Ég er mætt aðeins of seint á landsfund Vinstri grænna. Ég hafði ekki gert ráð fyrir umferðinni og svo var ég pínulítið óviss um það hvar þetta væri eiginlega. Fundurinn fer fram í Víkingsheimilinu í Safamýrinni – ekki hinu raunverulega Víkingsheimili, sem er staðsett í Fossvoginum. Þetta olli pínulitlum ruglingi hjá mér. Svona háir það manni að hafa verið lélegur í hvers kyns hópíþróttum í æsku – íþróttamannvirkin verða manni hulin ráðgáta.
Ég geng inn um dyr sem eru nánast ómerktar, en ég er alveg viss um að ég sé stödd í réttu húsi. Fyrir innan þær er frekar grunnskólalegt anddyri. Ég segi það vegna þess að einn veggurinn er þakinn skóhillum með slangri af barnaskóm.
Ég sé strax að ég er á réttum stað. Þyrping fólks stendur við einhvers konar innritunarborð og er að gera grein fyrir sér. Það fær litla miða þar sem nafn þeirra og hlutverk á fundinum er tekið fram. Ertu gestur eða landsfundarfulltrúi? Allt er þetta hengt utan um háls fólks.
Ég er gestur, en er að öðru leyti ekki merkt. Er klæðaburður minn nógu VG-legur til að fólk telji að ég sé ein af þeim? Það má vel vera. Mér finnst ég næstum vera að villa á mér heimildir. Ég ráfa upp á efri hæðina þar sem mér hefur verið tjáð að fundurinn sjálfur verði. Mikið rétt, á henni er hátíðarsalur þar sem hann á greinilega að fara fram.
Víkingur eða Fram?
Þetta er íþróttaheimili, það leynir sér ekki. Þeir veggir sem ekki eru hvítir eru málaðir fagurrauðir og ég heyri í hrópum og köllum barna einhvers staðar nálægt. Það hefur þó verið gerð einhver tilraun til að merkja svæðið Vinstri grænum. Plastborðar með rauðum og grænum þríhyrningum hafa verið strengdir meðfram handriðinu á efri hæðinni. Starfsfólk flokksins gerir tilraun til að fela stórt Víkingsmerki með fána. Tilraunin reynist árangurslaus.
Ég hugsa með mér að það sé heppilegt að hreyfingin, hverra einkennislitir eru rauður og grænn, skuli hafa ákveðið að halda landsfundinn sinn einmitt hér – í hinum eldrauðu húsakynnum Víkings. Það hefði nú varla gengið að bjóða grasrótinni upp á húsakynni Fram, til dæmis, sem voru einmitt hér til húsa áður. Einkennislitur þess félags er nefnilega fagurblár.
Ég spyr Sunnu Valgerðardóttur, sem er starfsmaður hreyfingarinnar, hvort einkennislitir Víkings hafi ekki haft áhrif á staðarvalið. Það hélt hún nú ekki. Fundurinn hefði einfaldlega verið haldinn þar sem hægt var að koma honum fyrir. Ég skynjaði að einhver tímaþröng hefði haft áhrif. Viðburðurinn hefði allt eins getað verið haldinn í húsakynnum Fram hefði svo borið undir. Jæja, þar fór sú kenning mín.
Kapítalismi vs. hringrásarhagkerfi
Þrátt fyrir að dagskráin hafi bara hafist fyrir tíu mínútum er góður slatti af fólki mættur, þar á meðal fólk ofarlega í flokknum. Ég sé Steingrím J. Sigfússon, fyrrverandi formann, ganga inn í salinn. Svandís Svavarsdóttir, sem er ein í framboði til formanns flokksins, stendur við inngang rýmisins og heilsar fólki sem gengur inn. Við stigann standa Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður VG, og Jódís Skúladóttir, varaþingflokksformaður og frambjóðandi til varaformanns. Ég hangi fyrir utan og horfi niður, þar sem fólk ritar sig inn.
