Starfsemi á borð við námuvinnslu og botnvörpuveiðar er enn stunduð innan flestra þeirra hafsvæða ríkja Evrópusambandsins sem eiga að njóta verndar. Að mati vísindamanna verður því ólíklegt að teljast að markmið sem sett voru með vernduninni, sem m.a. snúast um að standa vörð um líffræðilegan fjölbreytileika, munu ekki nást að óbreyttu.
Í nýrri rannsókn sem birt er í vísindatímaritinu One Earth Journal er rifjað upp að Evrópusambandið hafi skuldbundið sig til að vernda 30 prósent hafsvæða sinna fyrir árið 2030 og 10 prósent þeirra fyrir allri skaðlegri starfsemi. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar nýtur aðeins brot af hinum skilgreindu verndarsvæðum mikillar verndar og því langt í frá að fyrrgreind markmið náist. „Þetta sýnir að við erum aðeins á byrjunarreit þegar kemur að því að vernda höfin okkar,“ segir Juliette Aminian-Biquet, aðalhöfundur rannsóknarinnar og haffræðingur við Háskólann í Algarve í Portúgal.
Stórkostlegar breytingar þurfa að mati vísindamannanna að koma til svo að markmið ESB um að 10 prósent hafsvæða sem tilheyra ríkjum þess njóti strangrar verndar.
Til að aðildarríki ESB taki stefnu í verndarmálum alvarlega verður að binda verndina í lög í hverju ríki fyrir sig að mati vísindamanna. Framkvæmdastjórn ESB segir að tilmæli þess efnis hafi verið send ríkjunum og þau einnig minnt á að samkvæmt aðgerðaáætlunum sé stefnt að því að botnvörpuveiðum verði hætt fyrir árið 2030. Tillaga þess efnis var felld á Evrópuþinginu í byrjun árs og flest aðildarríki hafa enn ekki sett sér markmið um hvenær þau hyggist hætta slíkum veiðum. Grikkland reið hins vegar á vaðið og hefur bannað botnvörpuna og sömu sögu er að segja frá Svíþjóð.
Athugasemdir (2)