Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að rannsókn á slysinu á Breiðamerkurjökli sé á lokastigi. Maður frá Bandaríkjunum lést í slysinu og unnusta hans slasaðist. Hún hefur verið útskrifuð af sjúkrahúsi samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar en greint var frá því skömmu eftir slysið að konan væri barnshafandi.
23 ferðamenn voru í íshellaferðinni sunnudaginn 25. ágúst þegar slysið varð en ferðin var á vegum ferðaþjónustufyrirtækisins Ice Pic Journeys.
Sveinn Kristján segir að búið sé að taka skýrslur af „hátt í tuttugu manns“. Hann segir að grunnskýrslur hafi verið teknar strax eftir slysið enda hafi flest fólkið sem ræða þurfti við verið ferðamenn sem stoppuðu stutt á Íslandi.
„Við sendum fólk úr rannsóknardeildinni okkar austur þennan dag og mikið af skýrslunum voru því gerðar á staðnum,“ segir hann og bætir við að lögregla hafi einnig „verið í góðum samskiptum við fyrirtækið sem skipulagði ferðina, meðal annars fengið öll gögn sem við kölluðum eftir.“
Í kjölfar slyssins var skipaður starfshópur sem í sitja fulltrúar frá fjórum ráðuneytum. Hópurinn á að fara yfir öryggismál í jöklaferðum og skoða sérstaklega hvað fór úrskeiðis á Breiðarmerkurjökli þegar slysið varð.
Þá óskaði Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra í síðustu viku eftir tilnefningum í starfshóp um öryggismál í ferðaþjónustu. Honum er falið að skoða með heildstæðum hætti regluverk sem snýr meðal annars að öryggi ferðamanna og eftirlit með því, upplýsingagjöf til ferðamanna, skráningu slysa og óhappa, áhættumat á áfangastöðum, fjarskiptasamband um landið og viðbragðstíma viðbragðsaðila.
Athugasemdir