Skyndilega stendur Svandís við hliðina á mér. Ég spyr hana hvernig hún sé stemmd. „Gíruð. Það er svolítið mín grunnstilling,“ er svarið. Ég jánka og hún heldur áfram að heilsa gestum og gangandi.
Meðfram vestari vegg hæðarinnar eru gardínur dregnar fyrir glugga sem vísa þó greinilega ekki út. Ég kíki inn fyrir einar þeirra. Við blasir heljarinnar íþróttasalur á hæðinni fyrir neðan. Þar er urmull ungra barna á handboltaæfingu. Það útskýrir köllin.
Við gardínurnar hefur verið komið fyrir eins konar sölubásum. Dúkalagt borð – með bókum um VG, bollum merktum flokknum og körfu með nælum – stendur við hliðina á heljarinnar tússtöflu sem á stendur: „Markaðstorg kapítalisman$.“
Nokkrum metrum hægra megin við markaðstorgið er fataslá með talsvert af flíkum og svona þrisvar sinnum stærra borð fullt af bókum. „Nýlenduvöruskiptimarkaður VG,“ stendur á svipaðri tússtöflu og hinni. „Hringrásarhagkerfi eru best!“ er slagorð þessa markaðar. Hérna megin er allt frítt. Þegar ég spyr hver hugmyndin með mörkuðunum sé fæ ég það svar að þetta endurspegli húmor flokksins.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og starfandi formaður flokksins, kemur gangandi að salnum, fram hjá óhefðbundnu markaðstorgunum tveimur. Hann er að koma fyrir bleiku bindi um hálsinn á sér. Ég tek eftir því að andstæðingur hans í varaformannsslagnum, Jódís Skúladóttir, er líka klædd í bleikt. Það er jú október, mánuður bleiku slaufunnar.
Ég tek ekki eftir neinni kergju á milli Guðmundar og Jódísar. Þau faðmast og brosa fyrir ljósmyndara Morgunblaðsins sem gengur fram hjá þeim. Halla Gunnarsdóttir er mætt. Hún er klædd í lopapeysu og teymir á eftir sér lítið barn. Hún hverfur inn í salinn, sem fyllist jafnt og þétt.
Það er óvenjugott veður, logn og sól, þótt kalt sé. Salurinn er með gríðarstórum gluggum sem virðast fæstir hverjir vera opnanlegir. Fólk kvartar undan hita. Skilyrðin batna ekki eftir því sem fleiri mæta. Það er samt tiltölulega létt yfir fólki. Ég hefði haldið að í skugga slæmra fylgiskannana og erfiðs ríkisstjórnarsamstarfs myndi vera neikvæðari tónn í mannskapnum. Það kemur mér pínulítið á óvart hvað fólk er glaðlegt, stemningin er dálítið eins og á ættarmóti.
Klukkan er orðin 16 og ég sé að þriðji ráðherra Vinstri grænna, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, er mætt. Einmitt þegar hana ber að garði eru nokkuð margir að innrita sig. Hún, líkt og aðrir, þarf að bíða í röð eftir því að komast inn á fundinn. Hér er engin sérmeðferð þótt maður sé matvælaráðherra.
Ekki of seint að bjóða sig fram til formanns
Maður nokkur víkur sér að mér og spyr hvort ég vilji ekki kíkja á fundinn fyrir nýja landsfundarfulltrúa sem sé lengra inni á hæðinni. Jú, það vil ég endilega, og skunda rakleiðis þangað sem hann bendir. Í einhverju, sem ég held ég hafi réttilega greint sem matsal, sitja á annan tug í hring. Þetta skapar einhver hugrenningartengsl við AA-fund, ekki að ég hafi nokkurn tíma mætt á slíkan. Ég stend inni í eldhúskrók við hliðina og fylgist með.
Nýliðarnir eru allt frá því að vera á unglingsaldri, eða þar um bil, upp í greinilega ellilífeyrisþega. Reynsluboltar messa yfir mannskapnum. „Í almennum stjórnmálaumræðum má tala um hvað sem er. Það þarf bara að skrá sig á mælendaskrá.“ Eins og í karókí, hugsa ég. Nýliðarnir eru hvattir til að tjá sig og taka þátt.
