Einkaþjálfarinn Guðmundur Emil Jóhannsson, oftast kallaður Gummi Emil, hefur ákveðið að greina frá því að það var hann sem að gekk nakinn eftir miðjum Suðurlandsvegi í gær.
Sagt var frá því í fjölmiðlum að lögregla hefði haft afskipti af nöktum manni á Suðurlandsvegi sem var síðan færður á bráðamóttöku vegna andlegs ástands. Hann, og annar maður, munu hafa verið að baða sig í Hólmsá.
„Þannig var mál með vexti að ég hafði ákveðið að taka þátt í fara í sveppatúr ásamt 2 öðrum einstaklingum,“ skrifar Guðmundur Emil á Instagram. Hann segir að túrinn hafi átt að standa frá 8 um morguninn til klukkan 14. „Þetta gera menn og konur til að leita innávið og hefur oft á tíðum skilað góðum árangri.“
Mildi að ekki fór verr
Guðmundur Emil segir það nauðsynlegt að fólk sem þetta stundi séu undir eftirliti einhverra sem eru allsgáðir.
„Það varð ekki raunin á þessum örlagaríka sunnudegi og það sem gerðist frá því ég tek þessa sveppi og ég ranka við mér á bráðadeild Landsspítalans er mér nánast hulið. Það sem ég veit eftirá er að lögreglan bjargar mér af Suðurlandsvegi þar sem ég geng allsnakinn eftir miðjum veginum. Það er í raun mikil mildi að ekki fór verr fyrir mér og öðrum. Ég er mjög þakklátur löggæslu og starfsfólki bráðamóttöku fyrir hjálp þeirra,“ skrifar Guðmundur Emil.
Hann segir það ljóst að hann muni ekki fara í svona meðferð á næstunni. Þá verði að brýna fyrir fólki að „takast ekki á við ferðalag sem þetta nema með fagaðilum sem kunna til verka.“ Í þetta skiptið hafi verið „guðsmildi“ að ekki fór verr. „Elsku landsmenn það er auðvitað langbest að anda djúft að sér góða loftinu hérna hjá okkur á Íslandi og láta þar við sitja,“ segir Guðmundur að lokum.
En einhverja „meðferð” samt ?