Tæp tvö ár eru liðin síðan hersveitir Úkraínu keyrðu inn í Kherson-fylki hratt á hæla hersveita Rússa og hröktu þær úr héraðinu. Þar mættu þær brosandi íbúum í þúsundatali sem fögnuðu hástöfum frelsi úr grimmri hersetunni.
Heimamenn í Kherson hafa sannarlega lifað tímana tvenna í gegnum þetta hörmulega stríð. Fyrst innrás og hersetu, síðan hægfara eyðileggingu úr lofti, svo í júní 2023 stórflóð þegar Rússar sprengdu upp Kakhovka-stífluna með þeim afleiðingum að vatn flæddi yfir 620 ferkílómetra og olli þar stærstu náttúruspjöllum í Evrópu síðan í Tsjernobyl-kjarnorkuslysinu.
Það er erfitt að gera sér í hugarlund hve yfirþyrmandi umhverfisspillingin í kjölfar árásarinnar var. Alls 18 rúmkílómetrar af vatni, sem áður voru í lóni Kakhovka-stíflunnar, flæddu yfir um 37.000 heimili, alls 80 þorp og byggðarkjarna, sem og aðra mikilvæga innviði í fylkinu.
Athugasemdir (1)