Fólkinu er tjáð að það sé ekki of seint að bjóða sig fram til formanns. Allir hlæja. Það er enginn nýliði að fara að trompa Svandísi. „Það kynþokkafyllsta sem við gerum á landsfundi er að tala um lagabreytingar,“ segir einn reynsluboltinn. Aftur hlátur.
Fyrir utan landsfundarsalinn, við hliðina á stórum hljóðgræjum, er lítill kjörkassi. Á honum er lítill appelsínugulur minnismiði sem stendur á „NV.“ Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé mjög furðulegt grín eða bara tilviljun. Er þetta viljandi eða óviljandi tilvísun í óinnsigluðu og illa pössuðu kjörkassana í Norðvesturkjördæmi í kosningunum 2021?
Fólk er farið að koma sér fyrir inni í sal, svo ég geri það líka. Svo hefst fundurinn.
Það eru liðnar svona fimm mínútur og allir eru sestir þegar Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi formaður flokksins til 11 ára, gengur inn. Hún veifar til fólksins og knúsar sig í gegnum salinn miðjan. Hún virðist vera mjög vel stemmd og tekur sér góðan tíma í að heilsa áður en hún sest niður við vegginn gegnt útganginum.
Það er heitt hérna inni. Þeir sem taka til máls vekja athygli á því nokkrum sinnum. Ég sé nokkrar konur með blævæng og get ekki annað en dáðst að forsjálninni. Ég vorkenni þeim sem eru klæddir lopapeysum, sem eru þó nokkrir.
Það kemur að tónlistaratriði, sem virðist merkilegt nokk vekja ögn minni athygli en yfirlit reikninga flokksins sem farið hafði fram stuttu áður. Tvær konur, sem skipa hljómsveitina Evu, stíga á svið. Þær syngja lag sem fjallar um það að leita inn á við.
Við megum vera inn á við.
Umbúðalaus.
Aldrei vera umbúðalaus.
En eiga í frysti frosin bros, tárin brædd.
Ég má alls ekki vera utangátta og hrædd.
Hljómsveitarmeðlimirnir grínast með að lagið fjalli ef til vill um alþingismenn.
Síðan syngja þær öllu hressara lag um það að fara í sleik, en hljómsveitin kallar það lýðheilsutrix sem gestir eru hvattir til að stunda í frekari mæli. Ég sé Höllu Gunnarsdóttur dilla sér við lagið aftast í salnum. Annars virðist fólki nokkuð misskemmt yfir laginu.
Varnarræða sitjandi formanns
Sitjandi formaður stígur í pontu. Hann gantast við mannskapinn og lýsir yfir ánægju með fjöldann sem kominn er saman. „Þetta segir okkur að hér er líf. Fólkið er að koma til baka, nýtt fólk að bætast í hópinn. Ég finn að það er eftirvænting í loftinu.“
Það hlýtur að vera forystu flokksins huggun að vera með vel sóttan landsfund í ljósi nýjustu fylgiskannana. Flokkurinn hefur verið að dala jafnt og þétt eftir því sem liðið hefur á ríkisstjórnarsamstarf hans við Framsókn og Sjálfstæðisflokk. Samkvæmt nýjustu könnun Prósents er fylgi VG aðeins 3%, ekki nóg til að ná manni á þing.
Ræða Guðmundar Inga er löng. Í henni undirstrikar hann mikilvægi Vinstri grænna í íslensku stjórnmálaumhverfi og ítrekar sérstöðu hreyfingarinnar. Hann fer yfir það sem flokkurinn hefur áunnið í ríkisstjórnarsamstarfinu síðastliðin ár. Gott sem fullyrðir að það samstarf muni ekki halda áfram. Tekur þó fram að flokkurinn sé tilbúinn í frekara stjórnarsamstarf með öðrum vinstri- og miðjuflokkum.
