Í júlí árið 2022 sagði Boris Johnson af sér sem forsætisráðherra Bretlands eftir röð hneykslismála. Snerist eitt þeirra skrautlegri um gulli skreytt veggfóður.
Þegar Boris og kona hans fluttu inn í Downingstræti hófust þau handa við að gera upp sögulegar vistarverurnar. Boris var hins vegar blankur og sannfærði styrktaraðila Íhaldsflokksins um að greiða fyrir framkvæmdirnar. Ekkert var til sparað. Kostaði ein rúlla af ríkmannlegu veggfóðrinu heilar 150.000 krónur.
Þegar heimilisumbæturnar spurðust út vakti aðkoma styrktaraðilans hneykslun meðal almennings. Þótti málið lykta af spillingu. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Keir Starmer, nýtti hvert tækifæri sem gafst til að núa Boris veggfóðrinu um nasir.
Í júlí árið 2024, tveimur árum síðar, tók Keir Starmer við embætti forsætisráðherra. Starmer, sem kallaður er „herra reglufylginn“ – með lotningu af bandamönnum og í háði af pólitískum andstæðingum – átti að vera andhverfa hins óstýriláta Borisar.
Svo kann þó að vera að þeir séu ekki jafnólíkir og virðist í fyrstu.
Landsfundur Verkamannaflokksins fór fram í vikunni í skugga skandals sem skekur nýja ríkisstjórn Bretlands. Svo virðist sem forysta flokksins hafi árum saman þegið gjafir frá pólitískum styrktaraðilum og velunnurum. Á síðustu fjórum og hálfu ári þáði Keir Starmer styrki og gjafir að andvirði 100.000 punda, eða um 18 milljóna íslenskra króna, þar á meðal miða á Taylor Swift-tónleika og Arsenal-fótboltaleiki, tískufatnað og -gleraugu.
Starmer benti á að engar reglur hefðu verið brotnar. Sú staðreynd dugði þó skammt til að lægja öldurnar. Gjá virtist hafa myndast milli þess sem mátti samkvæmt reglunum og þess sem almenningi fannst í lagi.
Enginn meiri afsláttur
Í síðasta tölublaði Heimildarinnar birtist úttekt á stöðu Sjálfstæðisflokksins. Á gullaldarskeiði sínu gekk flokkurinn að 40% atkvæða vísum. Í nýlegri skoðanakönnun mældist hann hins vegar aðeins með 13,9% fylgi.
Sjálfstæðismenn virtust margir skella skuld fylgishrunsins á Vinstri græn. Sagði formaður Heimdalls, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, Sjálfstæðisflokkinn þurfa að hætta að gefa afslátt af stefnumálum sínum í ríkisstjórnarsamstarfinu.
Sjálfstæðisfólki væri þó ef til vill hollt að líta sér nær.
Vinirnir vandamálið
„Keir hyggst hætta að þiggja ókeypis föt“, kváðu fyrirsagnir breskra fjölmiðla þegar Starmer og ráðherrar hans horfðust loks í augu við þá staðreynd að þau gætu ekki í senn notið rausnarlegra gjafa vildarmanna flokksins og trausts kjósenda, sama hvað stóð í reglunum.
Sjálfstæðismenn telja margir forystufólk sitt hafa misst sjónar á hefðum flokksins, gildum á borð við ráðdeild í ríkisrekstri og lækkun skatta. Gæti hins vegar verið að það sé einmitt ein af hinum gömlu hefðum sem er honum nú fjötur um fót?
„Almenningi líður eins og flokkurinn sé ekki með þeim í liði“
Frá ómunatíð hefur nánd Sjálfstæðisflokksins við valda hagsmunaaðila og viðskiptablokkir verið álitin ein af óbreytanlegum staðreyndum íslensks samfélags. Hvort sem vofir yfir ríkisútboð eða sala á ríkiseignum eru skjólstæðingar flokksins sjaldan langt undan. En þótt reglurnar leyfi slíkt þýðir það ekki að almenningur muni alltaf líða það.
„Almenningur skilur ekki hvers vegna stjórnmálafólk þáði þessar gjafir,“ sagði Laura Kuenssberg, stjórnmálaskýrandi BBC, um gjafahneykslið sem skekur Verkamannaflokkinn. „Honum líður eins og ríkisstjórnin sé ekki með þeim í liði.“
Sjálfstæðismenn telja flestir fylgistap flokksins tengjast pólitískum andstæðingum sem þeir sitja með í ríkisstjórn. Verið getur þó að það séu ekki andstæðingarnir heldur einmitt vinirnir sem eru vandamálið.
Breskir kjósendur skilja ekki hvers vegna stjórnmálafólk landsins er alltaf að þiggja gjafir af velunnurum flokksins; íslenskir kjósendur skilja ekki hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn er alltaf að gefa velunnurunum gjafir. Í báðum tilfellum er afleiðingin sú að almenningi líður eins og flokkurinn sé „ekki með þeim í liði“.
Athugasemdir (1)