Það er mat Veðurstofu Íslands að kafla um náttúruvá vanti í tillögu að deiliskipulagi lóða sem niðurdælingarverkefni Carbfix, Coda Terminal, yrði á í Hafnarfirði. Svæðið sem er til umræðu er á Kapelluhrauni, sögulegu hrauni frá eldstöðvakerfi Krýsuvíkur, rifjar Veðurstofan upp í umsögn sinni um deiliskipulagstillöguna. „Þar sem gosskeið er hafið á Reykjanesskaganum er enn mikilvægara að hafa hrauna- og eldgosavá í huga þegar kemur að skipulagsmálum, þrátt fyrir að Krýsuvík sýni ekki merki um kvikusöfnun akkúrat núna.“
Veðurstofan leiðir nú verkefni um áhættumat fyrir Reykjanesskagann í heild sem á að klárast á fyrri hluta árs 2026, en innan þess verkefnis er höfuðborgarsvæðið í forgangi. Gert er ráð fyrir að mat á hraunavá verði tilbúið fyrir höfuðborgarsvæðið á næstu 12 mánuðum.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti í júní að auglýsa breytingu á deiliskipulagi Hellnahrauns 3 sem og nýtt deiliskipulag í sunnanverðu Kapelluhrauni fyrir borteiga vegna Coda Terminal. Samkvæmt breytingunni stækkar skipulagssvæðið, lóðir eru sameinaðar og fleirum bætt við. Samkvæmt tillögunum yrði heimilt að hafa borteiga með öllu því sem til þarf til niðurdælingar CO2 í jarðlög á svæðinu. Á borteigum yrði CO2 leyst í vatni og dælt niður í berglögin þar sem það steingerist.
Á hverjum teig yrðu allt að átta niðurdælingarholur ásamt 2–4 vatnstökuholum. Heimilt er að byggja eina þjónustubyggingu á hverri lóð, áætluð stærð er um 150 fermetrar og veðurskýli yfir hverja borholu og er áætluð stærð hvers skýlis um 40 fermetrar.
Samhliða deiliskipulagstillögum er gerð tillaga að breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðar.
Frestur til að skila athugasemdum hefur verið framlengdur til 10. október.
Athugasemdir