Stjórnin virðist vera að heyja varnarbaráttu, sem er sennilega viturlegt í þeirra stöðu. Vinstri græn eru að minna á gildi sín, sem mörgum kjósendum finnst flokkurinn hafa fórnað á stalli málamiðlana í núverandi ríkisstjórn.
Guðmundur Ingi segir að á Gasa eigi sér nú stað þjóðarmorð. Þetta er í fyrsta skipti sem nokkur ráðherra í ríkisstjórninni segir það opinberlega. Samt er næstum ár síðan átökin á svæðinu ágerðust gríðarlega. Hann fordæmir kapítalisma. Hann gagnrýnir Samfylkingu og Viðreisn fyrir afstöðu þeirra í orkumálum og hjólar hálfvegis í Morgunblaðið og Viðskiptaráð fyrir ómálefnalega umræðu um óefni í grunnskólamálum.
Talið berst að Katrínu Jakobsdóttur í ræðunni. Guðmundur Ingi hrósar henni í hástert. Salurinn klappar og rís úr sætum, virðist taka undir orð hans. Fyrrverandi formaðurinn nýtur greinilegra vinsælda meðal síns fólks.
Eftir að arftaki hennar lýkur máli sínu stígur Katrín óvænt í pontu og heldur stutta tölu. Hún rifjar meðal annars upp fortíð sína og upphaf í flokknum og það sem hún sé stolt af að hafa leitt til lykta á sínum stjórnmálaferli. „Pólitík á að snúast um að breyta lífi venjulegs fólks til batnaðar.“
Katrín þakkar tveimur samstarfsmönnum sínum sérstaklega, Steingrími J. Sigfússyni og Svandísi Svavarsdóttur. „Sem ég fagna mjög að hefur gefið kost á sér sem formaður þessarar mikilvægu hreyfingar. Ég sakna alls ekki alls úr pólitík en ég sakna þess stundum að sitja ekki með Svandísi og leika ríkisstjórnarfundi, því það er góð skemmtun. Það er gott að það var aldrei beint streymi af þeim fundum.“
Að ræðu Katrínar lokinni rís salurinn aftur úr sætum sínum og klappar lengi.
Næst fer af stað umræða um lagabreytingar en ég hef engan tíma til að fylgjast með þeim. Ég er að reyna að birta frétt um innihald ræðu Guðmundar Inga á vef Heimildarinnar og tölvan er með bölvað vesen. Hún heimtar tveggja þátta auðkenningar vinstri hægri og þvertekur fyrir að vista nokkurn skapaðan hlut.
Landsfundarfulltrúi margra flokka
Þegar ég hef loks náð stjórn á tölvuófétinu er komið að kvöldverði. Það er síðasti liðurinn sem ég má vera viðstödd í dag því að næstum allur fundurinn hér eftir verður lokaður fjölmiðlum.
Ég rekst á kunningja minn frammi. Ég hafði rekið augun í hann þegar kynningin fyrir nýja landsfundarfulltrúa átti sér stað en ekki náð að taka hann almennilega tali. Þetta er rúmlega tvítugur nemi í háskólanum. Mig minnir endilega að hann hafi einhvern tíma gantast um það við mig að hann væri skráður í alla stjórnmálaflokka á landinu, enda mikill áhugamaður um stjórnmál. Það kom mér því á óvart að hann virtist hafa gerst flokkshestur í VG.
„Ég er það,“ svarar kunninginn þegar ég ber það undir hann hvort hann sé nokkuð skráður í fjöldann allan af flokkum. „Eða, ég er ekki skráður í Sjálfstæðisflokkinn. Ég fæ samt bréf frá þeim alltaf,“ bætir hann við.
