Thomas J. Jordan, formaður bankaráðs svissneska seðlabankans velti fyrir sér hvað myndaði traustan gjaldmiðil (e. sound money) í ræðu árið 2020. Viðhorf hans taka að sjálfsögðu mið af aðstæðum í Sviss sem er mjög auðugt land með stórt og öflugt alþjóðlegt bankakerfi, samt sem áður á greining hans fullt erindi til annarra landa. Hann rifjar upp þríþætt hlutverk peninga; þeir eru skiptimiðill í viðskiptum, reiknieining og geymsla fyrir verðmæti. Gjaldmiðill sem sinnir þessum hlutverkum vel er traustur gjaldmiðill. Hann bendir á að traustur gjaldmiðill er mikilvæg undirstaða fyrir nútímahagkerfi, fyrir hagkvæm viðskipti og þjóðfélagslegan stöðugleika.
Stöðugleiki yfir langt tímabil er forsenda fyrir traustum gjaldmiðli. Það þýðir að kaupmáttur hans helst gegnum tíðina án verðbólgu eða verðhjöðnunar. Í ræðunni gerir hann greinarmun á seðlabankafé og bankafé sem hringrása saman í hagkerfinu. Seðlabankafé er undir stjórn seðlabankans og samstandur einkum af seðlum og mynt ásamt innstæðum bankakerfisins. Bankafé eru einkum innstæður í bönkum. Almenn viðskipti gerast að mestu gegnum bankafé þótt innstæður í bönkum séu ekki lögeyrir. Viðskiptamenn bankanna verða að geta treyst því að geta jafnan breytt innstæðum sínum í reiðufé jafnframt því að fá betri ávöxtun með innstæðum í banka en söfnun reiðufjár.
Það er ljóst að traustur gjaldmiðill byggir ekki síst á traustu og vel fjármögnuðu bankakerfi. Í lok ræðu sinnar undirstrikar T. H. Jordan mikilvægi umgjörðar peningastefnunnar til að viðhalda traustum gjaldmiðli. Meginstoðir eru seðlabanki með áherslu á verðstöðugleika og fullt sjálfstæði til að móta peningastefnuna og heilsteypt ríkisfjármál. Sama hvaða peningastefna er valin þá verður að tryggja stöðugleika í ríkisfjármálum og á fjármálamörkuðum ásamt frjóum jarðvegi fyrir hagvöxt og efnahagslegar framfarir.
Íslenska krónan
Traustur gjaldmiðill hefur ekki verið ofarlega á blaði hjá íslenskum stjórnvöldum. Sveigjanleg króna sem lagar sig að „íslenskum veruleika“ er talinn besti valkosturinn. Verðbólgumarkmið var tekið í notkun hérlendis árið 2001. Engin reynsla af notkun þess í örhagkerfum lá þá fyrir. Til að verðbólgumarkmið virki þarf meðal annars öflugan fjármagnsmarkað en það er ekki reyndin í örhagkerfum. Ísland er mjög háð innflutningi á flestum tegundum vöru og þjónustu meðan útflutningur er tiltölulega fábreyttur. Við þessar aðstæður er verðlag mjög háð gengi gjaldmiðilsins og verðbreytingum á mikilvægum aðföngum svo sem olíu.
„Til að verðbólgumarkmið virki þarf öflugan fjármagnsmarkað en það er ekki reyndin í örhagkerfum“
Kaupmáttur krónunnar hefur rýnað um kringum 70% prósent frá því að verðbólgumarkmiðið var innleitt árið 2001. Þetta þýðir að fyrir þúsundkrónuseðil sem menn eignuðust árið 2001 er nú aðeins hægt kaupa um þriðjung af þeirri vöru og þjónustu sem hægt var að fá árið 2001. Á línuritinu sést gengisvísitala krónunnar frá árinu 2001. Aðrir mælikvarðar svo sem raungengi eða verðlagsvísitala sýna sama óstöðugleika. Að vísu er stefnt að lítilsháttar árlegri verðrýrnum í verðbólgumarkmiðinu. Samt sem áður er ljóst að krónan er óstöðugur gjaldmiðill á alla mælikvarða og fjarri því að geta talist traustur gjaldmiðill.
Vandamálið virðist ekki liggja í útfærslu Seðlabankans á verðbólgumarkmiðinu með seinni tíma viðbótum. Að vísu er Seðlabankinn nú að berjast við háa verðbólgu með háum stýrivöxtum, verðbólgu sem hann átti drjúgan þátt í að mynda á Covid tímanum. Hvorki matsfyrirtæki né Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa í úttektum sínum gagnrýnt útfærslu peningastefnunar. Óstöðugleikinn í peningakerfinu endurspeglar því undirliggjandi óstöðugleika í hagkerfinu, ekki síst vegna ósamstíga fjármála hins opinbera. Verðbólgumarkmiðið veitir einfaldlega ekki neina viðspyrnu gegn óstöðugleikanum og vafasamt að það breytist í framtíðinni.
Þá vaknar spurningin hvaða aðrir möguleikar eru í stöðunni. Hér liggur beinast við að taka upp evru eftir inngöngu í Evrópusambandið. Með því fæst traustur gjaldmiðill sem afnemur þá miklu viðskiptahindrun sem krónan er og lækkar viðskipta- og vaxtakostnað. Mörg útflutningsfyrirtæki gera nú þegar upp í evrum eða dal og ná fjármögnun á lágum vöxtum erlendis. Breytingin við upptöku evru kemur því aðallega almenningi og smærri fyrirtækjum til góða. Eftir inngöngu í Evrópusambandið tekur við amk tveggja ára bið í biðsal evrunnar. Hægt er að innleiða evru strax með því að taka upp myntráð við evru og hraða þannig aðlöguninni að traustum gjaldmiðli. Danir hafa verið mjög lengi í biðsal evrunnar en þeir hafa fasttengt dönsku krónuna við evru og stýrt hagkerfinu kringum fastgengið með frábærum árangri sem er til eftirbreytni.
Hér verður ekki rætt um aðra kosti (eða galla) fullrar aðildar að Evrópusambandinu. Aðeins skal minnt á að með inngöngu opnast möguleikar á aðgengi að fjármagni til að gera stórátak í byggða- og samgöngumálum. Kröftug innviðauppbygging um allt land er löngu tímabær og full aðild að Evrópusambandinu auðveldar slíkt átak.
Niðurstaða
Innleiðing á traustum gjaldmiðli með upptöku evru ásamt fullri aðild að Evrópusambandinu þjónar best hagsmunum þjóðarinnar. Traustur gjaldmiðill auðveldar fyrirtækjum og heimilum að skipuleggja fjárhag sinn. Viðskiptakostnaður minnkar og vaxtastig færist nálægt því sem gerist í Evrópusambandinu. Árangurinn verður sterkara samfélag og efnahagslegar framfarir.
Höfundur er stjórnmálahagfræðingur.
Athugasemdir (1)