Fyrir rétt rúmu ári síðan sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, sem þá var nýhættur sem fjármálaráðherra og tekinn við sem utanríkisráðherra, að hann hefði ekki séð sér annan kost í stöðunni en að sitja áfram við ríkisstjórnarborðið þrátt fyrir afsögn sína úr embætti fjármálaráðherra eftir álit umboðsmanns Alþingis um söluna á Íslandsbanka.
Ríkisstjórnin hafi viljað senda út skilaboð um að hún „standi saman og veiti pólitískan stöðugleika á tímum efnahagslegrar óvissu og efnahagslegs óstöðugleika“.
„Til þess að vera trúr þeirri sannfæringu og þeim skilaboðum mat ég það einfaldlega þannig að ég ætti í reynd ekki annan valkost en að sitja áfram við ríkisstjórnarborðið og þá í nýju embætti. Það er það sem ég er að gera,“ sagði Bjarni.
Ári síðar, nánast upp á dag, boðaði Bjarni til blaðamannafundar með 40 mínútna fyrirvara. Aftur sá hann sér bara einn kost í stöðunni, þveröfugan þeim sem hann hafði séð ári áður. …
Þá hefur Bjarni verið mjög áhugasamur við einkavæðingu og sölu opinberra eigna. Segja má að VG hafi staðið vel að koma í veg fyrir öll þau áform en látið Bjarna eftir að selja hluti í Íslandsbanka sem einungis þeir sem efnaðir eru geta keypt. Þannig vinnur Sjálfstæðisflokkurinn að auknu misrétti í samfélaginu.
Helst er að Sjálfstæðisflokkurinn eigi í samkeppni við Miðflokkinn. Sigmundur Davíð stendur ekki langt að baki Bjarna sem stjórnmálarefur. Hann slær um sig og hefur dygga aðstoðarmenn við að rugla landsmenn sem mest í ríminu. Hann segir eitt en framkvæmir allt annað. Sagt var um slíka menn að þeim yrði margsaga. En svo virðist sem tiltölulega fáir átta sig á þessum eiginleikum hans.
Við Íslendingar verðum að gera okkur grein fyrir því að við eigum að krefjast meiri heiðarleika meðal stjórnmálamanna. Þá þarf að gagnrýna þegar þeir taka augljóslega rangar ákvarðanir en þær eru býsna oft teknar.