Hann sýnir mér nælur sem hann hefur keypt sér á fyrrnefndu Markaðstorgi kapítalisman$. Á einni þeirra stendur Aldrei kaus ég Framsókn. „Ég er búinn að taka allar þær bestu. Þetta eru jólagjafirnar í ár.“
Aðspurður segist kunninginn ekki mæta á landsfundi allra flokka þrátt fyrir að vera skráður í þá. „En ég er varamaður í stjórn Pírata í Kópavogi.“
Hann skýrir fyrir mér að hann sé félagshyggjusinni og sé því skráður í Sósíalistaflokkinn, Pírata, VG og Viðreisn. Hann fær þó ekki að halda upptalningunni áfram því gömul kona heyrir samtal okkar, vindur sér að honum og spyr dálítið hneyksluð hvort hann sé í alvörunni skráður í alla þessa flokka. Hann brosir til hennar. „Mér finnst bara svo gaman að fá tölvupósta frá þeim – og jólakveðjur,“ svarar hann. Konan virðist skeptísk.
Ungt fólk með aðra flokkhollustu
Hann segir mér að virkni hans í svona mörgum flokkum skýrist af því sem honum finnist vera langvarandi þurrð í félagshyggju og „vilja til að hafa gaman“ vinstra megin rófsins. „Mér finnst lítið gert úr ungu fólki í pólitík. Minna en var,“ segir hann og bendir í kringum sig. Meðalaldurinn virðist vissulega nokkuð hár þar sem við stöndum.
Kunninginn bætir við að honum finnist hár aldur fólks á svæðinu sýna skýrt að ungt fólk hafi öðruvísi flokkshollustu en það eldra. Þau sem eldri eru hafi verið á staðnum frá upphafi og það sé stærri hluti af sjálfsmynd þeirra að tilheyra VG. Þess vegna séu þau ef til vill trygglyndari í garð flokksins.
Við ræðum aðeins meira um pólitík og stefnumál Vinstri grænna. Ég verð þó að fara að flýta mér, brátt mun liðurinn Almennar stjórnmálaumræður hefjast. Þær eru reyndar ekki svo almennar að óbreyttum og óflokksbundnum blaðamönnum sé til setunnar boðið.
Á hæðinni fyrir neðan fundinn eru alltaf fleiri og fleiri að safnast saman. Þetta er ekki fólk sem er skráð í Vinstrihreyfinguna – grænt framboð. Það er nefnilega að hefjast handboltaleikur í Grill 66-deildinni. Unglingar eru byrjaðir að grilla pylsur á grilli rétt fyrir utan. Ég staldra ekki nógu lengi við til að komast að því hvort leikurinn hafi nokkuð truflandi áhrif á landsfund VG sem heldur áfram án mín.
Hiti færist í leikinn á degi tvö
Það er laugardagur, annar dagur landsfundar VG. Ég er aftur mætt á eina dagskrárliðinn sem er opinn fjölmiðlum í dag. Stjórnarkjör og ávarp nýkjörins formanns VG.
Það virðist vera afslappaðri stemning í dag en í gærkvöldi. Guðmundur Ingi er til dæmis búinn að slaufa bindinu.
Katrín Jakobsdóttir stendur fyrir utan salinn og spjallar við fólk. Hún notar tvö spjöld, annað grænt og hitt rautt eins og blævængi. Á þeim standa orðin „já“ og „nei.“
Þegar ég geng inn í salinn sé ég að Katrín er ekki sú eina sem notar spjöldin í þessum tilgangi. Hér er bæði heitt og gríðarlega þungt loft. Enn verra en í gær, enda fólk búið að vera hér síðan eldsnemma í morgun. Fólk kvartar yfir slæmri loftræstingu og margir eru komnir á stuttermabolina.
Rafræna kosningin lætur á sér standa
Kosningarnar eru rafrænar, ekki á blaði, svo niðurstöðurnar liggja strax fyrir eftir að kosið er. Það tekur hins vegar heljarinnar tíma að komast í það að kjósa. Ekki vegna þess hve salargestir eru tækniheftir, þrátt fyrir að margir hér inni hafi sennilega kynnst Internetinu fyrst um miðjan aldur, heldur því að álagið á kerfið er svo gríðarlegt þegar allir reyna að skrá sig inn í kosningakerfið með rafrænum skilríkjum á sama tíma.
