Fyrir það fyrsta þá er Össur Skarphéðinsson ekki leiðarljós í mínu lífi,“ svarar Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri grænna, spurður út í þær kenningar að flokkur hans hafi orðið af tækifærinu til að slíta stjórnarsamstarfinu og auka með því fylgi sitt.
Össur, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, viðraði í gær þá skoðun sína að það hafi verið „afleikur“ hjá Svandísi Svavarsdóttur, formanni VG, að storka Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, með því að núa honum því um nasir að flokkurinn ætlaði sér að slíta samstarfinu þegar honum hentaði. „Við þessar aðstæður átti Bjarni í reynd engan kost annan en slíta ríkisstjórninni strax,“ skrifaði Össur á Facebook í gær. „Yfirlýsingar Svandísar knúðu í reynd Bjarna til að hrista loksins af sér slyðruorðið, taka frumkvæðið – og slíta stjórninni á undan henni. Þetta var grófur afleikur hjá Svandísi. Hún virðist hafa verið slegin algerri skákblindu, því í stöðunni átti Bjarni engan annan kost en rjúfa stjórnarsamstarfið. Svandís hrinti honum út í þá ákvörðun. Hann hefur þá fullkomnu afsökun að yfirlýsingar nýs formanns Vg gerðu hana einfaldlega óstjórntæka – og þarmeð hennar flokk.“
Össur er að vísa til þess að á landsfundi Vinstri grænna nýverið hafi verið samþykkt ályktun þess efnis að stjórnarsamstarfið væri komið að leiðarlokum og að flokkurinn sæi fyrir sér kosningar í vor. Orri ítrekar þetta þegar hann er spurður hvort að ekki hefði verið betra fyrir Vg að slíta en að láta Sjálfstæðisflokki það eftir „Það eru auðvitað tímamót að Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur fram til þessa kallað sig kjölfestuna í íslenskri pólitík skuli slíta stjórnarsamstarfi. Það eru fréttir út af fyrir sig.“
Hann segist hafa skilið orð bæði Svandísar og Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins - hinna tveggja oddvita ríkisstjórnarinnar - að ákvörðun Bjarna í gær hafi ekki verið í samræmi við þau samtöl sem þau áttu deginum áður. „Þannig að þetta kemur á óvart.“
Athugasemdir