Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur tilkynnt formönnum hinna stjórnarflokkanna að hann hyggist leggja tillögu um þingrof fyrir forseta. Þingkosningar verði því í lok nóvember. Forsætisráðherra telur þetta farsælast bæði fyrir þjóðina og fyrir stjórnarflokkana.
Þetta sagði Bjarni á blaðamannafundi í Stjórnarráðinu rétt í þessu. Enn á eftir að koma í ljós hvort skipuð verði starfsstjórn eða hvort núverandi ríkisstjórn muni sitja áfram fram að kosningum.
„Þetta er ákvörðun sem að ég hef tekið eftir mikla ígrundun,“ segir Bjarni. Hann kynnti formönnum stjórnarflokkanna um ákvörðun sína fyrr í dag.
Bjarni segir að þegar hann hafi tekið við sem forsætisráðherra í vor hafi ríkisstjórnin lagt upp með það að leggja megináherslu á efnahagsmálin, hælisleitendamálin og orkumálin. Ýmislegt hafi unnist í þessum málaflokkum og Bjarni segir að það hafi verið rétt að halda ríkisstjórnarsamstarfinu áfram í vor.
Ágreiningur um grundvallarmál
„Þegar komið er inn á haustið hins vegar, þá fer vaxandi ágreiningur milli stjórnarflokkanna um ákveðin grundvallarmál.“ Ágreiningur sé uppi um aðgerðir í hælisleitendamálum. „Það hefur verið opinbert,“ segir Bjarni. Þá hafi lengi verið ágreiningur í stjórninni um framtíðarsýn varðandi orkunýtingu.
„Þegar ég lít víðar yfir sviðið og skoða önnur þau mál sem hefði verið mikilvægt fyrir ríkisstjórnina að klára fyrir kosningar, þá sé ég ekki fram á það að við náum niðurstöðu sem getur verið ásættanleg fyrir stjórnarflokkana samanlagt.“ Slík mál séu til dæmis lagareldið.
Spurður hvort að eitthvað korn hafi fyllt mælinn segir Bjarni að hann myndi ekki vilja nálgast málið þannig. „Um ákveðin grundvallarmál er ólík sýn. Allt frá utanríkisstefnu yfir í hælisleitendamál. Orkumálin.“ Hann nefnir einnig ólíka framtíðarsýn VG sem hafi orðið greinileg eftir landsfund þeirra nýlega. Bjarni segir að best sé að ríkisstjórn hafi sameiginlega sýn, því segir hann að farsælast sé að ganga til kosninga.
Talsvert hefur verið rætt um framtíð stjórnarsamstarfsins síðustu daga en róðurinn virtist vera farinn að þyngjast allverulega á stjórnarheimilinu í liðinni viku. Forsætisráðherra sagði meðal annars við mbl.is á föstudaginn að stórar yfirlýsingar formanns Vinstri grænna gætu óneitanlega skapað vanda og að stjórnin væri í brekku.
Vinstri græn ályktuðu á landsfundi sínum í síðustu viku að stjórnarsamstarfið væri að líða undir lok. Þá ætti að kjósa í síðasta lagi í vor, en kjörtímabilinu ætti að óbreyttu að ljúka næsta haust.
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, sagði í samtali við fréttastofu RÚV fyrr í dag að hann teldi að stutt væri í stjórnarslit ef flokkarnir ætluðu að setja hver öðrum úrslitakosti.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Athugasemdir (1)