Fyrir skömmu skrifaði ég pistil hér í Heimildina um teikningu barns af Hallgrímskirkju. Teikningu sem var búið að hengja upp á innanverða útidyrahurð á heimili fjölskyldu í Reykjavík. Mig grunaði ekki að skömmu síðar yrði þessari sömu hurð sparkað upp. Teikningar barnsins hangandi á brotnum spón.
Grímuklæddir menn brutust inn á heimili fjölskyldunnar rétt fyrir miðnætti þann fimmtánda september síðastliðinn. Sneru heimilisfaðirinn niður og settu hnéð í bakið á honum. Rifu af honum símann og leituðu í allri íbúðinni. Ofsinn var svo mikill að heimilisfaðirinn er með brákað rifbein eftir aðfarirnar. Hann bað um að fá að hringja í lögmann. Hann bað um að fá að hringja í eiginkonu sína. Ekkert svar.
Á sama tíma var barnið sem teiknaði myndirnar sofandi á spítala. Hann er með einn þann hrottalegasta hrörnunarsjúkdóm sem leggst á börn. Hann er í hjólastól. Stöðugt verkjaður. Hann er ellefu ára.
Móðir hans svaf í rúmi við hlið hans. Hún er múslimi og tekur bara af sér höfuðslæðuna þegar hún er í félagsskap kvenna eða nánustu fjölskyldumeðlima. Hún svaf ekki með hana af því að hún hélt að þau væru örugg.
Skyndilega vakna þau við að herbergið fyllist af fólki. Það er leitað á henni allri. Farið í gegnum allar þeirra fáu veraldlegu eigur. Síminn tekinn. Hún fær ekki að setja á sig höfuðslæðuna án þess að karlkyns lögreglumenn standi yfir henni, þrátt fyrir að þarna sé líka kvenkyns lögreglumaður. Fyrir konur sem eru múslimar er það að vera án höfuðslæðunnar í félagsskap ókunnugra karlmanna tegund af ofbeldi, eins og að vera nakin, misnotuð. Hún er ringluð, óttaslegin.
Hún fær ekki að hringja í lögmann, hún fær ekki að hringja í eiginmann sinn. Það er ekki haft samband við réttindagæslu fatlaðra, líkt og lögreglunni ber skylda til að gera. Sonur hennar grætur og hún segir honum að þetta sé allt í lagi. Hún heldur ró sinni. Starfsfólkið á sjúkrahúsinu grætur. Hún heldur ró sinni. Í bílnum biður hún um að fá að sjá einhver skilríki. Lögreglumaður veifar einhverju en leyfir henni ekki að sjá neitt almennilega. Enginn vill segja til nafns. Enginn svarar spurningum. Þau eru flutt í hvítt og gluggalaust herbergi uppi á flugvelli. Hún heldur ró sinni af því að hún getur ekkert annað. Hún þarf að hugsa um son sinn.
Móðirin fær að hringja í lögmann sinn, án þess að hafa túlk, í örfáar mínútur rétt fyrir klukkan 02:00. Síminn er svo strax rifinn af henni aftur. Þau fá ekki að fara á klósettið án þess að lögreglumaður standi yfir þeim inni á salerninu.
Hver er glæpur hennar? Hver er glæpur þeirra?
Í Kastljósi gærkvöldsins var Marín Þórsdóttir, verkefnastjóri hjá heimferðar-og fylgdardeild ríkislögreglustjóra fengin í viðtal og hún virtist vera með svör við þeirri spurningu.
Hér er brot úr viðtalinu:
Blaðamaður: „Þú segir að yfirleitt sé reynt að hafa samstarf í svona málum. Má þá skilja sem svo að í þessu tilfelli hafi ekki verið haft samband áður vegna þess að þið hafið ekki talið fjölskylduna samvinnufúsa?“
Marín: „Já, það er rétt að oft reynum við að vera í samstarfi við einstaklingana og aðstandendur þeirra. En þegar fólk hefur ítrekað komið fram í fjölmiðlum án þess að lýsa yfir samstarfsvilja, þá verðum við stundum að bregðast við með öðrum hætti. Í slíkum tilvikum fer fram hagsmunamat til að meta hvort viðkomandi er líklegur til að vera samstarfsfús. Ef niðurstaðan er að samstarfsvilji sé ekki til staðar, þá þarf því miður stundum að grípa til harkalegri aðgerða.“
!!!!
Fjölskyldan átti sumsé að koma fram í viðtölum og lýsa sérstaklega yfir samstarfsvilja? Við erum samstarfsfús, hefðu þau átt að segja berum orðum. Við viljum að lögreglan viti að við erum samstarfsfús. Þeim láðist að gera það og þess vegna varð að meiða þau. Barnið er í hjólastól. Er lögreglan virkilega að halda því fram að fjölskyldan hafi þótt líkleg til að beita líkamlegri mótspyrnu og ofbeldi við brottflutninginn?
„Ég varð bara að meiða þig. Það að ég meiddi þig var þér að kenna. Sérðu það ekki?“
Viðtalið var klassísk gaslýsing ofbeldismanns: Ég varð bara að meiða þig. Það að ég meiddi þig var þér að kenna. Sérðu það ekki?
Þeim var aldrei boðið til samstarfs. Það var ekki hringt í þau og sagt – jæja, við erum að koma núna. Það voru ekki tveir eða þrír lögreglumenn sem bönkuðu upp á.
Nei. Þau voru meðhöndluð eins og harðsvíruðustu glæpamenn. Þessi langveiki drengur og foreldrar hans voru rifin út um miðja nótt á svefntíma barnsins af heilum her af fjandsamlegu og þöglu fólki. Í tilfelli föðursins, beinlínis ofbeldisfullu fólki.
Foreldrar Yazan eru ekki glæpamenn. Þau eru foreldrar langveiks barn. Þau ættu að vera í stuðningshópum. Sálfræðimeðferð. Sorgarmeðferð. Þau voru bogin en nú eru þau brotin.
Góð stjórnsýsla, sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra um framkvæmd brottvísunarinnar á aðfaranótt mánudags. Slæm stjórnsýsla, sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra um frestun brottvísunarinnar á mánudagsmorgunn.
Nei. Góða stjórnsýslu þarf ekki að fela í skjóli nætur!
Þegar lögreglan framkvæmdi þessa harðneskjulegu aðgerð án samstarfs við réttindagæslu fatlaðra var málið komið inn á borð Guðmundar Inga, félags- og vinnumarkaðsráðherra. Það er hlutverk hans ráðuneytis að gæta þess að réttindi fatlaðra séu ekki brotin hér á landi. Hvað þá af ríkinu sjálfu.
Tímasetningin var ekki tilviljun. Sunnudagsnótt, þegar allur heimurinn sefur. Nema barn með hrörnunarsjúkdóm og foreldrar þess.
Þau sofa ekki enn. Íslenska ríkið hefur rænt þau svefninum. Kannski til frambúðar. Ofbeldinu er ekki lokið. Ákvörðunin skal standa. Heimili þeirra er ekki lengur griðastaður. Sjúkrahús er ekki lengur griðastaður. Þau voru bogin en nú eru þau brákuð og brotin.
Hverjir fá hins vegar að sofa vært á nóttunni?
Þau sem beita ofbeldinu.
Þau sem fyrirskipuðu ofbeldið.
Þau sem koma og verja það í sjónvarpinu.
Þau sofa. En skömmin er þeirra.
ALDREI KAUPA KJÖRÍS!