Kona með sykursýki eitt byrjaði að framleiða sitt eigið insúlín innan við þremur mánuðum eftir að hún fékk ígræðslu með endurforrituðum stofnfrumum.
Frumurnar komu úr hennar eigin líkama og er konan, sem er 25 ára gömul, fyrsta manneskjan með sjúkdóminn sem er meðhöndluð með þessum hætti.
„Ég get borðað sykur núna,“ sagði konan, sem býr í Tianjin í Kína, við vísindatímaritið Nature. Rúmt ár er liðið síðan stofnfumurnar voru græddar í hana. „Ég nýt þess að borða hvað sem er.“
James Shapiro, ígræðsluskurðlæknir og vísindamaður við háskólann í Alberta í Kanada, segir að árangurinn af aðgerðinni sé ótrúlegur. „Þeim hefur tekist að snúa algjörlega við sykursýki sjúklingsins sem þurfti á verulegu magni af insúlíni að halda áður.“
Rannsókn á ástandi konunnar var birt í vísindatímaritinu Cell nýverið og er hún á meðal nokkurra nýlegra rannsókna þar sem stofnfrumur eru notaðar til að meðhöndla sykursýki. Sjúkdómurinn hefur áhrif á um hálfan milljarð manna um allan heim. Stærstur hluti hópsins er með sykursýki tvö. Fólk með þann sjúkdóm framleiðir ekki nóg insúlín eða geta líkamans til þess að nota hormónið er skert verulega. Talið er að allt að 10% Íslendinga glími við sykursýki en algengi hennar hefur farið mjög vaxandi á síðustu árum eins og víðar í Evrópu.
Athugasemdir