Snorri Másson fjölmiðlamaður er nýgenginn í Miðflokkinn og sækist eftir oddvitasæti í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna í komandi alþingiskosningum. Hann segist hafa orðið sympatískari gagnvart formanni flokksins eftir því sem hans innri maður kom betur í ljós. Hann ætti heima í Miðflokknum og þessi niðurstaða sé því eðlileg.
Snorri var einn viðmælanda Ragnhildar Þrastardóttur í nýjasta þætti Pressu í hádeginu. Auk hans sátu Lenya Rún Taha Karim, oddviti Pírata í Reykjavík norður, og Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, fyrir svörum.
„JD Vance er flottur gaur“
Snorri sagði að hann hefði framan af hallast til vinstri frekar en til hægri í stjórnmálum. „Svo rjátlast þetta af manni eins og á að gerast. Þá var ég alltaf framan af svolítið vondur við Sigmund Davíð. Og svo kannski sífellt sympatískari gagnvart Sigmundi Davíð eftir því sem minn innri maður kom betur í ljós gagnvart sjálfum mér og hugmyndafræðin þvoðist af mér.“
Þáttarstjórnandi svaraði Snorra að hann hljómaði þarna svolítið eins og JD Vance, varaforsetaefni Donalds Trump í forsetakosningunum bandarísku.
„Ég meina, JD Vance er flottur gaur,“ sagði Snorri. „Svona áður en ég veit af er ég sammála Sigmundi Davíð í einu og öllu. Þetta er eitthvað sem margir í samfélaginu hafa lent í. Það er þessi innri miðflokksmaður sem brýst fram og það gerðist hjá mér. Ég á heima í Miðflokknum.“
Snorri segir að það hefði komið sér einlæglega óvart hversu mikill strúktúr væri í flokknum og meðlimir hans fjölbreyttir. „Ég er ekkert að ganga inn í eitthvað hylki utan um Sigmund Davíð. Þetta er bara alvöru stjórnmálaflokkur. Mín sýn, ef við förum út í það, er það að gera Miðflokkinn að nýja breiða aflinu í íslenskum stjórnmálum.“
Klaustursmálið: Óeðlilegt að hlera fólk
Þegar hann var spurður út í Klaustursmálið, sem bæði Bergþór Ólason og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru viðriðnir, sagði Snorri að hann fordæmi tal líkt og þar var haft uppi. „Ég myndi aldrei hafa svona orð uppi enda höfðu þeir ekki þessi orð uppi opinberlega. Þetta er í einhverju fylleríi á bar. “
Hann segir þó að tvær grímur hafi farið að renna á fólk eftir því sem tíminn leið um það hve eðlilegt sé að hlera fólk og birta svo gögnin opinberlega.
Finnst þér það vera stóra málið í þessu - að þeir hafi verið hleraðir en ekki orðræðan sem þeir fóru fram með?
„Það er stór angi á þessu máli. [...] Ég tel að flest af þessu hafi ekki átt erindi við almenning ef það er fengið eftir þessum leiðum. Ég er alveg á því.“
Horfa má á nýjasta þátt Pressu í heild sinni hér að neðan:
Athugasemdir (3)