Ályktun um að ríkisstjórnarsamstafi Vinstri grænna við Framsókn og Sjálfstæðisflokk fari senn að ljúka og að ganga þurfi til kosninga með vorinu var samþykkt á síðasta degi landsfundar VG í dag.
Halla Gunnarsdóttir, einn flutningsmaður ályktunarinnar, segir hana hafa verið samþykkta nánast samróma. „Í textanum segir að það séu mjög knýjandi viðfangsefni sem blasa við, þá sérstaklega í efnahags- og húsnæðismálum,“ segir Halla í samtali við Heimildina. „Hægri öflin leiti í of miklum mæli til lausna í leiðum sem færa almannagæði til gróðaaflanna og séu líka að ala á útlendingaandúð, sem gangi gegn stefnu VG.“
Forsenda þess að samstarf stjórnarflokkanna geti haldið áfram sé að takast á við þessi knýjandi verkefni á félagslegum grunni. Halla segir að sér þyki boltinn nú vera hjá Sjálfstæðisflokknum og Framsókn. „Að átta sig á eðli vandans – og koma að ríkisstjórnarborðinu með það markmið að leysa hann á þessum forsendum.“
„Ég er sátt við þessa niðurstöðu,“ segir Halla. „Hún er skýr á því að þetta samstarf sé komið að leiðarlokum. Og á því að verkefnið núna sé að takast á við efnahagsmálin og húsnæðismálin. Landsfundur VG er skýr á því að það þurfi að takast á við þau á félagslegum grunni. Forysta VG fer nestuð inn í næstu mánuði með það.“
Aðspurð vill Halla ekki tjá sig um hvenær verði nákvæmlega gengið til kosninga. Hún segir þó alveg ljóst að ríkisstjórnin muni ekki endast út kjörtímabilið.
Annað flutningsfólk ályktunarinnar voru þau Andrés Skúlason, Auður Alfífa Ketilsdóttir, Einar Ólafsson, Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, Helgi Hlynur Ásgrímsson og Saga Kjartansdóttir.
Athugasemdir