlömbin.
„Mér finnst bara stuða – allavega mitt fólk – svolítið að það sé einhvern veginn verið að sækja sér svolitla vorkunn. Að þau séu í áfalli og þau séu að sækja sér stuðning hjá foreldrum. Þau eiga bara að vera auðmjúk og biðjast afsökunar og að hugur þeirra sé hjá börnunum og foreldrum þeirra.“
Að lokum segir Anna Lára að sér þyki mikilvægt að málið verði upplýst og að umræða um það fari fram. „Þannig að þetta gerist ekki aftur – þannig að það sé passað upp á svona hluti. Þetta er bara svo rosalegt að þetta skuli hafa gerst inni á leikskóla. “
Athugasemdir (1)