Fólk er tekið að ókyrrast. „Reynum að halda ró okkar,“ segir kona sem stendur í pontu og stýrir aðförunum. Hún stingur upp á því að fólk rökræði sín á milli um kosti og galla stafafuru og lúpínu, eða um muninn á fjöl- og einbýlishúsum. Fólk er enn bara að reyna að komast inn í prufukosningakerfið, þar sem einn valkosturinn er Jóakim Aðalönd sem næsti gjaldkeri. Kosningarnar sjálfar eru ekki nærri því hafnar. Vá, hvað það er heitt hérna. Ég klæði mig úr peysunni.
Loks stingur einhver upp á því að það sé góð hugmynd að fólk syngi svolítið til að létta lundina. Steingrímur er fenginn til að leiða mannskapinn í gegnum Maístjörnuna. Allir rísa úr sætum og syngja. Það er klappað þegar söngnum lýkur.
Prufukosningin opnar loksins. Steingrímur er sestur niður og kýs í spjaldtölvu með bleiku hulstri. Katrín situr við hlið hans.
Það er samt ennþá eitthvað voðalegt álag á kerfinu og ég geng út úr salnum til að taka mér smá pásu frá loftleysinu. Það er einhver streita í starfsfólkinu. Framkvæmdastjóri flokksins þeysir fram hjá mér og eitthvað inn í hús. „Hvar er kjörstjórn?“ kallar hann.
Brynhildur Björnsdóttir varaþingmaður grínast með ástandið. „5G er VG. Þið vitið, eins og rómversku tölurnar – V er fimm.“
Prufukosningin gengur hægt fyrir sig þegar hún er loksins opnuð. Fólk kemst ekki inn á hana. Ég er þyrst. Það standa hér fullar vatnskönnur en öll glösin eru búin. Fundarstjórinn lýsir í hálfgerðu gríni yfir söknuði í garð kjörkassa og kosninga upp á gamla mátann. Mér heyrist Jóakim Aðalönd hafa unnið gjaldkerann.
Að endingu fer stjórnarkjörið í gang. Formaðurinn er fyrstur. Fólk kýs, mundandi snjallsímana, og eftir að kosningunni er lokað líður aðeins mínúta áður en niðurstöðurnar liggja fyrir – enda engin þörf á endurtalningu.
Svandís er ein í framboði, svo það þarf ekki að spyrja að leikslokum. Samt fer fólk að berja í borð, eins og beðið sé eftir gríðarlega spennandi úrslitum. Niðurstaðan er kynnt: 169 kusu Svandísi, sex skiluðu auðu. Salurinn fagnar og rís úr sætum og Svandís heldur ræðu. Hún er löng, líkt og ræða þáverandi formanns daginn áður. Svandís stappar stálinu í mannskapinn. Talar um hægrisveiflu og mikilvægi VG.
Guðmundur Ingi er kjörinn varaformaður. Ég reyni að dæla út fréttum um þróun mála.
Þrátt fyrir það sem virðist vera samheldið yfirborð eru greinilega ólík sjónarmið meðal flokksmanna. Á fundinum var samþykkt ályktun um að ríkisstjórnarsamstarfið við Sjálfstæðis- og Framsóknarflokk væri að taka enda. Ég mátti ekki vera viðstödd umræðurnar en ég veit að það var tekist á um hana. Einhverjir vildu eflaust meiri endurnýjun í flokksforystunni.
Fólk er óánægt með stjórnarsamstarfið en hvenær á að slíta? Út á við er sagt að kjósa eigi í vor. En hvað þýðir í vor? Febrúar eða maí? Og þangað til gæti reynst erfitt að tjónka við hægrisinnaðri flokkana um hvernig eigi að koma til móts við heimilin sem verðbólga og stýrivaxtahækkanir bíta linnulaust í.
Það er að hefjast liður sem ég má ekki vera vitni að – afgreiðsla stefnubreytinga. Fólk er farið að munda rauðu og grænu já/nei spjöldin sín. Bráðum mun það reisa þau til lofts til að láta í ljós skoðanir sínar. Eða ekki. Meðan ég sé enn til eru þetta ennþá bara óhefðbundnir blævængir.
Athugasemdir